Búið að er að opna upplýsingavefinn Tekjur.is þar sem birtar eru upplýsingar um launa- og fjármagnstekjur allra fullorðinna Íslendinga eins og þær birtust í skattskrá ríkisskattstjóra 2017. Upplýsingarnar sýna því tekjur allra landsmanna á árinu 2016. Hægt er einfaldlega að fletta þeim einstaklingi upp sem viðkomandi hefur áhuga á að vita hvað var með í tekjur á árinu. greiða þarf fyrir aðganginn.
Í tilkynningu frá Tekjur.is, sem rekið er af fyrirtækinu Viskubrunni ehf., segir að mikil umræða hafi gjarnan sprottið af birtingu upplýsinga um laun einstaklinga þegar álagningarskrár yfir hæstu greiðendur opinberra gjalda eru birtar opinberlega einu sinni á ári.
Þá gefa nokkrir fjölmiðlar út sérstök tekjublöð með upplýsingum um áætlaðar mánaðartekjur nokkur þúsund Íslendinga út frá því sem þeir greiddi í skatt. Þetta gefur hins vegar ekki raunsanna mynd af stöðu mála, samkvæmt forsvarsmönnum Tekjur.is. „Um árabil hefur tíðkast að birta fréttir og gefa út tímarit með upplýsingum um tekjur valinna skattgreiðenda, byggðar á upplýsingum úr álagningarskrá. Hins vegar hefur ekki tíðkast að birta upplýsingar úr endanlegri skattskrá, sem þó gefur ítarlegri upplýsingar en álagningarskrá um framtaldar tekjur. Rétt er að taka fram, að Alþingi hefur sérstaklega veitt heimild til þess að upplýsingar úr skattskrá séu birtar opinberlega í heild eða að hluta og er slík birting heimil hverjum sem er[...]Þeir sem fagnað hafa útgáfu tímaritanna geta nú glaðst yfir tilkomu tekjur.is, enda sýnir vefurinn framlag allra skattgreiðenda í sameiginlega sjóði og stuðlar að auknu gagnsæi í umræðu um tekjudreifingu í samfélaginu.“
Kjarninn birtir síðar í dag ítarlega fréttaskýringu sem unnin er upp úr gagnagrunni Tekjur.is. Sú fréttaskýring birtist einnig í Mannlífi sem kom út í morgun.