Í nótt náðist samkomulag um nýjan fríverslunarsamning Norður- Ameríkuríkja, NAFTA. Ríkin þrjú, Bandaríkin, Mexíkó og Kanada staðfesta þetta í sameiginlegri yfirlýsingu þar sem fram kemur að með nýja samningnum munu markaðir verða frjálsari, viðskipti sanngjarnari og hagkerfi ríkjanna þriggja muni dafna betur í kjölfarið. Í stað NAFTA mun nýi samningurinn heita USMCA eða Samningur Bandaríkjanna, Mexíkó og Kanada. Frá þessu er greint á vef BBC.
Stærsta hindrunin í samningaviðræðum Bandaríkjanna og Kanada voru verndartollar Kanada á innfluttum mjólkurvörum. Í yfirlýsingunni kemur hins vegar ekki fram nákvæmlega hvað muni felast í nýja samningnum en samkvæmt heimildum BBC þá mun hann auka aðgang bandarískra bænda að mjólkurvörumarkaði Kanada um 3,5 prósent. Auk þess mun tollfrjáls útflutningur bíla til Bandaríkjanna frá Kanada aukast eða um 2,6 milljónir bíla. Bandaríkjastjórn lagði nýlega 25 prósent innflutningstolla á erlenda bíla á grundvelli þjóðaröryggishagsmuna.