Lífeyrissjóðurinn Gildi vill að fyrirtækjaráðgjöf Kviku, fjárfestingabanka, verði fenginn til að meta fyrirhuguð kaup HB Granda á öllu hlutafé Ögurvíkur og skilmála þeirra. Gildi hefur gert þá tillögu um að bókun þessa efnis verði tekin til meðferðar á hluthafafundi HB Granda sem fer fram 16. október. Frá þessu er greint í Morgunblaðinu í dag.
Fyrir fundinum liggur þegar tillaga um að staðfesta ákvörðun stjórnarinnar um kaup félagsins á öllu hlutafé Ögurvíkur ehf. af Útgerðarfélagi Reykjavíkur, sem áður bar nafið Brim. Í greinargerð Gildis segir að þar með liggi fyrir hluthöfum að leggja mat á og taka afstöðu til þess hvort viðskiptin séu hagfelld fyrir HB Granda. Tillaga Gildi er meðal annars annars lögð fram í ljósi þess að aðaleigandi seljanda Ögurvíkurs, Guðmundur Kristjánsson, sé einnig á sama tíma forstjóri HB Granda og stærsti hluthafi fyrirtækisins.
Markmið tillögunnar sé því að tryggja að ákvörðunartaka sé hafin yfir allan vafa. Það liggur fyrir sérfræðiskýrsla sem bendir á að einungis sé byggt á einni tiltekinni matsgerð, án þess að horft sé til annarra þátta sem kunni að skipta máli þegar viðskiptin séu metin á heildstæðum grunni.
Auglýsing
Viðskiptin teljast verulega umfangsmikill á íslenskum mælikvarða
HB Grandi samþykkti kaup félagsins á Ögurvíks fyrir 12,3 milljarða króna í september. Aflaheimildir Ögurvíkur eru metnar á 14,5 milljarða króna. Viðskiptin eru hins vegar háð samþykki Samkeppniseftirlitsins og einni háð samþykki hluthafafundar. HB Grandi er eina útgerðarfyrirtækið á Íslandi sem skráð er á markað, en markaðsvirði þess nemur nú 57,4 milljörðum króna.
Brim hf., nú Útgerðarfélag Reykjavíkur, er stærsti eigandi HB Granda með ríflega þriðjungshlut, en það félag er jafnframt seljandi Ögurvíkur. Guðmundur Kristjánsson, forstjóri HB Granda, er stærsti eigandi Útgerðarfélags Reykjavíkur. Eigið fé Brims nam í árslok 2016 um 23 milljörðum króna, en heildarskuldir voru á sama tíma 31 milljarður króna. Frá þeim tíma hefur mikið vatn runnið til sjávar enda keypti félagið hlutinn í HB Granda fyrir um 22 milljarða króna.
Kaupin verða fjármögnuð með eigin fé og lánsfjármagni. Eigið fé HB Granda nam um 250,5 milljónum evra um mitt þetta ár, eða sem nemur um 32 milljörðum króna. Stærsti hluthafi HB Granda er Brim hf. með tæplega 38 prósent hlut. Aðrir stærstu hluthafar eru einkum lífeyrissjóðir. Lífeyrissjóður verslunarmanna á 13,66 prósent, LSR 9,94 prósent, Gildi lífeyrissjóður 8,62 prósent, Birta lífeyrissjóður 3,95 prósent og aðrir hluthafar eiga minna, en samanlagt 28,8 prósent.