Stjórn Primera Air segir í yfirlýsingu á vef félagsins, að margvíslegir ófyrirséðir atburðir hafi leitt til þess að félagið er nú í leið í gjaldþrot. Í yfirlýsingunni segir að niðurstaðan - eftir mikla vinnu starfsfólks við að reyna að rétta af reksturinn og styrkja fjárhaginn - sé „mikil vonbrigði“.
Félaginu tókst ekki að ljúka brúarfjármögnun, upp á um 40 milljónir evra, eða sem nemur um 5,5 milljörðum króna, með viðskiptabanka sínum og því var ekkert annað í stöðunni en að óska eftir gjaldþrotaskiptum.
Andri Már Ingólfsson er forstjóri og aðaleigandi félagsins, en það hefur vaxið hröðum skrefum undanfarin ár, en var upphaflega stofnað 2003.
Félagið var með um 23 milljarða króna veltu í fyrra, en helsta markaðssvæði félagsins eru Norðurlönd. Félagið þjónaði Íslandi einnig, en það var aðeins hluti af starfsemi félagsins.
Í yfirlýsingu stjórnar félagsins segir að tap vegna reksturs í fyrra hafi verið 23 milljónir evra, eða sem nemur 10 milljónir evra, eða um 1,3 milljarður króna. Tafir á afhendingu á flugvélum hafi valdið félaginu vandræðum, og magnað upp erfiða stöðu.
Á undanförnum mánuðum hafa verðhækkanir á olíu á heimsmarkaði leitt til mikilla erfiðleika hjá mörgum flugfélögum, en bæði WOW Air og Icelandair, stærstu íslensku flugfélögin, hafa átt í erfiðleikum vegna þeirrar þróunar.
Tunnan af hráolíu kostar nú um 80 Bandaríkjadali og hefur hækkað um 40 prósent á fjórum mánuðum. Spár benda til þess að áframhald verði á verðhækkunum.