Mynd: Birgir Þór Harðarson

Framsóknarflokkurinn ekki mælst með minna fylgi

Vinsældir ríkisstjórnarinnar halda áfram að dala. Um 40 prósent kjósenda Vinstri grænna og Framsóknar hafa yfirgefið flokkanna en Sjálfstæðisflokkurinn heldur kjörfylgi. Samfylkingin, Viðreisn og Píratar eru með jafn mikið sameiginlegt fylgi og stjórnarflokkarnir.

Framsóknarflokkurinn mælist með 6,6 prósent fylgi í nýjustu könnun Gallup. Flokkurinn hefur aldrei mælst með lægra fylgi í könnunum fyrirtækisins. Framsóknarflokkurinn mældist með sjö prósent fylgi í febrúar 2008 og svo 6,9 prósent í apríl 2016, í sama mánuði og Panamaskjölin voru opinberuð, en í þeim kom fram að þáverandi formaður flokksins og forsætisráðherra, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, hefði átt aflandsfélagið Wintris. Sigmundur Davíð sagði af sér sem forsætisráðherra vegna málsins, sem leiddi til fjölmennustu mótmæla Íslandssögunnar.

Framsókn féll líka töluvert í fylgi í aðdraganda síðustu kosninga, eftir að Sigmundur Davíð og aðrir lykilmenn í flokknum um árabil yfirgáfu hann og stofnuðu Miðflokkinn. Þá mældist flokkurinn með með minnst 7,2 prósent fylgi 13. október 2017. Framsóknarflokkurinn náði þó vopnum sínum að einhverju leyti í kosningunum og fékk 10,7 prósent, sem var samt sem áður versta niðurstaða hans í sögunni í Alþingiskosningum.

Á þessu ári hefur fylgið fallið jafnt og þétt í hverri könnuninni á fætur annarri og náð áðurnefndum lágpunkti nú í könnun sem sýnir stöðuna í lok síðustu viku, þar sem fylgið mælist 6,6 prósent. Það þýðir að tæplega 40 prósent kjósenda Framsóknarflokksins hafa yfirgefið hann.

Vinstri græn hrapa en Sjálfstæðisflokkur er stöðugur

Vinstri græn, flokkur forsætisráðherrans Katrínar Jakobsdóttur, mælist nú með sitt lægsta fylgi frá því í árslok 2015. Alls segjast 10,3 prósent kjósenda að þeir myndu kjósa flokkinn í dag, en Vinstri græn fengu 16,9 prósent í kosningunum fyrir tæpu ári síðan. Það þýðir að fylgi flokksins hefur dalað um 40 prósent á innan við einu ári. Ef kosið yrði í dag myndu Vinstri græn verða fimmti stærsti flokkur landsins, en hann var sá næst stærsti eftir að talið var upp úr kjörkössunum í fyrra.

Sjálfstæðisflokkurinn er sá eini af stjórnarflokkunum þremur sem mælist enn með kjörfylgi sitt. Í nýjustu könnun Gallup segjast 24,6 prósent kjósenda að þeir myndu kjósa flokkinn, sem er að venju sá stjórnmálaflokkur landsins sem mælist stærstur. Sjálfstæðisflokkurinn fékk 25,3 prósent í kosningunum í október 2017.

Stjórnarandstaðan með mun meira fylgi en stjórnin

Þeir fimm flokkar sem mynda stjórn­ar­and­stöð­una mæl­ast nú með sam­tals 57,2 pró­senta fylgi en stjórn­ar­flokk­arnir með 41,5 pró­sent. Það er mik­ill við­­snún­­ingur frá því sem var í síð­­­ustu kosn­­ing­um, þegar stjórn­­­ar­­flokk­­arnir fengu 52,9 pró­­sent fylgi og 35 þing­­menn en stjórn­­­ar­and­­staðan 28.

Ef kosið yrði í dag myndi stjórn­­­ar­and­­staðan lík­­­ast til fá  36 þing­­menn en stjórn­­­ar­­flokk­­arnir þrír 27 , sem myndi ekki duga til að mynda meiri­hluta­­stjórn. Stuðn­ingur við rík­is­stjórn­ina fór í fyrsta sinn undir 50 pró­sent í könnun Gallup sem birt var í lok júlí og helst áfram þar í nýj­ustu könn­un­inni. Hann mælist nú 48,6 prósent og hefur aldrei mælst minni. Skömmu eftir að rík­is­stjórn Katrínar Jak­obs­dóttur tók við mæld­ist stuðn­ingur við hana 74,1 pró­sent.

Viðreisn mælist stærri en Vinstri græn

Þrír flokkar sem eru í stjórnarandstöðu mælast með meira fylgi í dag en þeir fengu í síðustu kosningum. Þeir eru Sam­fylk­ing­in, Við­reisn og Píratar sem skil­greina sig sem frjáls­lynda miðju­flokka, þótt áherslu­munur sé á ýmsum málum þeirra á milli.

Samanlagt fylgi þessarrar blokkar mælist nú með 41,5 prósent fylgi, eða sama fylgi og stjórnarflokkarnir þrír. það var 28 prósent í síðustu kosningum og hefur því aukist um tæplega 50 prósent á síðustu ellefu mánuðum.

Fylgi flokka Sigurðar Inga Jóhannssonar og Loga Einarssonar hefur þróast með gerólíkum hætti frá því að þeir mættust í síðustu kappræðum fyrir síðustu kosningar.
Mynd: Birgir Þór Harðarson

Samfylkingin er sá flokkur sem hefur vaxið mest samkvæmt könnunum það sem af er kjörtímabilinu en fylgi hennar mælist nú 19,3 prósent aðra könnunina í röð. Flokkurinn fékk 12,1 prósent fylgi í kosningunum í fyrra og því hefur flokkurinn aukið fylgi sitt um 60 prósent fylgi frá þeim tíma, samkvæmt könnunum Gallup.

Píratar dala aðeins á milli kannanna og mælast nú með 11,5 prósent fylgi, sem er samt meira en flokkurinn fékk í október 2017 þegar 9,2 prósent landsmanna kusu hann.

Viðreisn heldur áfram að styrkjast samkvæmt könnunum og mælist nú með 10,7 prósent fylgi, sem er það mesta sem flokkurinn hefur mælst með það sem af er kjörtímabili. Flokkurinn mælist nú stærri en Vinstri græn, og fjórði stærsti flokkur landsins, í fyrsta sinn. Viðreisn fékk 6,7 prósent atkvæða í þingkosningunum í fyrra.

Miðflokkurinn tekur við sér

Mið­flokk­ur­inn og Flokkur fólks­ins, eru nær hvorum öðrum í fleiri málum en hinum stjórnarandstöðuflokkunum. Báðir flokkarnir mælast með lægra fylgi en þeir fengu í kosningunum í fyrra.

Þá fékk Miðflokkurinn 10,9 prósent atkvæða og vann mikinn kosningarsigur. Raunar var um að ræða besta árangur nýs framboðs í fyrstu kosningunum sem hann tók þátt í í Íslandsögunni.

Fylgi flokksins dalaði í könnunum framan af kjörtímabili en tekið stökk upp á við að undanförnum og mælist nú 9,8 prósent. Það er mesta fylgi sem Miðflokkurinn hefur nokkru sinni mælst með í könnun hjá Gallup.

Flokkur fólksins komst nokkuð óvænt inn á þing í síðustu kosningum, en flestar spár í aðdraganda kosninganna höfðu ekki gert ráð fyrir því að það myndi hafast. Þegar atkvæði voru talin kom þó í ljós að 6,9 prósent kjósenda hafði kosið Flokk fólksins. Hann hefur aldrei náð þeim hæðum í könnunum síðan og fylgi flokksins mælist nú 5,9 prósent.

Samanlagt fylgi Miðflokksins og Flokks fólksins í síðustu kosningum var 17,8 prósent en er nú 15,7 prósent.

Fréttaskýringunni var breytt klukkan 10:22. 

Í upprunalegu útgáfu hennar stóð að stuðningur við ríkisstjórnina væri 38,6 prósent, en hann er 48,6 prósent. Um innsláttarvillu var að ræða. Beðist er afsökunar á þessu. 

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar