Sigurður Pálmi Sigurbjörnsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri Sports Direct á Íslandi og annar eigenda Boxins, er að ganga frá kaupum á þremur Bónusverslunum á höfuðborgarsvæðinu af smásölurisanum Högum. Þetta kemur fram á vef Fréttablaðsins í dag.
Í fréttinni segir að til standi að halda þar áfram sambærilegum rekstri en ekki liggi fyrir undir hvaða merki verslanirnar verða reknar.
„Þær Bónusverslanir sem um ræðir eru staðsettar á Hallveigarstíg, í Faxafeni og Skeifunni. Sala á verslunum var á meðal þeirra fjölmörgu skilyrða Samkeppniseftirlitsins sem Hagar samþykktu að undirgangast í síðasta mánuði í tengslum við kaup félagsins á Olís. Þá setti Samkeppniseftirlitið kaupunum einnig þau skilyrði að Högum yrði gert að selja fimm eldsneytisstöðvar Olís og ÓB,“ segir í fréttinni.
Samningur vegna kaupanna á Bónusverslununum hefur þegar verið undirritaður, samkvæmt fréttinni, en segir jafnframt að Samkeppniseftirlitið vinni nú að því að meta hæfi kaupenda að eignunum. Vonir standi til að því hæfismati verði lokið í síðasta lagi um miðjan nóvember næstkomandi.
Sigurður Pálmi er sonur Ingibjargar Pálmadóttur, aðaleigenda 365 miðla en félaginu er einnig stýrt af eiginmanni hennar, Jóni Ásgeiri Jóhannessyni. Í frétt Fréttablaðsins frá því í gær segir að 365 miðlar hafi keypt ríflega þriggja prósenta hlut í Högum og greitt fyrir það tæplega 1,8 milljarða króna. Félög Ingibjargar áttu fyrir meira en tveggja prósenta hlut í Högum. Fréttablaðið segir að þau kaup hafi verið fjármögnuð af Kviku banka.
Hagar er stærsta smásölufyrirtæki á Íslandi. Krúnudjásn félagsins eru Bónusverslanirnar, sem eru með stærstu markaðshlutdeild í dagvöru á Íslandi. Jón Ásgeir og faðir hans Jóhannes Jónsson stofnuðu Bónus árið 1989 en misstu Haga úr höndum eftir hrunið og gjaldþrot Baugs Group, fjárfestingafélags fjölskyldunnar.