Dagur B. Eggertsson borgarstjóri segir að endurgerð húsanna og braggans í Nauthólsvík sé alvarlegt dæmi um framkvæmd sem fer langt fram úr áætlun, í stöðuuppfærslu á Facebook-síðu sinni í dag.
„Fregnir af einstaka reikningum og verkþáttum undanfarna daga kalla augljóslega á skýringar og undirstrika mikilvægi þess að málið er komið í hendur innri endurskoðunar Reykjavíkurborgar. Til að undirstrika alvöru málsins leggur meirihlutinn í borgarstjórn fram tillögu til samþykktar í borgarráði á morgun til að árétta að enginn angi málsins skal vera undanskilinn og allt skal upplýst í þessu máli frá upphafi til enda,“ segir hann í færslunni.
Fulltrúar meirihlutans í borgarráði ætla á morgun að leggja fram tillögu um að innri endurskoðun Reykjavíkurborgar verði falið að ráðast í heildarúttekt á öllu því ferli sem endurgerð braggans við Nauthólsveg 100 fól í sér.
Mikið hefur verið fjallað um Bragga-málið undanfarið en framkvæmdirnar fóru langt fram úr kostnaðaráætlun. Þær hafa nú kostað rúmlega 400 milljónir en upphafleg var gert ráð fyrir að kostnaðurinn yrði um 158 milljónir. Þetta kemur fram í frétt RÚV um málið.
Meirihlutinn ákvað á fundi borgarstjórnar í síðustu viku að bragginn yrði hluti af úttekt innri endurskoðunar á verkefnum í tengslum við útboð og innkaup. Minnihlutinn mótmælti þessu og taldi brýnt að óháð rannsókn færi fram.
Á fundi borgarráðs á morgun verður lögð fram sérstök tillaga um að innri endurskoðun verði falið að ráðast í sérstaka heildarúttekt á endurgerð braggans. „Enginn angi málsins skal vera undanskilinn og allt skal upplýst í þessu máli frá upphafi til enda,“ segir í tillögunni.
Endurgerð húsanna og braggans í Nauthólsvík er alvarlegt dæmi um framkvæmd sem fer langt fram úr áætlun. Fregnir af...
Posted by Dagur B. Eggertsson on Wednesday, October 10, 2018