Íslenska flugfélagið Primera Air er á leið í gjaldþrot, samkvæmt umfjöllun vefsins Aviation.be, sem fjallar mikið um málefni flugfélaga. Tölvupóstur til starfsfólks er birtur á vefnum.
Segir í umfjöllun vefsins að félagið muni óska eftir gjaldþrotaskiptum á morgun.
Félagið hefur verið umsvifamikið í ferðaþjónustu á Norðurlöndum og Eystrasaltslöndum, með höfuðstöðvar í Danmörku, en forstjóri félagsins og stærsti eigandi er Andri Már Ingólfsson.
Stutt er síðan Andri Már sagði að fjárhagslegri endurskipulagningu félagsins hafi lokið, en í viðtali við Fréttablaðið 12. september síðastliðinn sagði hann meðal annars áframhaldandi vöxtur félagsins sé í kortunum. „Það tók heilu ári lengur að innleiða nýtt sölu- og bókunarkerfi en upphaflega var áætlað og á meðan þurftu félögin að reka tvöföld kerfi, sem var óhemju dýrt. Mikið af þessum kostnaði féll til á árunum 2016 og 2017. Þessum breytingum er nú lokið og er horft til 8 prósenta vaxtar á árinu 2018 og um 15 prósenta vaxtar á árinu 2019, þar sem möguleikar til vefsölu verða fullnýttir,“ sagði Andri Már meðal annars í viðtali við Fréttablaðið, þar sem fjallað var um hlutafjáraukningu félagsins upp á 2,4 milljarða króna.