Ragna Árnadóttir, aðstoðarforstjóri Landsvirkjunar, segir að vinna rammaáætlunar meti nánast alla aðra þætti en efnahagslega þegar ákveðið er hvar eigi að virkja og hvar ekki. Verkefnastjórnir og faghópar séu skipaðir til að meta náttúru- og menningarlega þætti og áhrif á aðra nýtingu en orkuvinnslu á landsvæðum, til dæmis landbúnað og ferðamennsku. Félagsleg áhrif séu líka metin. „Ég veit ekki alveg í hvaða stöðu Rammaáætlun er. Lögin um rammaáætlun heita lög um verndar- og orkunýtingaráætlun. Rammaáætlun gengur út á það að finna út úr því hvaða landsvæði eigi að vernda gagnvart orkunýtingu[...]Það er algjörlega hrópandi í þessu, og engin plön að því er virðist, þó það geti verið að þau hafi bara ekki komið fram, að meta efnahagslega þætti.“
Þetta kom fram í viðtali Þórðar Snæs Júlíussonar, ritstjóra Kjarnans, við Rögnu í þættinum 21 á sjónvarpsstöðinni Hringbraut sem frumsýndur var í gærkvöldi. Hægt er að horfa á stiklu úr þættinum hér að ofan.
Í þættinum fer Ragna um víðan völl og ræðir meðal annars innleiðingu hins umdeilda þriðja orkupakka Evrópusambandsins, möguleikann á því að sæstrengur verði lagður milli Íslands og Evrópu og áhrif vandræða United Silicon á sölu Landsvirkjunar á rafmagni.
Ragna spyr í viðtalinu til hvers orkunýting sé ef ekki í efnahagslegum tilgangi? Þess vegna sé sérkennilegt að efnahagslegir þættir séu ekki metnir inn í heildarmyndina. Þó sé vert að taka fram að stjórnvöld séu að vinna að gerð orkustefnu fyrir Ísland og að skipaður hafi verið starfshópur til að móta hana. „Orka er nýtt í ákveðnum tilgangi, efnahagslegum tilgangi. Ef hinir efnahagslegu þættir eru ekki metnir, hvernig eigum við þá að vita, samfélagið að vita hvað á að nýta af orkukostum og hvað á að vernda.“
Hægt er að sjá síðasta þátt 21 á Hringbraut hér að neðan.