Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, segist ekkert vera að hugsa um að hætta í stjórnmálum og telur að flokkur sinn geti náð fyrri styrk. Honum finnst líka merkilega mikil neikvæðni vera áberandi í umræðunni um starf stjórnvalda þrátt fyrir að Ísland mælist fremst á meðal þjóða á ýmsa lífskjaramælikvarða. Þetta er meðal þess sem kemur fram í ítarlegu viðtali við Bjarna í nýútkomnu hausthefti Þjóðmála.
Sjálfstæðisflokkurinn myndaði ríkisstjórn með Vinstri grænum og Framsóknarflokknum eftir kosningarnar haustið 2017, eftir að ríkisstjórn undir forsæti Bjarna hafði sprungið með látum eftir einungis um átta mánaða setu.
Lestu meira
Bjarni segir að tækifæri Sjálfstæðisflokksins liggi meðal annars í því að vera kjölfesta á umbrotatímum. Fyrir því hafi hann fundið mjög sterkt 2016 enn að kosningarnar 2017 hafi verið um margt fordæmalausar. „Til framtíðar er það í okkar höndum hvernig fylgið þróast. Við getum náð fyrri styrk en við megum ekki gefa okkur í ina mínútu að við eigum einhvern tiltekinn stuðning vísan.“
Ekki farinn að hugsa um að hætta
Bjarna finnst að þrátt fyrir að Ísland mælist reglulega fremst meðal þjóða á ýmsa lískjaramælikvarða, að tekist hafi að laga skuldastöðu ríkissjóðs og heimila og auka kaupmátt um 25 prósent á fjórum árum sé merkilega mikil neikvæðni áberandi í umræðu um starf stjórnvalda. „Sumt af því finnst mér koma frá eldri kynslóðinni, sem á köflum virðist telja að hér sé margt að fara aftur á bak. Að allt hafi verið svo miklu betra hér áður fyrr.“·
Í viðtalinu við Þjóðmál er Bjarni spurður út í framtíðina í stjórnmálum. Hann hefur nú setið á þingi í 15 ár og verið formaður Sjálfstæðisflokksins í áratug í byrjun næsta árs. Bjarni segir að hann hafi verið í pólitík mun lengur en hann sá fyrir sér og segist hafa áttað sig á því þegar hann steig inn í fjármálaráðuneytið árið 2013 hversu mikil blessun það hafi verið fyrir hann að verða ekki ráðherra fyrr. „Ég gerði kröfu til þess eftir kosningarnar 2007, þá 37 ára, að verða ráðherra og hafði mikinn metnað til þess. En ég veit að ég var líklega ekki tilbúinn þá.“
Aðspurður um hversu lengi hann ætli að halda áfram í stjórnmálum segir Bjarni að á meðan að hann brenni fyrir verkefnum sínum og þeim breytingum sem hann vill sjá verða sé engin ástæða til að hætta. „Ég fékk góða kosningu á síðasta landsfundi og ég hef haft þá reglu að setja verkefni mín á hverjum tíma í forgang og hleypa ekki hugsunum um annað að. Ég held að um leið og ég færi að velta því fyrir mér hversu lengi ég ætlaði að vera eða hvort ég ætti að fara að hætta og fara að gera eitthvað annað, þá fjaraði krafturinn út í öll því sem ég er að gera í dag. Það er enn margt sem mig langar til að koma í framkvæmd og ég ætla því að geyma mér allar vangaveltur um það hversu lengi ég held áfram.“