Reiknistofa Bankanna (RB) mun á næstunni fara af stað með snjallsímaforritið Kvitt sem gerir notendum kleift að borga með millifærslu gegnum síma hjá söluaðilum.
Færslugjöld verða með þessu mun hagstæðari þar sem ekki verður þarft að notast við debet- eða kreditkort. Þar með verða posar óþarfir í viðskiptum þar sem notast er við Kvitt.
Í samtali við Morgunblaðið í dag, segir Aðalgeir Þorgrímsson, framkvæmdastjóri sérlausna Reiknistofu Bankanna og framkvæmdastjóri Kvitt, að prófanir á búnaðinum hafi gengið vel undanfarna mánuði.
„Þetta er í raun app hjá okkur og þú ferð í verslun og borgar í þessari greiðsluvél, Kvitt. Þú berð símann upp að nemanum, sem er svona greiðslukubbur, færð upphæðina á skjáinn og hjá hvaða söluaðila þú ert staddur og staðfestir,“ segir Aðalgeir.
Í Morgunblaðinu segir einnig að RB hafi farið í samstarf við Verifone þannig að hægt verði að greiða með Kvitt í posum á þeirra vegum en að sögn Aðalgeirs eru þeir með um 70% markaðshlutdeild á Íslandi. Spurðir um hvort Kvitt gæti ekki gert minni söluaðilum kleift að sleppa því að vera með posa segir hann svo vera. „Posi kostar töluvert þannig að þetta hentar minni aðilum vel. Þannig þurfa þeir ekki að fara í greiðslukerfi ef þeir kjósa það,“ segir Aðalgeir.