Bankasýsla ríkisins skoðaði alvarlega í byrjun ársins að krefjast lögbanns á arðgreiðslum á hlutabréfum Arion banka í Valitor til hluthafa bankans. Stofnunin taldi arðgreiðsluna brjóta í bága við samningsbundinn rétt ríkisins samkvæmt hluthafasamkomulagi frá 2009. Frá þessu er greint í Markaðnum, fylgiriti Fréttablaðsins um viðskipti og efnahagsmál, í dag. Er meðal annars vitnað til minnisblaðs um þessi mál, sem blaðið fékk afhent frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu á grundvelli upplýsingalaga.
Bankasýsla skrifaði minnisblaðið til Bjarna Benediktssyni fjármála- og efnahagsráðherra þann 15. janúar síðastliðinn. Í minnisblaðinu segir að það hafi verið mat Bankasýslunnar að fjárfestahópurinn sem keypti um 30 prósenta hlut í Arion Banka í mars í fyrra- Goldman Sachs og vogunarsjóðirnir Attesor, Och- Ziff og Taconic- hafi haft augastað á Valitor og „hafi með kaupum sínum á hlutum í Arion þegar farið að huga að því hvernig unnt væri að ná undirtökum í Valitor“. Í öðru minnisblaði frá ráðherra frá 14. febrúar segir Bankasýslan að Arion banki gæti verið að fara á mis við 20 til 40 prósent af virði eignarhlutar síns í Valitor með því að greiða hlutabréf sín að stærstum hluta út í formi arðs í stað þess að selja allt hlutafé bankans í Valitor í opnu ferli líkt og ákjósanlegt væri.
Í umfjöllun Markaðarins kemur fram að meirihluti hluthafa Arion banka, Kaupþings og fyrrnefnds fjárfestahóp höfðu áform um að aðgreina kortafyrirtækið frá bankasamstæðunni áður en kæmi að hlutafjárútboði og skráningu bankans á markaði en andstaða innan stjórnkerfisins varð til þess að sú áform urðu að engu. Í bréfi sem Paul Copley, forstjóri Kaupþings, skrifaði Katrínu Jakobsdóttir forsætisráðherra og Bjarna fjármálaráðherra 14. mars síðastliðinn kemur fram að Kaupþing telur stuðning ríksins nauðsynlegan til að tryggja vel heppnaða aðgreiningu í þessari stöðu. Vegna áhyggna stjórnvalda af arðgreiðslunni hefði Kaupþing því breytt afstöðu sinni og styddi ekki lengur áformin.
Þetta er ekki í fyrsta skipti sem Bankasýsla ríkisins gerir athugasemdir við söluferli Arion Banka en fulltrúi Bankasýslu ríksins í Arion banka krafðist þess í desember síðastliðnum að innri endurskoðandi Arion banka yrði falið að gera formlega athugun á sölu bankans á hlut sínum í breska matvælaframleiðandanum Bakkavör. Bankasýsla ríkisins mat svo að ríkissjóður hafi tapað 2,6 milljörðum króna vegna þess hvernig staðin var að sölunni, í gegnum óbeinan eignarhlut sinn í Arion banka.