Rósa Björk Brynjólfsdóttir þingmaður Vinstri grænna segir að rótin að sláandi niðurstöðum skýrslu Milliríkjanefndar Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar (IPCC) og loftlagsbreytingum sé kapítalískt heimsskipulag og að Íslendingar þurfi að horfast í augu við það. Þetta kom fram í ræðu hennar á Alþingi í morgun.
„Kapítalisminn í sinni allra verstu mynd, hefur haft þau áhrif að neysla okkar hefur haft eyðileggjandi áhrif á náttúruna okkar, jörðina okkar og loftslagið,“ segir Rósa Björk en hún telur að bregðast þurfi við loftslagsbreytingum af fullri hörku. Róttækra félagslegra, pólitískra, efnahagslegra og menningarlegra breytinga sé þörf.
Hún bendir enn fremur á að tíminn sé naumur. „Við þurfum að ráðast í róttækar breytingar á lífsháttum okkar og skipulagi samfélagsins núna út frá þeirri meginhugsun að vernda náttúru og koma í veg fyrir meira tjón. Það er alls ekki nóg, þó að vel sé, að koma fram með fína aðgerðaáætlun í loftlagsmálum, sem er nauðsynlegt skref en ekki endastöð. Og við þurfum að gera meira en að vera á tánum.“
Í lok ræðunnar segir Rósa Björk þetta vera risastór markmið sem mörgum óar við en þau séu nauðsynlegt markmið. „Ef að ef okkur takist það ekki þá skiljum við ekki eftir neina möguleika fyrir næstu kynslóðir að lifa lífvænlegu lífi.“
Segir stjórnvöld taka skýrsluna alvarlega
Umhverfis- og auðlindaráðherra, Guðmundur Ingi Guðbrandsson, tók einnig til máls á Alþingi í morgun. Hann segir að skýrslan sé afar mikilvæg og bendir á að hún hafi af mörgum verið kölluð lokaviðvörun vísindasamfélagsins um að róttækra breytinga sé þörf til að komast hjá skelfilegum afleiðingum stjórnlausrar hnattrænnar hlýnunar.
„Skýrsla IPCC er þörf brýning til Íslands og allra ríkja heims um að loftslagsbreytingar af mannavöldum eru alvöru mál og að tími til aðgerða er naumur. Stjórnvöld hér á landi munu taka þessi skilaboð inn í vinnu við nýja útgáfu af aðgerðaáætlun stjórnvalda, sem lítur dagsins ljós á næsta ári, eftir samráðsferli sem nú stendur yfir. Við tökum skýrsluna þannig mjög alvarlega,“ segir hann.
Guðmundur Ingi segir að Ísland geti þó ekki eitt og sér tryggt árangur á heimsvísu, frekar en nokkurt eitt ríki. En skyldan sé rík. „Við höfum mörg tækifæri til að draga úr losun og auka kolefnisbindingu og getum auk þess náð öðrum markmiðum um leið, svo sem minni heilsuspillandi loftmengun og endurheimt skaddaðra vistkerfa,“ segir hann og bætir því við að nú sé unnið að þessu.
Telur aðgerðaráætlunin endurspegla áherslur skýrslunnar
Guðmundur Ingi telur enn fremur að aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar endurspegli áherslur skýrslunnar. Hann segir að áætlunin taki á öllum helstu uppsprettum losunar og möguleikum á kolefnisbindingu og með því að stórauka fjármagn til aðgerða. Það sé vel þekkt á alþjóðavettvangi að hér á landi sé notuð nær eingöngu endurnýjanleg orka til rafmagnsframleiðslu og húshitunar.
„Við höfum nú tækifæri til að vera í fararbroddi við að nota endurnýjanlega orku til samgangna og síðar í sjávarútvegi. Þannig eru metnaðarfull áform um rafvæðingu bílaflotans, uppbyggingu innviða vegna þess, auknar almenningssamgöngur o.s.frv. Þannig getum við ráðist í þriðju byltinguna í notkun endurnýjanlegrar orku. Fá lönd hafa líka stærri tækifæri til að binda kolefni í gróðri og jarðvegi og þar getum við aftur sýnt mikilvægt fordæmi. Og það skiptir máli, ekki síst fyrir kolefnishlutleysi,“ segir hann.
Hann nefnir jafnframt að íslenskt hugvit og þekking í loftslagsvænni tækni hafi vakið athygli. Þar megi nefna niðurdælingu koltvísýrings á Hellisheiði og loftslagsvæna tækni í skipum. Mikilvægt sé að Íslendingar efli nýsköpun og það verði meðal annars gert með því að koma Loftslagssjóði í gagnið, líkt og kveðið er á um í aðgerðaáætluninni.
„Í aðgerðaáætlun okkar eru settar fram sviðsmyndir um losun í öllum geirum samfélagsins og 34 aðgerðir settar fram. Við þurfum vissulega nákvæmari útreikninga til að sjá hverju hver aðgerð skilar, um það erum við meðvituð, og sú vinna tekur nú við, m.a. miðað við sviðsmyndirnar sem að ofan eru nefndar,“ segir Guðmundur Ingi. Hann telur fókusinn skýran. „Meginsamdráttur á að eiga sér stað með því að draga úr olíunotkun, og minnka magn koltvísýrings í andrúmslofti með kolefnisbindingu. Þannig eru aðgerðir í aðgerðaáætlun í takti við ráðleggingar IPCC skýrslunnar.“
Hann segist að lokum vera afar ánægður með að ný aðgerðaáætlun marki straumhvörf varðandi fjármagn og afl til loftslagsmála og það eitt og sér séu stórtíðindi í umhverfisvernd á Íslandi.