Ingvar Smári Birgisson, formaður Sambands ungra sjálfstæðismanna, hefur gert kröfu um að lögbann verði sett á vefinn Tekjur.is. Auk þess hefur formleg kvörtun borist Persónuvernd frá almannatenglinum Björgvini Guðmundssyni vegna málsins.
Í yfirlýsingu frá Ingvari Smára segir: „Ég tel að birting fjárhagsupplýsinga allra skattgreiðenda á vefnum Tekjur.is feli í sér ómaklega aðför að stjórnarskrárvörðum rétti almennings til friðhelgis einkalífs. Með starfrækslu vefsins er að mínu mati farið út fyrir heimildir þeirra ákvæða sem hafa legið að baki opinberri umfjöllun um laun og skattgreiðslur Íslendinga í gegnum árin. Í ljósi þess tel ég rétt að sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu leggi lögbann við vinnslu Viskubrunns ehf. á fjárhagsupplýsingum Íslendinga og að félaginu verði gert að afmá upplýsingarnar af vefsíðu sinni, tekjur.is. Í kjölfarið sé svo hægt að takast á við um lögmæti lögbannsins fyrir dómstólum.“
Í tilkynningu frá Jóni R. Arnarsyni, stjórnarformanni Viskubrunns ehf. sem setti upp og rekur vefinn, sem send var út á föstudag sagði að fyrirtækið hafi verið stofnað til að „stuðla að gagnsæi og samræmi í umfjöllun um skattamál. Þannig eru ekki birtar upplýsingar um þröngan hóp valinna einstaklinga, heldur er notendum síðunnar í sjálfsvald sett hvaða upplýsingar þeir kynna sér. Upplýsingarnar á Tekjur.is eru endanlegar upplýsingar um framtaldar tekjur. Þar eru ekki birtar bráðabirgðaupplýsingar eða áætlanir eins og hingað til hefur tíðkast í tekjublöðum.“
Byggja á lögum frá 1984
Upplýsingar um það hvernig tekjur fólks skiptast, og tæmandi upplýsingar um hverjir borga hvað í skatta, er hægt að finna í svokallaðri skattskrá. Í vor var skattskráin fyrir árið 2017 gerð opinber. Í henni er að finna niðurbrot á öllum skattgreiðslum einstaklinga – tekjuskatt, útsvar og fjármagnstekjuskatt – vegna ársins 2016. Þessar upplýsingar, sem eru gerðar aðgengilegar af ríkisskattstjóra, er heimilt að birta opinberlega samkvæmt annarri málsgrein 98. greinar laga um tekjuskatt sem sett voru 1984. Þar segir: „Heimil er opinber birting á þeim upplýsingum um álagða skatta, sem fram koma í skattskrá, svo og útgáfa þeirra upplýsinga í heild eða að hluta.“
Verði ekki fallist á lögbann verður tekið til skoðunar að leita álits dómstóla á því hvort vegi hærra, réttur almennings til friðhelgis einkalífs eða réttur almennings til þess að starfrækja gagnagrunn á internetinu sem inniheldur upplýsingar um laun og skattgreiðslur skattgreiðenda.“
Tekjuhæstu borga ekki hæstu skattana
Kjarninn fjallaði ítarlega um efni skattskráarinnar í fréttaskýringu sem birtist síðastliðinn föstudag. Þar kom meðal annars fram að 137 Íslendingar voru með fjármagnstekjur yfir 100 milljónum króna á árinu 2016, 54 voru með yfir 200 milljónir króna í slíkar tekjur og 33 þénuðu yfir 300 milljónir króna á þann hátt. Alls voru fjármagnstekjur 22 einstaklinga yfir 400 milljónir króna á árinu 2016 og 16 voru með yfir hálfan milljarð króna í slíkar tekjur.
Sex Íslendingar þénuðu meira en milljarð króna í fjármagnstekjur á árinu 2016, þrír yfir tvo milljarða króna og tveir voru með yfir þrjá milljarða króna í fjármagnstekjur.
Þorri þeirra sem voru með hæstar fjármagnstekjur á árinu 2016 seldu hluti í fyrirtækjum sem þau áttu í á því ári. Ef einstaklingur er með þorra tekna sinna í formi fjármagnstekna þá borgar hann mun minna hlutfall af tekjum sínum til ríkissjóðs en ef hann er með þær í formi launatekna.