Auðun Freyr Ingvarsson, fráfarandi framkvæmdastjóri Félagsbústaða, segist ekki sjá ákveðin atriði, sem koma fram í úttekt sem gerð var vegna umframkostnaðar við endurbætur á 53 íbúðum Félagsbústaða við Írabakka í Reykjavík, sömu augum og Innri endurskoðun. Frá þessu greinir hann á Facebook-síðu sinni í dag.
Auðun segir að ein alvarlegasta niðurstaða skýrslunnar sé sú að stjórnin hafi ekki veitt heimild til framkvæmda fyrir nema um 400 milljónum króna vegna verkefnisins við Írabakka. Enn fremur sé því haldið fram að framkvæmdakostnaður upp á 728 milljónir hafi farið ríflega 83 prósent fram úr kostnaðaráætlun. Þessu virðist haldið fram án þess að sannreynt hafi verið að skilningur stjórnar á þessum tíma væri sá sami, segir hann.
„Þessa túlkun innri endurskoðunar tel ég villandi og hún er ekki í samræmi við þær áætlanir sem kynntar voru fyrir stjórn fyrir árið 2015 og aftur árið 2016 þar sem gerð var grein fyrir stöðu verkefnisins og jafnframt greint frá því að heildarkostnaður sé áætlaður 625 milljónir,“ segir hann í stöðuuppfærslu sinni.
Til að taka af öll tvímæli um skilning stjórnar á stöðu verkefnisins bendir Auðun á að í skýrslu hennar til eiganda, sem aðgengileg er á heimasíðu Félagsbústaða, hafi stjórnin upplýst í ársskýrslu fyrir árið 2016 að heildarkostnaður verkefnisins hafi stefnt í að verða um 600 milljónir króna. „Framúrkeyrsla m.v. uppfærðar áætlanir sem kynntar voru stjórn og eiganda var því nær 21 prósent eða um 125 milljónir. Það er umtalsverð fjárhæð en þó ekki með öllu óeðlilegt fyrir verkefni af þessari stærð og gerð hjá félagi sem síðustu ár hefur fjárfest fyrir 2.000 til 3.000 milljónir króna á hverju ári,“ segir hann.
Ekki nægilega vel staðið að undirbúningi og innkaupum
Auðun segir að réttilega sé bent á það í skýrslunni að ekki hafi verið nægjanlega vel staðið að undirbúningi og innkaupum í umræddri framkvæmd. „Þrátt fyrir að það hafi verið mér kappsmál að standa rétt og vel að innkaupum fyrir Félagsbústaði, virðast hafa verið ákveðnar brotalamir á umgjörð þessa verkefnis sem ég gerði mér ekki nógu fljótt grein fyrir. Á því axla ég ábyrgð.“
Hann segir jafnframt að allar aðrar stærri verkframkvæmdir sem félagið hefur staðið fyrir síðan hann hóf störf sem framkvæmdastjóri hafi farið í útboðsferli og áætlanir hafi í öllum aðalatriðum staðist.
Með því að stíga til hliðar á þessum tímapunkti segist hann vilja ábyrgð á hlutum sem betur hefðu mátt fara á hans vakt og veita stjórn og nýjum stjórnendum svigrúm til að takast á við þær áskoranir sem felist í því að halda úti stóru og öflugu þjónustufyrirtæki í opinberri eigu.
Varð ljóst að kostnaður færi verulega yfir samþykkta áætlun
Auðun rifjar upp að daginn sem hann hóf störf hjá Félagsbústöðum hafi í stjórn verið samþykkt fjárhagsáætlun ársins 2014 sem meðal annars hafi falið í sér áætlun vegna framkvæmda við Írabakka en unnið hafði verið að endurbótum hússins frá árinu 2012. „Áætlunin sem gerð var við upphaf verksins gerði ráð fyrir framkvæmd upp á 200 milljónir, sem fólust meðal annars í endurbótum vegna leka og vegna brunavarna. Eins og margir þekkja, sem staðið hafa í viðhaldi fasteigna, getur reynst erfitt að áætla með vissu kostnað endurbóta. Sífellt koma upp nýir hlutir sem hagkvæmt er að takast á við þegar verið er að framkvæma á annað borð. Þegar svo ber undir eru áætlanir uppfærðar eftir því sem verkið þróast og því vindur fram.“
Þegar leið á árið 2014, hans fyrsta ár í starfi, varð honum ljóst að kostnaður við framkvæmdir var að fara verulega yfir samþykkta áætlun fyrir verkið. Framkvæmdir við Írabakka hafi því fengið sérstaka athygli og umfjöllun í áætlun fyrir árið 2015 þar sem stjórn félagsins hafi verið kynnt staðan. Gerð hafi verið grein fyrir raunkostnaði á árunum 2012 til 2014, áætluðum kostnaði fyrir sama tímabil og uppfærðri áætlun um framkvæmdakostnaði á árunum 2015 til 2016. Heildarkostnaður verksins hafi verið áætlaður 625 milljónir, eða 500 milljónir án virðisaukaskatts.
„Kostnaður við verkið fór þrátt fyrir þetta nokkuð fram úr áætlun á árinu 2015 en þegar ljóst var að frammúrkeyrsla yrði verulega árið 2016 ákvað ég í maí það ár, í samvinnu við stjórnarformann félagsins, að óska eftir því að innri endurskoðun Reykjavíkurborgar færi yfir málið. Það var ljóst að ákveðnar brotalamir höfðu komið fram í áætlunargerð, stjórnun og eftirliti verkefnisins og heppilegt var talið að fá aðstoð frá innri endurskoðun við að fara yfir verklag og gera tillögur að úrbótum,“ segir Auðun.