Það var ekki til nægur gjaldeyrisvaraforði til að bjarga neinum íslensku bankanna sem féllu fyrir nákvæmlega áratug í dag. Kaupþing, Landsbankinn og Glitnir höfðu sótt gríðarlega fjármuni á erlenda markaði þar sem lánsfé var ódýrt og vöxtur þeirra í kjölfarið gerði það að verkum að bankarnir þrír urðu allt of stórir í hlutfalli við íslenska hagkerfið.
Þetta segir Michael Ridley, sérfræðingur hjá fjárfestingabankanum J.P. Morgan, í viðtali við Morgunblaðið í dag. Hann var einn þriggja sérfræðinga bankans sem var flogið með einkaþotu frá London um kvöldmatarleytið 5. október 2008 til Reykjavíkur þar sem þeir fóru yfir stöðu bankakerfisins með íslenskum ráðamönnum. „Ég held að sumir ráðherrarnir hafi verið búnir að átta sig á stöðunni og að hinir hafi gert það á þessum fundi. Það er að minnsta kosti ljóst að þegar honum lauk tók ríkisstjórnin stefnuna á neyðarlögin og þá aðferð að tryggja hagsmuni Íslands og íslensku þjóðarinnar með því að leyfa bönkunum að falla og vernda innstæður,“ segir Ridley við Morgunblaðið.
Hann segir við Morgunblaðiðað í ljósi þess að ekki hafi verið til fjármunir til að bakka upp allt bankakerfið þá var ekki hægt að bjarga neinum banka. Ríkið gat stigið inn, án þess að bakka upp allt kerfið, í en þá hefði fjárfestar áttað sig um leið að staðan væri alvarleg. Það var ekki hægt að bjarga neinum banka þessa afdrifaríku helgi í byrjun október 2008 að sögn Ridley. „Ekki þremur, ekki tveimur og ekki einum. Það var orðið ljóst á þessum tímapunkti að það þyrfti að byggja upp nýtt greiðslukerfi og nýtt innlánakerfi á grunni nýrra banka.“
Ridley neitar því að fulltrúar J.P. Morgan hafi haldið því fram að ef það væri hægt að bjarga einhverjum banka væri það Kaupþing. Össur Skarphéðinsson, þáverandi iðnaðarráðherra, hafði sagt það við rannsóknarnefnd Alþingi. „Þetta hefði ég aldrei sagt. Ég vissi að það var ekki til nægur gjaldeyrisforði í Seðlabankanum til að bjarga neinum þeirra. Eina athugasemdin sem ég kann að hafa látið falla á fundinum er að fjármögnun Kaupþings myndi halda eitthvað lengur en hinna bankanna, einfaldlega vegna dagsetninga sem tengdust endurfjármögnunarþörf þeirra. Það var vitað að sú stund var runnin upp í tilfelli Glitnis strax í komandi viku, þá Landsbankanum og svo Kaupþingi. Auk þess hefði slík björgun kallað á að íslenskur almenningur hefði tekið á sig gríðarlegar skuldbindingar, líkt og gerðist þegar írska ríkið ákvað að bjarga sínum bönkum.“
Seðlabanki Íslands lánaði þó Kaupþingi 500 milljónir evra daginn eftir, þann 6. október, sama dag og neyðarlögin voru sett. Ridley segir að stjórnvöld hafi ekki ráðfært sig við hann um þá ákvörðun.