Sonja Ýr Þorbergsdóttir er nýr formaður BSRB. Þetta kemur fram í tilkynningu frá bandalaginu.
Tveir lýstu yfir framboði til embættis formanns BSRB en kosið var til embættisins á þingi BSRB í dag. Það voru Sonja Ýr Þorbergsdóttir, lögfræðingur BSRB, og Vésteinn Valgarðsson, stuðningsfulltrúi á Kleppi.
Elín Björg Jónsdóttir, fráfarandi formaður BSRB, tilkynnti í byrjun sumars að hún myndi ekki gefa kost á sér áfram.
Kosið var um nýjan formann BSRB á 45. þingi bandalagsins, sem fór fram á Hilton hótel Nordica, í dag klukkan 14.
Þing BSRB kaus einnig tvo varaformenn og sex meðstjórnendur í níu manna stjórn bandalagsins. Garðar Hilmarsson, formaður Starfsmannafélags Reykjavíkurborgar var kjörinn 1. varaformaður og Arna Jakobína Björnsdóttir, formaður Kjalar – Stéttarfélags starfsmanna í almannaþjónustu var kjörin 2. varaformaður.
Meðstjórnendur eru þau Árni Stefán Jónsson, formaður SFR, Helga Hafsteinsdóttir, formaður Starfsmannafélags Dala- og Snæfellsnessýslu, Karl Rúnar Þórsson, formaður Starfsmannafélaga Hafnarfjarðar, Snorri Magnússon, formaður Landssambands lögreglumanna og Jón Ingi Cæsarsson, formaður Póstmannafélags Íslands.
Þá voru kjörnir fjórir varamenn í stjórn BSRB, þau Þórveig Þormóðsdóttir, formaður Félags starfsmanna stjórnarráðsins, Rita Arnfjörð, formaður Starfsmannafélags Kópavogs, Magnús Smári Smárason, formaður Landssambands slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna, og Birna Friðfinnsdóttir, formaður Tollvarðafélags Íslands.