Ólafur Þór Hauksson, héraðssaksóknari og áður sérstakur saksóknari, segir að niðurskurðurinn sem embætti sérstaks saksóknara var látinn sæta árið 2013, upp á 774 milljónir króna, hafi gert það að verkum að ekki var hægt að klára rannsókn á sumum málum tengdum hruninu. „Auðvitað voru þarna nokkur mál sem við hefðum viljað fara betur ofan í sem við höfðum ekki „resource-a“ til að taka.“
Þetta kom fram í viðtali Þórðar Snæs Júlíussonar, ritstjóra Kjarnans, við Ólaf í sjónvarpsþættinum 21 á Hringbraut í gær þar sem þeir ræddu hrunið og afleiðingar þess í tilefni af því að áratugur er liðinn frá atburðunum afdrifaríku nú um stundir. Hægt er að horfa á stiklu úr þættinum hér að ofan.
Ólafur segir að um 200 mál hafi komið inn á borð embættisins tengd hruninu. Af þeim hafi mörg verið sameinuð og á endanum fóru 35 í ákæruferli. Af þeim standa sex eftir, tvö fyrir héraðsdómi og fjögur fyrir Landsrétti. Þar af eru fjögur mál sem Hæstiréttur Íslands hefur heimvísað til lægra dómstigs.
Aðspurður um þau mál sem rötuðu ekki í ákæruferli segir Ólafur að þar sé fyrst og fremst um mál að ræða sem embættið taldi ð myndu ekki ná inn í dóm. „Annars vegar var þá hætt rannsókn eða þá mál voru fullkláruð og svo tekið mat á því hvort þau stæðust sönnunarlega séð. Hvort það væru meiri líkindi en minni að það yrði sakfellt í þeim. Í nokkrum tilvikum var það þannig að það þótti ekki vera. Síðan í restina voru farin að koma inn frekari sjónarmið eins og til dæmis tímalengdin, hvað þetta var búið að taka langan tíma. Þar kom inn í að við erum skorin svolítið hressilega niður strax á árinu 2013, sem gerir það að verkum að sumt að því sem við vorum með það náði ekki fram.“
Þegar Ólafur var spurður um það í þættinum hvernig það stæðist jafnræðissjónarmið að sumir einstaklingar slyppu við ákæru, og mögulega dóm, vegna þess að rannsókn á málum þeirra hefði tekið lengri tíma en hjá öðrum eða vegna þess að embættinu skorti fjármagn, svaraði hann því til að það væri eðlilegt að velta þeirri spurningu upp. „En í mjög mörgum tilvikum var um að ræða mál sem beindust að sömu aðilum og áður höfðu fengið dóma og jafnvel voru komnir með fullnýtta refsiramma, upp í sex ár. Þannig að það var í langflestum tilvikum um slíkt að ræða.“