Gildi lífeyrissjóður segir að tillaga sjóðsins, um að fá óháðan aðila til að fara yfir ýmis álitamál er varðaði fyrirhuguð kaup HB Granda á Ögurvík, hafi verið hugsuð til að gaumgæfa álitamálin, enda þurfi slík viðskipti að vera hafin yfir vafa.
„Í tillögu Gildis-lífeyrissjóðs felst ekki afstaða til umræddra viðskipta. Vegna tengsla milli aðila er hins vegar mikilvægt að ákvörðunartakan sé hafin yfir allan vafa. Í tillögunni felst að frekari upplýsingar þurfi að liggja fyrir áður en ákvörðun er tekin um viðskiptin, m.a. varðandi mat á því hversu vel rekstur Ögurvíkur ehf. fellur að rekstri HB Granda hf., eins og nánar kemur fram í tillögu sjóðsins. Hluthafafundi hefur verið fært endanlegt ákvörðunarvald og telur Gildi í ljósi umfangs viðskipta og tengsla milli aðila að vanda þurfi alla málsmeðferð,“ segir í tilkynningu frá Gildi.
Eins og greint var frá í dag, þá hefur Útgerðarfélag Reykjavíkur hf., áður Brim, sent bréf til HB Granda þess efnis að best sé að falla frá viðskiptum með Ögurvík. Áður hafði stjórn HB Granda samþykkt að kaupa félagið af ÚR á 12,3 milljarða króna, en hluthafafundur hafði verið boðaður 16. október til að samþykkja kaupin og fjalla um þau.
Guðmundur Kristjánsson, forstjóri HB Granda, er jafnframt stærsti eigandi ÚR, sem á félagið Ögurvík. Þá er ÚR stærsti eigandi HB Granda með rúmlega þriðjungshlut í félaginu. Gildi á 8,62 prósent hlut í félaginu, og er þriðji stærsti eigandi félagsins. Lífeyrissjóður verslunarmanna er næst stærsti eigandinn með 13,66 prósent hlut.
„Í tillögu Gildis-lífeyrissjóðs felst ekki afstaða til umræddra viðskipta,“ segir í tilkynningu frá sjóðnum. Þá segir enn fremur að hluthafafundur muni taka umrædd viðskipt til umfjöllunar á hluthafafundinum sem framundan er. „Fyrir hluthöfum liggur nú að taka efnislega afstöðu til málsins á hluthafafundi HB Granda hf. þann 16. október næstkomandi, þar á meðal til tillögu Gildis um að lagt verði nánara mat á hvort viðskiptin séu hagfelld fyrir félagið.“