Stjórn Landverndar telur það mjög alvarlegt fyrir íslenska stjórnsýslu í umhverfisverndarmálum að ráðherra skuli hlutast til um úrskurði Úrskurðarnefndar í umhverfis- og auðlindamálum.
Þetta kemur fram í áskorun frá Landvernd á tvo ráðherra, Guðmund Inga Guðbrandsson umhverfis- og auðlindaráðherra og Kristján Þór Júlíusson sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, sem samtökin sendu frá sér í dag.
„Það er ákvörðun og áhætta fyrirtækja að hefja starfssemi þrátt fyrir augljósa ágalla á henni sem varða við landslög, eins og það að kostagreinging fór ekki fram. Réttur umhverfisverndarsamtaka til þess að láta reyna á framkvæmda- og starfsleyfi fyrir starfssemi sem hefur skaðlegar afleiðingar fyrir umhverfið fyrir óháðum aðila er lítils virði þegar ráðherrar setja lög á úrskurði þessa óháða aðila.
Stjórn Landverndar skorar á Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og Umhverfis- og auðlindaráðherra að virða niðurstöðu úrskurðarnefndarinnar og láta af áætlunum um lagasetningar sem snúa úrskurði hennar,“ segir í áskoruninni.
Nú standa yfir umræður á Alþingi um nýtt frumvarp sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra en samkvæmt því mun verða mögulegt að veita rekstrarleyfi til bráðabirgða fyrir fiskeldi.
Frumvarpið var kynnt á ríkisstjórnarfundi í gær en í tilkynningu frá ráðuneytinu segir að því sé ætlað að lagfæra með almennum hætti annmarka á lögum um fiskeldi til framtíðar. Sá annmarki birtist í því að samkvæmt gildandi lögum sé eina úrræði Matvælastofnunar, í þeim tilvikum sem rekstrarleyfi fiskeldisstöðvar er fellt úr gildi, að stöðva starfsemi hennar.
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála felldi úr gildi rekstrarleyfi og starfsleyfi Fjarðarlax og Arctic Sea til laxeldis í sjókvíum í Patreksfirði og Tálknafirði og vísaði einnig frá beiðni fyrirtækja um frestun réttaráhrifa. Samtals voru leyfin upp á um 17.500 tonn en sveitarfélögin á starfssvæði fyrirtækjanna hafa mótmælt stöðunni sem komin er upp og krafist aðgerða.
Drög að frumvarpinu voru sem sagt samþykkt á aukafundi ríkisstjórnarinnar í hádeginu í gær og kynnt hinum stjórnmálaflokkunum síðdegis í gær. Fyrirtækjunum Arctic Fish og Fjarðalaxi er því gefinn frestur til að fara yfir umhverfismat fyrirtækjanna til að tryggja að umsókn þeirra um aukið laxeldi á sunnanverðum Vestfjörðum verði samkvæmt lögum og reglum. Aðspurður segir Kristján Þór frumvarpið ekki fara á svig við úrskurð nefndarinnar um að fella starfsleyfi fiskeldisfyrirtækjanna tveggja úr gildi. Hann segir þá ákvörðun vera sjálfstæða og frumvarpið ekki snerta hennar úrskurð. Frumvarpið flýti einfaldlega fyrir ferli málsins en bið eftir úrskurði dómstóla væri bæði kostnaðarsöm og tímafrek.