Hlutabréfavísitala Nasdaq í Bandaríkjunum lækkaði um 4,4 prósent í dag sem er mesta lækkun í sjö ár. Sérstaklega lækkaði virði tæknifyrirtækja mikið, en samanlagt lækkaði verðmiðinn á Apple, Amazon og Netflix, um 120 milljarða Bandaríkjadala, eða sem nemur um 14.400 milljörðum króna.
Samkvæmt umfjöllun Wall Street Journal er lækkunin ekki síst rakin til vaxandi neikvæðni meðal fjárfesta yfir hækkandi vöxtum á alþjóðamörkuðum og einnig vaxandi verðbólguþrýstingi, ekki síst vegna þess að hröð hækkun olíuverðs er nú farin að koma fram í hærra vöruverði. Þá eru fjárfestar einnig sagðir áhyggjufullir yfir viðskiptastríði Kína og Bandaríkjanna, sem nú er í algleymingi.
Donald Trump Bandaríkjaforseti er vanur að vera með augun á hlutabréfamarkaðnum, og hefur í ófá skipti sagt að hlutabréfaverð hafi aldrei verið hærra, þegar hann fjallar um stöðu efnahagsmála í Bandaríkjunum. Undanfarin misseri hefur hann gagnrýnt Seðlabanka Bandaríkjanna harðlega fyrir að vera að hækka vexti, en stýrivextir í Bandaríkjunum eru nú 2,25 prósent og er útlit fyrir að þeir hækki í rúmlega 3 prósent á næsta ári, samkvæmt efnahagsspá bankans.
Trump Steps Up Attacks on Fed Chairman Powell https://t.co/kqo0j9Nc95 This clown thinks he can run the Fed too.
— Barton (@IfSoFactSow) October 24, 2018
Trump lét hafa eftir sér í dag að forveri hans, Barack Obama, hefði búið við allt aðra stöðu en hann, því þá hefðu vextir verið nálægt núlli. Núna væri staðan önnur og það væri „óásættanlegt“. Sagði hann að bankann vera orðinn „brjálaðan“ á dögunum, og vonaðist til þess að hann myndi snúa af braut vaxtanahækkana. Jerome Powell er nú seðlabankastjóri, eftir að Trump skipaði hann í starfið.
Á íslenskum hlutabréfamarkaði hefur ávöxtun ekki verið góð undanfarna tólf mánuði. Vísitalan hefur lækkað um tæplega 6 prósent á því tímabili, en sé horft til ársins 2018 þá hefur hún lækkað um rúmlega 14 prósent.
Slök ávöxtun á markaðnum sést meðal annars á neikvæðri ávöxtun innlendra hlutabréfasjóða.