Netflix kom fjárfestum í opna skjöldu í dag með nýjum tölum sem sýndu mikinn vöxt áskrifenda. Þeir eru nú orðnir tæplega 140 milljónir um allan heim.
Tæplega sjö milljónir áskrifenda bættust við frá júlí og fram til loka september, að því er segir í umfjöllun Wall Street Journal.
Markaðsvirði félagsins hefur aukist ævintýralega á undanförnum árum, en það er nú tæplega 160 milljarðar Bandaríkjadala, eða sem nemur um 20 þúsund milljörðum króna.
Netflix hyggst halda áfram miklum vexti þegar kemur að framleiðslu á sjónvarpsþáttum og kvikmyndum, en í heild verður vöxturinn meira en 4 milljarðar Bandaríkjadala, eða sem nemur um 500 milljörðum króna, á þessu ári. Það þýðir að Netflix er nú farið að nálgast umfang framleiðslunnar hjá Amazon og HBO, helstu keppinautunum þegar kemur að efnisveitum.
Netflix var upphaflega stofnað árið 1997 hefur hin síðari ár, vaxið hratt eftir að fyrirtækið hóf að sækja á alþjóðamarkað með einfalda vöru; áskrift að efnisveitu á netinu, þar sem finna má fjölbreytt sjónvarpsefni.
Eitt vinsælasta efnið sem Netflix hefur framleitt eru þættir um fíkniefnastríðið í Kolumbíu, Narcos. Fjórða sería er nú væntanleg, 17. nóvember.
Tugþúsundir áskrifenda efnisveitunnar eru á Íslandi, en kannanir hafa sýnt að allt að 80 þúsund séu með áskrift af Netflix.