Nýtt frumvarp liggur nú fyrir þar sem lagt er til að settar verði skýrar reglur um tjáningarfrelsi og þagnarskyldu opinberra starfsmanna í sérstökum kafla sem bætist við stjórnsýslulögin. Markmiðið er að kveða á um að meginreglan sé sú að opinberir starfsmenn njóti tjáningarfrelsis. Það verði aðeins takmarkað þegar þörf krefur og þá samkvæmt skýrum og fyrirsjáanlegum lagaákvæðum. Frumvarpið hefur einnig að geyma nýmæli um það hvenær stjórnvöldum er heimilt að miðla persónuupplýsingum sem þagnarskylda ríkir um til annarra stjórnvalda.
Frumvarpið er komið í samráðsgátt stjórnvalda en umsagnarfrestur er til 12. nóvember næstkomandi.
Í frumvarpinu segir að markmið þess sé ekki að auka við þagnarskyldu eða leggja á frekari þagnarskyldu. Með frumvarpinu sé fyrst og fremst stefnt að því að þagnarskyldureglur verði skýrari, samræmdari og einfaldari. Flóknar og óljósar þagnarskyldureglur geti gert opinberum starfsmönnum erfitt um vik að nýta tjáningarfrelsi sitt og eru skýrar þagnarskyldureglur því mikilvæg forsenda tjáningarfrelsis.
Frelsi til að tjá sig opinberlega
Lagt er til að hver sá, sem starfar á vegum ríkis eða sveitarfélaga, hafi frelsi til að tjá sig opinberlega um atriði er tengjast starfi hans, svo fremi sem þagnarskylda eða trúnaðar- og hollustuskyldur standi því ekki í vegi. Undir þagnarskyldu falli ekki upplýsingar um lögbrot eða aðra ámælisverða háttsemi starfsmanna stjórnvalda.
Enn fremur er lagt til að hver sá, sem starfar á vegum ríkis eða sveitarfélaga, sé bundinn þagnarskyldu um upplýsingar sem auðkenndar eru sem trúnaðarmál á grundvelli laga eða annarra reglna, eða þegar það er að öðru leyti nauðsynlegt að halda þeim leyndum til að vernda verulega opinbera- eða einkahagsmuni.
Fimm frumvörpum skilað til forsætisráðherra
Fimm frumvörpum til laga um umbætur á löggjöf á sviði tjáningar-, fjölmiðla- og upplýsingafrelsis hefur verið skilað til Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra en sérstök nefnd sem vann að málunum kynnti afrakstur vinnu sinnar í fyrri áfanga nefndarstarfsins á blaðamannafundi í dag í Þjóðminjasafninu.
Nefndina skipa:
- Eiríkur Jónsson, prófessor, formaður.
- Páll Þórhallsson, skrifstofustjóri í forsætisráðuneytinu, varaformaður.
- Birgitta Jónsdóttir, stjórnarformaður International Modern Media Initiative.
- Hjálmar Jónsson, formaður Blaðamannafélags Íslands.
- Sigríður Rut Júlíusdóttir, hæstaréttarlögmaður.
- Elísabet Gísladóttir, lögfræðingur í dómsmálaráðuneytinu.
- Þröstur Freyr Gylfason, sérfræðingur í fjármála- og efnahagsráðuneytinu.
- Elísabet Pétursdóttir, lögfræðingur í mennta- og menningarmálaráðuneytinu.
Var nefndinni meðal annars falið að vinna frekar afurðir stýrihóps sem skipaður var í kjölfar þingsályktunar um að Ísland skapi sér afgerandi lagalega sérstöðu varðandi vernd tjáningar- og upplýsingafrelsis. Þá skyldi nefndin fara yfir fyrirliggjandi tillögur á þessu sviði, auk þess að meta hverjar aðrar lagabreytingar kunni að vera æskilegar.
Gert var ráð fyrir því að nefndin skilaði einkum af sér í formi lagafrumvarpa og eftir atvikum annarra undirbúningsskjala lagasetningar. Var henni falið að skila af sér í tveimur skrefum. Þannig skyldi tilteknum þáttum lokið fyrir 1. október á þessu ári en öðrum fyrir 1. mars á því næsta. Þann 26. september síðastliðinn skilaði nefndin af sér fyrri hluta vinnu sinnar. Meðal afurðanna var frumvarp til laga um tjáningarfrelsi og þagnarskyldu opinberra starfsmanna.
Vildu huga að vernd heimildamanna
Mat flutningsmanna fyrrnefndrar þingsályktunartillögu var að nauðsynlegt væri að gera tilteknar lagabreytingar til að hrinda efni tillögunnar í framkvæmd, þar á meðal að huga að vernd heimildarmanna, sem er eitt af grundvallarskilyrðum þess að fjölmiðlar geti lagt sitt af mörkum til lýðræðisþjóðfélagsins og einn af hornsteinum tjáningarfrelsis þeirra.
Enn fremur var lagt til að gerðar yrðu tillögur um vernd afhjúpenda en fyrirmynd að slíkri löggjöf sé að finna í ýmsum nágrannaríkjum Íslands. Tilgangurinn með slíkri vernd er að vernda afhjúpendur þegar þeir koma fram með upplýsingar sem eiga erindi til alls almennings. Tóku flutningsmenn fram að til greina kæmi að breyta ákvæðum um þagnarskyldu í lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins í því skyni.
„Skýrar reglur um þagnarskyldu opinberra starfsmanna eru mikilvægur liður í því að tryggja framangreind atriði og stöðu afhjúpenda og brýnt er að afmarka nánar til hvaða atriða þagnarskylda opinberra starfsmanna nær hverju sinni,“ segir í frumvarpinu.