Harpa Jónsdóttir, framkvæmdastjóri fjármálastöðugleikasviðs Seðlabanka Íslands, segir ólíklegt að heimili og fyrirtæki landsins muni þurfa að ganga í gegnum sambærilegt endurskipulagningar- og þrengingarferli og þau gerðu eftir bankahrunið við næstu lendingu í efnahagslífinu. „Við erum vel í stakk búin. Við höfum sjaldan verið í jafn góðri stöðu. Ef við lítum á skuldir heimilanna þá erum við að sjá betri mynd en við höfum séð síðustu tvo áratugi. Svipað er að segja um fyrirtækin, þótt að skuldavöxtur þar hafi verið örlítið meiri. En horft í sögulegu samhengi síðustu 20 árin þá stöndum við sterkt.“
Þetta er meðal þess sem kemur fram í viðtali Þórðar Snæs Júlíussonar, ritstjóra Kjarnans, við Hörpu í sjónvarpsþættinum 21 á Hringbraut sem frumsýnt var á miðvikudag. Þar ræddu þau innihald nýs Fjármálastöðugleikarits Seðlabanka Íslands. Hægt er að horfa á stiklu úr þættinum í spilaranum hér að ofan.
Harpa ræddi þar einnig inngrip Seðlabanka Íslands á gjaldeyrismarkað en um var að ræða annað inngrip bankans á skömmum tíma til að hefta hraða veikingu krónunnar. Harpa segir að inngripin eigi sér ætið skamman aðdraganda. „Nú er það yfirlýst markmið peningastefnunnar að Seðlabankinn grípi inn í ef að flöktið á markaðnum er mjög mikið. Þannig að ef að krónan hreyfist svona hratt og mikið á fáum dögum þá er það metið hverju sinni hvort að grípa skuli inn í til að róa markaðinn.“
Hægt er að horfa á 21 miðvikudagsins í heild hér að neðan.