Helga Hlín Hákonardóttir og Jón Sigurðsson hafa sig úr stjórn Vátryggingafélags Íslands. Stjórn félagsins er núna skipuð Valdimari Svavarssyni, sem nú er formaður, Gesti Breiðfjörð Geirssyni, varaformanni og Svanhildi Nönnu Vigfúsdóttur.
Varamenn eru Ólöf Hildur Pálsdóttur og Sveinn Friðrik Sveinsson.
Svanhildur Nanna hætti sem stjórnarformaður í júní síðastliðnum, vegna persónulegra mála, samkvæmt yfirlýsingu hennar, og tók varaformaðurinn, Helga Hlín, þá við sem formaður stjórnarinnar. Um mitt ár 2017 tók Svanhildur Nanna við stjórnarformennskunni af Herdísi Fjeldsted, og sagði Herdís sig úr stjórn félagsins í kjölfarið.
Svanhildur Nanna hefur nú stöðu sakbornings í hinu svonefnda Skeljungsmáli sem Íslandsbanki kærði árið 2016 og fjallað var ítarlega um á vef Kjarnans í sumar.
Mikið rót hefur því verið á stjórnarmönnum félagsins að undanförnu.
Ekki er greint frá því í tilkynningu VÍS til kauphallar, hvers vegna Helga Hlín og Jón hafa sagt sig úr stjórninni, en í yfirlýsingu sem Valdimar Svavarsson hefur sent frá sér, og vísað er til að vef Viðskiptablaðsins, kemur fram að ágreiningur hafi verið uppi um verkaskiptingu í stjórninni.
Segir í yfirlýsingu Valdimars að það sé miður að Helga Hlín og Jón hafi kosið að segja sig úr stjórninni.
Stærsti eigandi VÍS er Lífeyrissjóður verslunarmanna, með tæplega 10 prósent hlut. Tveir aðrir lífeyrissjóðir eru meðal fimm stærstu hluthafa. Frjálsi lífeyrissjóðurinn með 5,6 prósent hlut og LSR með 5,3 prósent hlut.
Markaðsvirði VÍS við lokun markaða í gær var 22 milljarðar króna.