Donald Trump Bandaríkjaforseti er afar ósáttur við að stýrivextir Seðlabanka Bandaríkjanna hafi farið hækkandi að undanförnu. Hann lét hafa eftir sér í vikunni að seðlabankinn væri „brjálaður“ og að vaxtahækkanirnar væru arfavitlausar.
Vextir hafa farið hækkandi í Bandaríkjunum að undanförnu og eru nú 2,25 prósent en því er spáð að þeir muni hækka nokkuð hratt upp í 3,5 prósent, árið 2020. Eftir áratugs tímabil lágra vaxta, á bilinu 0 til 0,25 prósent, er nú staðan breytt, og ljóst að nokkuð krefjandi tímar eru að taka við fyrir marga.
Á undanförnum tveimur dögum hafa hlutabréf fallið um meira en 6 prósent í Bandaríkjunum, og hafa þær skýringar verið nefndar, að fjárfestar séu að færa fjármagn frá hlutabréfum yfir í skuldabréf og aðrar eignir. Vísitölur hækkuðu þó aðeins í gær, eftir tvo slæma daga í röð.
"Crazy." "Loco." "Going wild." "Out of control." Plenty of presidents have been miffed at the Federal Reserve, but not since Andrew Jackson has one publicly attacked it as viscerally as Trump. @BCAppelbaum https://t.co/tWIxQMzRbY
— Peter Baker (@peterbakernyt) October 12, 2018
Christine Lagarde, framkvæmdastjóri Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, lét hafa eftir sér á ársfundi Alþjóðagjaldeyrissjóðsins á Indónesíu, að hún væri ekki á því að Seðlabanki Bandaríkjanna kæmi brjálæði nokkuð við.
Verðbólguþrýstingur hefur aukist nokkuð í Bandaríkjunum að undanförnu, ekki síst vegna þess hve olía hefur hækkað hratt undanfarna mánuði. Tunnan af hráolíu hefur hækkað um meira en 40 prósent á fimm mánuðum.