Engri beiðni um fóstureyðingu var synjað á síðasta ári en þrettán einstaklingum var heimilað að rjúfa þungun eftir 16. viku meðgöngu. Engri beiðni um fóstureyðingu var synjað á árinu.
Þetta kemur fram í svari Svandísar Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra við fyrirspurn frá Olgu Margréti Cilia um þungunarrof sem birtist á vef Alþingis í dag.
Eins og fram hefur komið í fréttum þá hyggst ráðherra leggja fram frumvarp til laga um þungunarrof á yfirstandandi þingi. Í svarinu kemur fram að við gerð þess hafi verið höfð hliðsjón af skýrslu nefndar um heildarendurskoðun laganna. Áætlað er að frumvarpið verði lagt fram í október, segir í svarinu.
Olga spurði jafnframt hverjar helstu ástæður þess væru að úrskurðarnefnd um fóstureyðingar og ófrjósemisaðgerðir synjar einstaklingum um að rjúfa þungun. Ráðherra segir að í lögum komi fram að fóstureyðing sé leyfileg eftir 16 vikur séu miklar líkur á vansköpun, erfðagöllum eða sköddun fósturs. Öllum málum er varða fóstureyðingu eftir 16 vikur sé vísað til úrskurðarnefndar um fóstureyðingar og ófrjósemisaðgerðir og fjalli nefndin um hvort skilyrði laganna séu uppfyllt.
„Komist nefndin að þeirri niðurstöðu að skilyrði laganna séu ekki uppfyllt er beiðni um fóstureyðingu synjað, en samkvæmt formanni úrskurðarnefndarinnar hefur í gegnum árin helsta ástæða synjunar verið þegar óskað hefur verið eftir fóstureyðingu vegna félagslegra ástæðna,“ segir í svarinu.
Þungunarrof verði heimilt fram að 19. viku
Í frumvarpinu, sem til stendur að leggja fram í haust, segir að markmiðið sé að tryggja að sjálfsforræði kvenna verði virt með öruggum aðgangi að heilbrigðisþjónustu fyrir þær konur sem óska eftir þungunarrofi. Lagt er til að konu verði veitt fullt ákvörðunarvald um það hvort hún elur barn fram að lokum 18. viku þungunar, óháð því hvaða ástæður liggja að baki þeim vilja konunnar.
Þá er lagt til að sérstaklega verði kveðið á um rétt kvenna á fullkomnustu heilbrigðisþjónustu sem á hverjum tíma eru tök á að veita í tengslum við þungunarrof og að tryggja skuli aðgang að þungunarrofi í öllum heilbrigðisumdæmum landsins, sbr. lög um heilbrigðisþjónustu.
Einnig er lagt til ákvæði um framkvæmd þungunarrofs þar sem fram kemur að þungunarrof með læknisaðgerð skuli framkvæmt á sjúkrahúsi undir handleiðslu læknis sem sé sérfræðingur á sviði kvenlækninga en einnig skuli heimilt að framkvæma þungunarrof með lyfjagjöf á starfsstöðvum lækna sem sæta eftirliti landlæknis.