Ragna Árnadóttir, aðstoðarforstjóri Landsvirkjunar, segir Íslendingar eigi erfitt með að hugsa mjög langt fram í tímann. „Við erum háð náttúruöflunum, erum alltaf að kljást við hríðina og svo kemur dúnalogn. Við erum mögulega þannig þenkjandi. En það að byggja innviði, það er alveg rosalega erfitt fyrir okkur. Og það má spyrja af hverju? Erum við hrædd við þessar áskoranir, þetta rifrildi sem felst í þessu? Stundum þarf bara að taka ákvarðanir og gera það sem er hagkvæmast og hentugast á þeim tíma sem sú ákvörðun er tekin. Þetta er erfitt fyrir okkur og við verðum að fara að taka okkur aðeins á.“
Þetta kom fram í viðtali Þórðar Snæs Júlíussonar, ritstjóra Kjarnans, við Rögnu í þættinum 21 á sjónvarpsstöðinni Hringbraut sem frumsýndur var á miðvikudag. Hægt er að horfa á stiklu úr þættinum hér að ofan.
Aðspurð um af hverju þetta sé segir Ragna að við lifum í þjóðfélagi þar sem margar skoðanir séu uppi og fólk hafi fjölmörg tækifæri til að koma á framfæri sínum skoðunum
Í þættinum fer Ragna um víðan völl og ræðir meðal annars innleiðingu hins umdeilda þriðja orkupakka Evrópusambandsins, möguleikann á því að sæstrengur verði lagður milli Íslands og Evrópu og áhrif vandræða United Silicon á sölu Landsvirkjunar á rafmagni. Hægt er að horfa á þáttinn í heild hér að neðan.