Ísland mælist í 24. sæti hvað varðar samkeppnishæfni af 140 þjóðríkjum. Árið 2017 var Ísland í 28. sæti, árið á undan í 27. sæti og árið 2015 sat Ísland í 29. sæti. Ísland hefur því farið upp um fimm sæti á þremur árum. Þetta kemur fram í árlegu skýrslu Alþjóðaefnahagsráðsins, The Global Competitiveness Report, sem kom út fyrir stuttu.
Bandaríkin skipar efsta sætið á listanum og mælist með 85,6 stig í heildarsamkeppnishæfni af 100 mögulegum stigum. Næst á eftir kemur Singapore og síðan Þýskaland. Ísland er neðst af Norðurlandaþjóðunum með 75 stig en Svíþjóð situr í 9. sæti, þar á eftir kemur Danmörk í 10. sæti, Finnland í 11. sæti og Noregur í 16. sæti.
Vísitala Alþjóðaefnahagsráðsins um samkeppnishæfni er virtur mælikvarði á efnahagslíf 140 þjóða víða um heim. Vísitalan er mjög víðtæk og endurspeglar þá þætti sem segja til um framleiðni þjóða og vaxtarmöguleika þeirra til framtíðar. Vísitalan byggir á opinberum upplýsingum og könnun sem gerð er meðal stjórnenda í atvinnulífinu. Nýsköpunarmiðstöð Íslands er samstarfsaðili Alþjóðaefnahagsráðsins á Íslandi og sér um framkvæmd könnunarinnar hér á landi.
Fjórða iðnbyltingin
Ráðið hefur tekið upp ný viðmið í umræddri skýrslu fyrir árið 2018 sem taka mið af þeim breytingum sem meðal annars fjórða iðnbyltingin hefur í för með sér, hvað varðar samkeppnishæfni og þá sérstaklega á sviði stafrænnar þróunar, en einnig sköpun í samfélaginu, frumkvöðlamenningu og hversu opin og straumlínulagað eða virkt samfélagið er. Í úttekt ráðsins er Ísland skilgreint sem nýsköpunardrifið hagkerfi og nýtur góðs, eins og endranær, af nokkrum sterkum samkeppnisþáttum eins og stöðu menntunar og heilbrigðismála, stöðugleika, aðlögunarhæfni og sveigjanleika vinnumarkaðar. Frá þessu er greint í fréttatilkynningu frá Nýsköpunarráðuneytinu.
Stærsti veikleiki Íslands miðað við flest önnur lönd, er eins og verið hefur, stærð heimamarkaðar. Ísland er þar í 131. sæti af 140. Samkvæmt Nýsköpunarmiðstöð Íslands er það atriði sem lítið er hægt að gera í nema Ísland taki áskoruninni um að hvetja fyrirtæki og frumkvöðla að taka mið af alþjóðamörkuðum í nýsköpunarverkefnum.
Áhersla á nýsköpun
Í skýrslunni kemur fram að niðurstöðurnar sem vekja hvað mestar áhyggjur Alþjóðaefnahagsráðsins eru hvað ríkin í heildina eru ekki nógu sterk þegar kemur að nýsköpunargetu. En ráðið telur að nýsköpun skipti höfuðmáli ef ríkin ætla að standast samkeppni í framtíðinni. Af 140 löndum skora 103 lönd lægra en 50 stig þegar kemur að nýsköpunargetu. Ísland stendur sig ágætlega, situr í 23. sæti og mælist með 66 stig. Samkvæmt skýrslunni er helsti veikleiki Ísland þegar kemur að gæðum rannsóknarstofnanna hér á landi en þar eru Íslendingar í 78. sæti. Ísland stendur sig hins vegar best allra landa í einu atriði og það er í netnotkun en samkvæmt skýrslunni nota 98,2 prósent af íbúum landsins Internetið.
Kjarninn hefur áður greint frá því hvernig núverandi ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur hefur lagt mikla áherslu á nýsköpun það sem af er stjórnartíð hennar. Málaflokkurinn „nýsköpun og rannsóknir“ var ein af sjö megináherslum stjórnarsáttmála hennar og lofað hefur verið stefnubreytingum og útgjaldaaukningum í þeim efnum á næstu árum.
Í frumvarpi til fjárlaga næsta árs má finna markmið um aukna nýsköpun á fjölmörgum sviðum, líkt og í sjávarútvegs- og landbúnaðarmálum, ferðaþjónustunni og í málefnum fatlaðra. Það má því segja að ríkisstjórninni telji að fjárfesting í rannsóknum og þróun í þessum geirum geti skilað raunverulegum ábata aftur til samfélagsins. Verði af áformum um mótun nýrrar nýsköpunarstefnu þá má vænta þess að samkeppnishæfni Íslands muni batna enn frekar, samkvæmt mælikvörðum Alþjóðaefnhagsráðsins.