Donald Trump Bandaríkjaforseti gagnrýndi Kínverja, stjórnvöld í Venesúela og forsætisráðherra Kanada, harðlega á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna.
Hann sagði Kínverja vera að skipta sér af kosningunum í Bandaríkjunum, og þeir væru að reyna að koma í veg fyrir að hann yrði kosinn aftur. „Það mun ekki takast. Við erum að vinna,“ sagði Trump, en Kínverjar svöruðu því til að þetta væri þvættingur í Trump, og engar sannanir væru til fyrir þessum alhæfingum forsetans.
Í gær beindustu spjótin síðan að stjórnvöldum í Veneseúela en Trump virtist í ræðu sinni ekki útiloka að Bandaríkin myndu beita hervaldi í Venesúela. Trump sagði óstjórn ríkja í landinu og Bandaríkin vildu hjálpa til við að koma á röð og reglu. Nicolas Maduro, hinn umdeildi forseti Venesúela, sagðist vilja eiga fund með Trump til að ræða um stöðuna í Venesúela og reyna að liðka fyrir betri samskiptum milli ríkjanna. Það hefur enn ekki tekist, en ástand efnahagsmála er í molum í þessu annars auðlindaríka ríki í Suður-Ameríku. Verðbólgu mælist í þúsundum prósenta og skelfilegt ástand er víða í landinu vegna lyfjaskorts.
China is actually placing propaganda ads in the Des Moines Register and other papers, made to look like news. That’s because we are beating them on Trade, opening markets, and the farmers will make a fortune when this is over! pic.twitter.com/ppdvTX7oz1
— Donald J. Trump (@realDonaldTrump) September 26, 2018
Trump beindi einnig spjótunum að Kanada og neitaði meðal annars að funda með Justin Trudeau, forsætisráðherra Kanada. Þessar grannþjóðir hafa átt í stirðum pólitískum samskiptum upp á síðkastið en Trump vill beita tollum í meira mæli í viðskiptum við bæði Kanada og Mexíkó, og segir að með því takist betur að vernda bandaríska hagsmuni.
Þrátt fyrir harða gagnrýni gagnvart þessum fyrrnefndu þjóðum, þá átti hann fundi með Theresu May, forsætisráðherra Bretlands, Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísraels, og Abe forsætisráðherra Japans. Eftir fundina fagnaði hann góðum samskiptum við þessa mikilvægu vini Bandaríkjanna.