Hæstiréttur hefur dæmt íslenska ríkið til að greiða Aldísi Hilmarsdóttur, fyrrverandi yfirmanni fíkniefnadeildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, 1,5 milljónir króna í miskabætur. Áður hafði ríkið verið sýknað í héraði.
Ríkið var dæmt vegna tilfærslu í starfi og eineltis sem Aldís varð fyrir af hálfu lögreglustjóra, Sigríðar Bjarkar Guðjónsdóttur.
Sigríður Björk ákvað að færa Aldísi til í starfi, en Aldís taldi um stjórnvaldsákvörðun að ræða sem byggði á ómálefnalegum forsendum og í raun verið illa dulbúin og fyrirvaralaus brottvikning úr starfi.
Þá sakaði hún Sigríði um einelti.
Fór Aldís fram á 2,3 milljónir í bætur og ógildingu á ákvörðuninni. Hæstiréttur vísaði hins vegar frá kröfu um ógildingu, en bæturnar voru 1,5 milljónir eins og áður segir.
Í dómi Hæstaréttar er sérstaklega tiltekið, að ekki hafi komið fram neitt við rekstur málsins, sem færði sönnur á að Aldís hefði ekki ráðið við hlutverk sitt, við stjórnun deildarinnar sem hún bar ábyrgð á, eins og lögreglustjóri og íslenska ríkið héldu fram. „Við töku framangreindrar ákvörðunar mátti lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu vera ljóst að hún var til þess fallin að vera meiðandi fyrir áfrýjanda, sem í áranna rás hafði unnið sig til metorða innan lögreglunnar, eins og lýst er að framan, og verið falin aukin ábyrgð fáeinum mánuðum áður en ákvörðunin var tekin. Vó ákvörðunin því að æru áfrýjanda og persónu,“ segir í dómi Hæstaréttar.