WOW air mun í dag hefja sölu á flugsætum til Vancouver í Kanada en áætlunarflug þangað hefst þann 6. júní næstkomandi. Flogið verður sex sinnum í viku til að byrja með en flogið verður í Airbus A321 vélum. Flugtíminn er tæpir átta klukkutímar.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá flugfélaginu í dag.
Flugfélagið ákvað að hætta að fljúga frá þremur borgum í miðvesturríkjum Bandaríkjanna í síðustu viku. WOW hættir að fljúga frá St. Louis í byrjun næsta árs og mun ekki snúa aftur til Cincinnati eða Cleveland næsta sumar. Aðeins eru fimm mánuðir síðan WOW hóf að fljúga frá þessum þremur borgum.
Fyrr í þessum mánuði ákvað flugfélagið að hætta að fljúga til Stokkhólms, Edinborgar og San Francisco yfir vetrarmánuðina og mun félagið aflýsa flugum frá 5. nóvember næstkomandi til byrjun apríl á næsta ári.
Skúli Mogensen eigandi og forstjóri WOW air segir að í kjölfar mikillar velgengi í Kanada hafi þau ákveðið að bæta Vancouver við leiðarkerfið. Það sé frábært að geta boðið enn fleirum upp á þann valkost að fljúga ódýrt yfir hafið.