Í dag mun Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegsráðherra, leggja fram frumvarp til breytingar á lögum um fiskeldi til að tryggja að fyrirtækin, Fjarðalax og Artic Fish, geti haldið áfram starfsemi þrátt fyrir úrskurði og afturköllun starfsleyfa fyrirtækjanna. Í frumvarpinu er ráðherra gert kleift , að undangenginni umsögn Matvælastofnunar, að veita fyrirtækjum í laxeldi bráðabirgðaleyfi til að allt að 10 mánaða. Frá þessu er greint í Fréttablaðinu í dag.
„Frumvarpinu er ætlað að lagfæra með almennum hætti annmarka á lögum um fiskeldi til framtíðar. Sá annmarki birtist í því að samkvæmt gildandi lögum er eina úrræði Matvælastofnunar í þeim tilvikum sem rekstrarleyfi fiskeldisstöðvar er fellt úr gildi að stöðva starfsemi hennar. Þannig hafa stjórnvöld engin úrræði til að koma í veg fyrir mögulega óafturkræfa og óþarfa sóun verðmæta né heldur gæta meðalhófs,“ segir í tilkynningu frá Kristjáni, sjávarútvegsráðherra.
Drög að frumvarpinu voru samþykkt á aukafundi ríkisstjórnarinnar í hádeginu í gær og kynnt hinum stjórnmálaflokkunum síðdegis í gær. Fyrirtækjunum Arctic Fish og Fjarðalaxi er því gefinn frestur til að fara yfir umhverfismat fyrirtækjanna til að tryggja að umsókn þeirra um aukið laxeldi á sunnanverðum Vestfjörðum verði samkvæmt lögum og reglum. Aðspurður segir Kristján Þór frumvarpið ekki fara á svig við úrskurð nefndarinnar um að fella starfsleyfi fiskeldisfyrirtækjanna tveggja úr gildi. Hann segir þá ákvörðun vera sjálfstæða og frumvarpið ekki snerta hennar úrskurð. Frumvarpið flýti einfaldlega fyrir ferli málsins en bið eftir úrskurði dómstóla væri bæði kostnaðarsöm og tímafrek.
Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins voru fulltrúar Arctic Fish kallaðir á fund viðskiptabanka síns þegar rekstrarleyfi þeirra hafði verið afturkallað og gerð grein fyrir því að afturköllun á rekstrarleyfi gæti þýtt riftun á lánssamningum við félagið. Því má segja að stjórnvöld björguðu lánalínu Artic Fish á síðustu stundu.
Auglýsing
Ekki gildir sátt um frumvarpið
Fundur var haldinn í gær með matvælastofnun, Umhverfisstofnun, Skipulagsstofnun og laxeldisfyrirtækjunum tveimur. Þar kom fram að fyrirtækin tvö hafa ekki sótt um undanþágu frá starfsleyfinu til umhverfisráðherra. Sigrún Ágústsdóttir, sviðsstjóri hjá Umhverfisstofnun, segir að á fundinum hafi verið rædd tillaga um hvernig væri hægt að bæta úr þeim annmarka sem fjallað er um í úrskurðum úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. „Ný leyfi fyrirtækjanna tveggja eru fallin úr gildi en eldri leyfi þeirra fyrir minna umfangi eru enn í gildi samkvæmt okkar skilningi. Það sé því enn hægt að nýta þau leyfi að okkar mati,“ segir Sigrún. Frá þessu er greint í umfjöllun Fréttablaðsins.
Ótttar Yngavason, lögmaður náttúruverndarsamtaka og veiðiréttarhafa, segir stjórnvöld ekki hafa heimild í lögum fyrir fyrirhuguðu frumvarpi í viðtali við Vísi. Jafnframt segir hann engan grundvöll vera fyrir því að þessi fyrirtæki fá að fara fram hjá eðlilegu ferli sem væri að leggja mál fyrir dómstóla. „Með öðrum aðgerðum er verið að reyna að fara í kringum venjuleg lög og reglur í landinu. Það er í rauninni bara óheimilt og ólöglegt,“ segir Óttar og segir engan vafa vera á því að stjórnvöld séu að brjóta lög með frumvarpinu. Þá segir Óttar meðalhófsregluna ekki eiga við í þessu tilviki og segir slíkar fullyrðingar vera til þess fallnar að afvegaleiða umræðuna.
Rósa Björk Brynjólfsdóttir, þingmaður VG, hefur óskað eftir því að fundað sé með umhverfisverndarsinnum og laxveiðiréttarhöfum til að heyra þeirra sjónarmið í umhverfis- og samgöngunefndinni. En aðspurð segir hún enn engar undirtektir við þeirri beiðni, hvorki frá stjórnarliðum né stjórnaraðstöðu.