Tíu formenn veiðifélaga á Norður- og Vesturlandi segja í bréfi til þingmanna Norðvesturkjördæmis að fiskeldi í opnum sjókvíum sé atlaga að búsetu í sveitum landsins. Vitnað er til þess að 280 lögbýli í Húnavatnssýslu hafi tekjur af laxveiði auk margra jarða sem hafi tekjur af silungsveiði.
Í bréfinu er sérstaklega vikið að því, að eldi í opnum sjókvíum geti kippt stoðunum undan umfangsmikilli atvinnugrein hjá bændum, og auk þess brotið upp samvinnuskipulag bænda sem tryggir að tekjur af veiðinni dreifist um byggðirnar.
„Bændur og aðrir veiðiréttareigendur hafa lagt sig fram um að vernda, viðhalda og umgangast þessa auðlind með þeirri virðingu, sem henni ber, þannig að orðspor laxveiðiáa verði sem allra best. Jafnframt hafa verið settir miklir fjármunir í að bæta aðstöðu veiðimanna s.s. með góðum aðbúnaði í veiðihúsum og aðgengi að veiðisvæðum með vegalagningu. Tekjur af lax- og silungsveiðihlunnindum hafa í margar kynslóðir verið mjög mikilvæg stoð við búskap fjölmargra bænda í sveitum landsins. Ef þessi verðmæti skerðast verður fótunum kippt undan afkomu fjölskyldna um allt land. Lagaleg umgjörð um samvinnufélög bænda í tengslum við veiðiár tryggir að tekjurnar dreifast með lýðræðislegum hætti innan sveita.
Þessi verðmæti eru ekki aðeins í hættu vegna þeirrar óhjákvæmilegu erfðablöndunar sem verður þegar eldisfiskur af norskum uppruna gengur upp í árnar, heldur verður skaðinn strax þegar eldisfiskur veiðist í ánum. Orðspor viðkomandi veiðiár bíður þá hnekki og verðmæti hlunninda hennar minnkar,“ segir í bréfinu.
Þá segir enn fremur að nauðsynlegt sé að koma í veg fyrir að eldi í opnum sjókvíum verði opnað í Ísafjarðardjúpi. „Koma þarf í veg fyrir að tilraunaeldi í opnum sjókvíum fari ofan í Ísafjarðardjúp. Óboðlegt við þær aðstæður sem eru uppi að setja niður opnar sjókvíar í fleiri firði við landið en eru þar nú þegar. Hægt er að fá allar nauðsynlegar upplýsingar frá þeim sjókvíaeldisfyritækjum sem eru þegar starfandi. Fréttir frá því í sumar af því að eldisfiskur hefur veiðst á ám sem eru víðsfjarri sjókvíaeldi sýna okkur sem ekki verður um villst að eldisfikur ferðast langa vegalengd. Gjarnan 400 til 600 km áður en henn gengur upp í ár, þetta staðfesta rannsóknir í Noregi.“
Bréfið fer hér að neðan í heild sinni:
Alþingismenn og ráðherrar Norðvesturkjördæmis.
Í framhaldi af ágætum fundi með alþingismönnum Norðvesturskjördæmis ( HB, LRM, SPJ og GB ) þann 15. október s.l. eru hér á eftir tilfærð helstu áhersluatriði sem nefndar voru á fundinum.
Tilefni fundarins sem boðað var til að ósk forsvarsmanna veiðifélaga í Húnavatnssýslu, er fyrirhugað sjókvíaeldi á laxi í opnum sjókvíum í Ísafjarðardjúpi.
1) Eldi í opnum sjókvíum er atlaga að búsetu í sveitum Í Húnavatnssýslu eru um 280 lögbýli sem hafa tekjur af laxveiðihlunnindum, auk margra jarða sem hafa tekjur af silungsveiði.
Bændur og aðrir veiðiréttareigendur hafa lagt sig fram um að vernda, viðhalda og umgangast þessa auðlind með þeirri virðingu, sem henni ber, þannig að orðspor laxveiðiáa verði sem allra best. Jafnframt hafa verið settir miklir fjármunir í að bæta aðstöðu veiðimanna s.s. með góðum aðbúnaði í veiðihúsum og aðgengi að veiðisvæðum með vegalagningu.
Tekjur af lax- og silungsveiðihlunnindum hafa í margar kynslóðir verið mjög mikilvæg stoð við búskap fjölmargra bænda í sveitum landsins. Ef þessi verðmæti skerðast verður fótunum kippt undan afkomu fjölskyldna um allt land. Lagaleg umgjörð um samvinnufélög bænda í tengslum við veiðiár tryggir að tekjurnar dreifast með lýðræðislegum hætti innan sveita.
Þessi verðmæti eru ekki aðeins í hættu vegna þeirrar óhjákvæmilegu erfðablöndunar sem verður þegar eldisfiskur af norskum uppruna gengur upp í árnar, heldur verður skaðinn strax þegar eldisfiskur veiðist í ánum. Orðspor viðkomandi veiðiár bíður þá hnekki og verðmæti hlunninda hennar minnkar.
Laxveiði í Hunavatnssýslum og reyndar víða um land er mikilvægur þáttur þeim hluta dýrasta hluta ferðamannaiðnaðarins. Þó það fari ekki hátt þá heimsækja árnar margir auðugir ferðamenn. Þessir aðilar leggja mikið upp úr að árnar séu sjálfbærar og allt umhverfi sé i sátt við náttúruna. Í viðtölum við erlenda veiðimenn hafa oft komið fram áhyggjur þeirra af áhrifum laxeldis í sjó á stofna ánna. Við erum því í þessu sambandi bæði að tala um raunveruleg áhrif þ.e. eldislax gengur í á, en einnig áhrif á orðspor allra annarra áa gangi eldislax í eina á.
Koma þarf í veg fyrir að tilraunaeldi í opnum sjókvíum fari ofan í Ísafjarðardjúp. Óboðlegt við þær aðstæður sem eru uppi að setja niður opnar sjókvíar í fleiri firði við landið en eru þar nú þegar. Hægt er að fá allar nauðsynlegar upplýsingar frá þeim sjókvíaeldisfyritækjum sem eru þegar starfandi. Fréttir frá því í sumar af því að eldisfiskur hefur veiðst á ám sem eru víðsfjarri sjókvíaeldi sýna okkur sem ekki verður um villst að eldisfikur ferðast langa vegalengd. Gjarnan 400 til 600 km áður en henn gengur upp í ár, þetta staðfesta rannsóknir í Noregi.
Með því að setja niður sjókvíaeldi í Djúpið er kominn eldislax í næsta nágrenni við húnvetnsku árnar. Í því sambandi er rétt að minna á að fjarlægð frá fyrirhuguðum kvíum í Djúpinu í árnar í Húnavatnssýslu er á milli 200 til 300 km.
2) Eldi í opnum sjókvíum ógnar villtum laxastofnum
Norskir vísindamenn hafa staðfest að 66% villtra stofna í Noregi hafa skaðast vegna erfðablöndunar. Gera má ráð fyrir að einn eldislax sleppi úr hverju einu tonni sem alið er í sjókvíum. Það þýðir að 71.000 eldislaxar sleppi í sjó við Ísland á hverju ári ef áform um 71.000 tonna eldi ná fram að ganga. Til samanburðar er talið að hrygningarstofn íslenska laxins sé um 40.000 fiskar. Norski eldislaxinn hefur verið ræktaður um langa hríð sem hraðvaxta húsdýr og ber með sér erfðaeiginleika sem geta verið mjög skaðlegir þegar þeir blandast villtum stofnum og dregið stórlega úr möguleikum þeirra til að komast af í náttúrunni.
--- Erfðablöndunin er ekki eina hættan þegar fiskur sleppur úr opnum sjókvíum. Viðvera eldisfisk ein og sér skaðar afkomumöguleika villtra stofna. Eldisfiskurinn gengur seinna í árnar, leitar á sömu hrygningarstaði og getur rótað þar upp og spillt fyrir hrygningu villtra stofna.
- Við þetta bætist eitranir vegna laxalús, lúsin sjálf, nýrnaveiki og aðrir fisksjúkdómar sem grassera í kvíunum.
Virðingarfyllst.
25. október 2018.
Kristinn Guðmundsson, formaður Veiðifélags Hrútafjarðarár og Síkár
Þorsteinn B. Helgason, formaður Veiðifélags Miðfirðinga
Björn Magnússon, formaður Veiðifélags Víðidalsár
Birgir Ingþórsson, formaður Veiðifélags Gljúfurár
Magnús Ólafsson, formaður Veiðifélags Vatnsdalsár
Páll Á Jónsson, formaður Veiðifélags Laxár á Ásum
Oddur Hjaltason, formaður Veiðifélags Fremri - Laxár
Sigurður Ingi Guðmundsson, formaður Veiðifélags Blöndu og Svartár
Anna Margrét Jónsdóttir, formaður Veiðifélags Laxár á Refasveit
Magnús Bergmann Guðmannsson, formaður Veiðifélags Hallár.