Mynd: EPA

Sagan öll: Þetta er það sem verið er að rannsaka í Skeljungsmálinu

Hjón sem keyptu olíufélag með dönskum fasteignum, maðurinn sem vann hjá banka við að selja þeim félagið en varð síðar ráðinn forstjóri þess, fyrrverandi stjórnarformaður Fjármálaeftirlitsins og færeyskt olíufélag sem selt var á undirverði er meðal þess sem Skeljungsfléttan snýst um. Hún er nú til rannsóknar hjá embætti héraðssaksóknara sem hefur m.a. ráðist í handtökur vegna hennar.

Fimm ein­stak­lingar eru grun­aðir um lög­brot í tengslum við kaup og sölu á hlutum í Skelj­ungi. Á meðal þeirra eru hjónin Svan­hildur Nanna Vig­fús­dóttir og Guð­mundur Þórð­ar­son, sem keyptu 51 pró­sent hlut í Skelj­ungi sum­arið 2008 af Glitni, rest­ina af félag­inu skömmu síðar og áttu síðan í umdeildum við­skiptum með fær­eyska olíu­fé­lag­ið P/F ­Magn. Emb­ætti hér­aðs­sak­sókn­ara réðst í umfangs­miklar aðgerðir síð­ast­lið­inn fimmtu­dag vegna máls­ins, sem sam­kvæmt fréttum RÚV byggir á kæru Íslands­banka frá árinu 2016.

Sam­kvæmt heim­ildum Kjarn­ans voru hjónin hand­tek­inn á fimmtu­dag en ekki farið fram á gæslu­varð­hald yfir þeim. Svan­hildur Nanna var stjórn­ar­for­maður VÍS, þar sem félag hjón­anna er hlut­hafi. Hún steig niður úr þeirri stöðu síð­ast­lið­inn föstu­dag. 

Á meðal hinna þriggja sem eru með stöðu grun­aðs er Einar Örn Ólafs­son, sem var starfs­maður Glitnis þegar salan átti sér stað en var síðar ráð­inn for­stjóri félags­ins af nýjum eig­end­um. Skýrsla var líka tekin af honum á fimmtu­dag. Á meðal þeirra brota sem grunur er um að hafi verið framin eru umboðs­svik. 

Kjarn­inn hefur fjallað ítar­lega um kaup og sölu á Skelj­ungi á und­an­förnum árum. Hér að neðan fylgir sagan öll. 

Selt fram og til baka

Fyrst þarf aðeins að rifja upp það sem gekk á áður en að Skelj­ungur end­aði í hönd­unum á Glitni, og af hverju elds­neyt­is­sali varð eign banka. 

Í febr­­úar 2004 keypti eign­­ar­halds­­­fé­lag á vegum Pálma Har­alds­­son­­ar, sem oft­­ast er kenndur við ­Fons, og þáver­andi við­­skipta­­fé­laga hans, Jóhann­esar Krist­ins­­son­­ar, Skelj­ung af Kaup­­þingi. Tæpu ári síðar var félagið selt til Haga, sem þá voru í eigu Baugs­­fjöl­­skyld­unn­­ar, en náið við­­skipta­­sam­­band var á milli Pálma og henn­­ar. Í kjöl­farið var versl­un­­ar­­rekstur Skelj­ungs færður yfir til 10-11, sem þá var einnig í eigu Haga.

Ári síð­­­ar, 1. mars 2006, var Skelj­ungur seldur að nýju og í þetta sinn til félags­­ins Upp­­­sprettu ehf., dótt­­ur­­fé­lags ­Fons. Rekstur bens­ín­­stöðv­­anna var sam­hliða færður aftur frá 10-11 til Skelj­ungs. Sömu aðilar voru því að selja félagið fram og til baka á milli sín.

Þannig hélst eign­­ar­haldið fram í des­em­ber 2007 þegar Glitnir ákvað að sölu­­tryggja allt hlutafé Upp­­­sprettu í Skelj­ungi fyrir 8,7 millj­­arða króna. Á manna­­máli þýddi það að bank­inn skuld­batt sig til að kaupa Skelj­ung á því verði ef eng­inn annar væri til­­­bú­inn til þess. Sú varð raunin og því eign­að­ist bank­inn félag­ið. Í árs­­lok þess árs námu skuldir Skelj­ungs rúmum tíu millj­­örðum króna en þorri þeirra var í erlendum gjald­eyri. Þær hækk­­uðu því mikið við fall krón­unn­­ar. 

Þegar þessi kaup áttu sér stað var Jón Ásgeir Jóhann­es­son, höfuð Baugs­fjöl­skyld­unn­ar, og við­skipta­fé­lagar hans orðnir alls­ráð­andi í eig­enda­hópi Glitn­is.

Borg­uðu með fast­­eignum í Dan­­mörku

Í ágúst 2008 keypti félag­ið BG Partner­s 51 pró­­senta hlut í Skelj­ungi. Eig­endur þess voru hjónin Svan­hildur Nanna Vig­­fús­dóttir og Guð­­mundur Þórð­­ar­­son og við­­skipta­­fé­lagi þeirra, Birgir Þór Bielt­vedt. Heild­­ar­virði Skelj­ungs var í þeim við­­skiptum talið vera um þrír millj­­arðar króna, sem er rúmur þriðj­ungur af sölu­­trygg­ing­unni sem Glitnir veitti og tap­aði síð­­­ar. BG Partner­s greiddi sam­­kvæmt því um 1,5 millj­­arð króna fyrir ráð­andi hlut í Skelj­ungi.

Reyndar liggur ekki alveg fyrir hvert loka­verðið var því hluti kaup­verðs­ins var greiddur með fast­­eignum í Dan­­mörku sem hríð­­lækk­­uðu í verði eftir að al­þjóða­lega fast­­eigna­­bólan sprakk með látum árið 2008. 

Staða Skelj­ungs á þessum tíma var ekki góð. Skuldir höfðu vaxið úr tíu millj­­örðum króna í 18 millj­­arða króna á einu ári og eigið fé félags­­ins var nei­­kvætt um rúm­­lega 1,8 millj­­arða króna.

Sá 49 pró­­senta hlutur sem Glitnir hélt eftir var færður yfir til Íslands­­­banka eftir banka­hrunið og bank­inn fékk tvo menn í fimm manna stjórn. Í lok maí 2009 var Einar Örn Ólafs­­son ráð­inn for­­stjóri Skelj­ungs. Full­­trúar Íslands­­­banka í stjórn félags­­ins, þeir Rík­­harð Ottó Rík­­harðs­­son og Hörður Fel­ix­­son, greiddu ekki atkvæði með ráðn­­ingu Ein­­ars. Einar hafði áður unnið hjá fyr­ir­tækja­ráð­­gjöf Íslands­­­banka og var meðal ann­­ars for­­stöð­u­­maður hennar frá stofnun bank­ans í októ­ber 2008. 

Glitnir banki sat uppi með Skeljung og þaðan var félagið selt með hætti sem nú þykir tilefni til rannsóknar.
Mynd: EPA

Einar hafði einnig séð um söl­una á 51 pró­­senta hlut í Skelj­ungi frá Glitni til­ BG Partners, félags þeirra Svan­hildar Nönnu, Guð­­mundar og Birg­is, í ágúst 2008. Á meðal sam­­starfs­­fé­laga Ein­­ars í fyr­ir­tækja­ráð­­gjöf Glitn­is, og síðar Íslands­­­banka, voru Halla Sig­rún Hjart­­ar­dóttir og Kári Þór Guð­jóns­­son. Þau áttu eftir að koma mikið við sögu Skelj­ungs­við­­skipta síðar meir.

Hætti vegna trún­­að­­ar­brests

Þegar Einar var ráð­inn for­­stjóri Skelj­ungs var það gert að til­­lögu stjórnar félags­­ins, þeirra Svan­hildar Nönnu, Guð­­mundar og Birg­­is. For­svar­s­­menn Íslands­­­banka voru afar ósáttir við að ekk­ert sam­ráð var haft við þá áður en til­­lagan var lögð fram, enda hafði Einar skömmu áður hætt störfum hjá bank­an­­um.

Sam­­kvæmt frétt DV um starfs­­lok hans urðu þau vegna trún­­að­­ar­brests  sem skap­­ast hafði milli Ein­­ars og for­svar­s­­manna bank­ans. Einar hafði, sam­­kvæmt frétt­inni, verið að hugsa um að finna sér aðra vinnu um nokk­­urt skeið og var far­inn að ræða við eig­endur Skelj­ungs um að taka við félag­inu á meðan hann starf­aði enn í bank­an­­um. For­svar­s­­menn Íslands­­­banka komust á snoðir um þetta og mátu það svo að óheppi­­legt væri að Einar héldi áfram að vinna þar, meðal ann­­ars vegna þess að hann hafði aðgang að trún­­að­­ar­­upp­­lýs­ingum í bank­­anum sem gætu nýst Skelj­ungi. Ein­­ari var því gert að hætta með skömmum fyr­ir­vara.

Bank­inn lét fara fram óháða rann­­sókn

Í kjöl­far ráðn­­ingar Ein­­ars lét Íslands­­­banki óháðan aðila rann­saka sölu bank­ans á ráð­andi hlut í Skelj­ungi, sem Einar hafði séð um, því bank­inn vildi ganga úr skugga um að eðli­­lega hefði verið staðið að söl­unni. Mikið var rætt um málið í stjórn Íslands­­­banka á þessum tíma og ljóst var að afstaða sumra stjórn­­­ar­­manna var sú að BG Partner­s hefði fengið að kaupa gott rekstr­­ar­­fé­lag fyr­ir­ alltof lágt verð og auk þess borgað fyrir það með eignum sem stjórn­­­ar­­menn­irnir töldu full­víst að væru minna virði en upp­­haf­­lega var af lát­ið.

Ráðn­­ing Ein­­ars til Skelj­ungs ýtti enn frekar undir þessa skoðun stjórn­­­ar­­mann­anna. Eitt af því sem hinn óháði aðili var lát­inn rann­saka var hvort eðli­­legt hefði verið að taka við greiðslu fyrir Skelj­ung í formi þeirra fast­­eigna sem not­aðar voru til að greiða fyrir hlut­inn. Þessi rann­­sókn virð­ist ekki hafa leitt neitt óeðli­­legt í ljós. Bank­inn greip að minnsta kosti ekki til neinna aðgerða gegn nýjum eig­endum Skelj­ungs né Ein­­ari sjálf­­um. Rann­­sóknin hefur hins vegar aldrei verið gerð opin­ber. Sam­kvæmt heim­ildum Kjarn­ans er hún þó hluti af grunni þess máls sem nú hefur leitt að sér aðgerðir af hendi hér­aðs­sak­sókn­ara.

Þrjú til­­­boð í hlut­inn

Eftir að lægja tók var eft­ir­stand­andi eign­­ar­hlutur Íslands­­­banka í Skelj­ungi síðan settur í for­m­­legt sölu­­ferli í nóv­­em­ber 2009. Ljóst var að það ferli yrði erfitt, enda um minn­i­hluta­­eign að ræða. BG Partner­s ­myndi alltaf ráða Skelj­ungi þótt ein­hverjir alls óskyldir fjár­­­festar kæmu að félag­inu. Þrátt fyrir það sýndu um 20 fjár­­­festar hlutnum áhuga í fyrstu og þrjú til­­­boð bár­ust í hann að lok­um: Frá sænska fyr­ir­tæk­in­u Atl­ant­ic T­ank ­Stora­ge, félagi í eigu Guð­­bjargar Matt­h­í­a­s­dótt­­ur, eig­anda Ísfé­lags­ins í Vest­­manna­eyjum og að lokum frá meiri­hluta­eig­end­unum í félag­inu, sem áttu for­­kaups­rétt sam­­kvæmt fyrri kaup­­samn­ingi. Til­­­boð þeirra Nönnu, Guð­­mundar og Birgis reynd­ist á end­­anum hag­­stæð­­ast og var því tek­ið. Þau greiddu mun lægra verð fyrir en þegar þau keyptu upp­­runa­­lega hlut­inn.

Birgir seldi sinn hlut í Skelj­ungi árið 2011, fjár­festi í Dom­in­o´s Pizza á Íslandi og seldi síðar þann hlut með miklum hagn­aði á und­an­förnum árum. Svan­hildur Nanna og Guð­­mundur áttu eftir það um 92 pró­­senta hlut í Skelj­ungi.

Allt gengur upp

Næstu árin virt­ist allt hafa gengið upp hjá Skelj­ungi. Félagið hagn­að­ist um tæpan 1,5 millj­­arð króna á árunum 2010 og 2011. Í febr­­úar 2012 end­­ur­fjár­­­magn­að­i ­Arion ­banki allar skuldir móð­­ur­­fé­lags Skelj­ungs sem greiddi með því upp allar skuldir sínar við Íslands­­­banka. Þar með var slitið á tengslin við for­­tíð­ina. Heild­­ar­skuldir voru enn háar, um 10,6 millj­­arðar króna í lok árs 2011, en eig­in­fjár­­­staðan var jákvæð um 3,7 millj­­arða króna.

Í til­­kynn­ingu frá félag­inu vegna þess­­arar afkomu sagði að mark­miðið með þessum við­­skiptum hefði verið að stuðla „að vexti félags­­ins, auka verð­­gildi þess og jafn­­framt að gera það að áhuga­verð­­ari fjár­­­fest­ing­­ar­­kost­i". Þar sagð­i enn frem­ur að „mikil umbreyt­ing [hefði] átt sér stað á rekstri og efna­hag Skelj­ungs á und­an­­förnum árum […] Nettó vaxta­ber­andi skuldir þess eru kr. 4.882 millj. og hafa lækkað um kr. 6.980 millj. síðan núver­andi eig­endur komu að rekstr­inum haustið 2008".

Skýr­ingar á þess­­ari lækkun á skuldum voru nokkr­­ar. Sú sem mestu skipti var svokölluð höf­uð­stólsleið­rétt­ing á skuldum sem Íslands­­­banki bauð fyr­ir­tækjum upp á. Við hana voru erlend lán Skelj­ungs færð yfir í krón­­ur. Í öðru lagi hafði hagn­aður félags­­ins verið ágætur auk þess sem það seldi höf­uð­­stöðvar sínar árið 2011. Það gerði Skelj­ungi kleift að greiða hraðar niður skuld­­ir.

Eign­­ast 66 pró­­sent í P/F ­Magn

Í októ­ber 2014 greindi Morg­un­­blaðið frá því  að Svan­hildur og Guð­­mund­­ur, í gengum eign­­ar­halds­­­fé­lagið Heddu, hefðu keypt fær­eyska félag­ið P/F ­Magn af þrota­­bú­i ­Fons vorið 2009 og að kaup­verðið hafi ein­ungis verið á þriðja hund­rað millj­­ónir króna. Sú tala þykir mjög lág því á árinu 2013 var velta félags­­ins 17 millj­­arðar króna og hagn­aður þess um 440 millj­­ónir króna.

Morg­un­­blaðið sagði að á árinu 2011 hafi Halla Sig­rún Hjart­­ar­dótt­ir, Einar Örn Ólafs­­son og Kári Þór Guð­jóns­­son, sem öllu unnu í fyr­ir­tækja­ráð­­gjöf Glitn­is/Ís­lands­­banka þegar Guð­­mundur og Svan­hildur Nanna keyptu Skelj­ung, eign­­ast 66 pró­­sent hlut í Heddu, sem á þeim tíma átt­i P/F ­Magn að öllu leyt­i.  Hvert og eitt þeirra átti eftir þetta 22 pró­­sent hlut í Heddu.

Í mars 2012, mán­uði eftir að Skelj­ungur var end­­ur­fjár­­­magn­að­­ur, var Skelj­ungur lát­inn kaupa 34 pró­­sent hlut í P/F ­Magn af Heddu, félagi þeirra Svan­hildar og Guð­­mund­­ar. Í aðdrag­anda kaupanna var hlutafé Skelj­ungs aukið um 447 millj­­ónir króna á geng­inu þrjár krónur á hlut. Sam­­kvæmt því var kaup­verðið á hlutnum í fær­eyska félag­inu í kringum 1,3 millj­­arðar króna. Kaup­verðið var greitt með nýju hlutafé í Skelj­ungi, og eftir við­­skiptin átti Hedda 25 pró­­sent í Skelj­ungi auk 66 pró­­sent hlutar í P/F ­Magn. Morg­un­­blaðið sagði hins vegar að fjórð­ungs­hlutur Heddu í Skelj­ungi hafi áfram verið einka­­eign Guð­­mundar og Svan­hildar Nönn­u. P/F ­Magn hafi Skelj­ungs­hjónin átt ásamt þre­­menn­ing­unum Höllu Sig­rúnu, Ein­­ari og Kára.

Félögin seld á átta millj­­arða

Í árs­­reikn­ingi fyrir árið 2011 hjá einu þeirra félaga sem Svan­hildur Nanna og Guð­­mundur áttu og hélt á hlut í Skelj­ungi kom fram að heild­­ar­virði Skelj­ungs hefði verið 6,9 millj­­arðar króna í lok þess árs. Það byggði á mati sem Straumur fjár­­­fest­inga­­banki hafði unnið fyrir félagið og var unnið út frá núvirt­u ­sjóð­streymi þess. Miðað við það hafði virði Skelj­ungs, sem keypt var af Íslands­­­banka á minna en þrjá millj­­arða króna, auk­ist mikið á árunum eftir banka­hrun. Á sama tíma er ljóst að Íslands­­­banki hafði tapað stór­­kost­­lega á félag­inu, bæði vegna 8,7 millj­­arða króna sölu­­trygg­ing­­ar­innar sem fyr­ir­renn­­ari bank­ans veitti Pálma Har­alds­­syni og vegna afskrifta á skuldum sem fylgdu hinni svoköll­uðu höf­uð­stólsleið­rétt­ingu sem félagið fékk hjá bank­an­­um.

Halla Sigrún Hjaltadóttir var stjórnarformaður Fjármálaeftirlitsins í eitt ár. Hún tók við stöðunni eftir Skeljungsviðskiptin.
Mynd: FME

Árið 2013 var svo greint frá því að Svan­hildur Nanna og Guð­­mundur hefðu ákveðið að selja allan hlut sinn í olíu­­­fé­lag­inu Skelj­ungi og dótt­­ur­­fé­lag­in­u P/F ­Magn. SÍA II, sjóður sem rek­inn er af ­sjóð­stýr­inga­fyr­ir­tæk­in­u ­Stefni, dótt­­ur­­fé­lag­i ­Arion ­banka, leiddi kaup­in. Morg­un­­blaðið sagði að kaup­verðið fyrir Skelj­ung hafi verið yfir fjórir millj­­arðar króna. Auk þess hafi 3,95 millj­­arðar króna verið greiddir fyrir fær­eyska félag­ið. Sam­tals var því greitt um átta millj­­arðar króna fyrir félögin tvö.

Neit­aði að eiga í Skelj­ungi eða tengdum félögum

Halla Sig­rún var skipuð stjórn­­­ar­­for­­maður Fjár­mála­eft­ir­lits­ins í des­em­ber 2013 af Bjarna Bene­dikts­­syni, þáver­andi og núver­andi fjár­­­mála­ráð­herra. Hún hafði áður starfað hjá Straumi í tvö ár en starfs­­lok hennar þar bar skynd­i­­lega að. 

Full­yrt var í fjöl­miðlum að starfs­lokin hefðu verið til­­komin vegna þess að upp komst um fjár­­­fest­ingar hennar í Skelj­ungi og P/F ­Magn. Halla neit­aði því í sam­tali við DV og sagð­ist aðspurð að hún ætti ekk­ert í Skelj­ungi eða félögum sem tengj­­ast olíu­­­fé­lag­inu. „Ég vil ekki tjá mig um fjár­­­fest­ingar mínar í fjöl­miðlum […] Ég hef ekki átt nein við­­skipti við Skelj­ung umfram það að kaupa bens­ín.“ 

Hún neit­aði því að komið hafi upp trún­­að­­ar­brestur á milli hennar og Straums áður en hún lét af störfum hjá bank­an­­um. „Nei, alls ekki.“ Halla Sig­rún sagð­ist kann­­ast við þessa „leið­in­­legu kjafta­­sögu“ en vildi ekki ræða málið í fjöl­mið­l­­um. 

Í umfjöllun Morg­un­blaðs­ins í októ­ber 2014 kom fram að Halla Sig­rún hefði hagn­­ast um lið­­lega 830 millj­­ónir króna þegar gengið var frá söl­unni á Skelj­ungi og fær­eyska olíu­­­fé­lag­in­u P/F ­Magn í lok árs 2013. Sam­­kvæmt því átti Halla Sig­rún tölu­verð við­­skipti við Skelj­ung umfram það að kaupa bens­ín.

Nokkrum dögum síðar var greint frá því að  Ís­lands­­­banki hefði kært Höllu Sig­rúnu til Fjár­­­mála­eft­ir­lits­ins og sak­­sókn­­ara eftir að hún lét af störfum hjá bank­an­um. Kær­­urnar voru á þeim tíma látnar niður falla hjá báðum emb­ætt­­um.

Í kjöl­far umfjöll­un­ar­innar til­kynnti Halla Sig­rún að hún myndi ekki sækj­ast eftir því að vera skipuð áfram stjórn­ar­for­maður Fjár­mála­eft­ir­lits­ins. Í yfir­lýs­ingu sem hún sendi vegna þessa neit­aði hún að það væri vegna Skelj­ungs­máls­ins. Þess í stað sagði hún­:„Ég geri mér grein fyrir því að gerð er rík krafa til ein­stak­linga sem taka að sér störf á vegum hins opin­bera. Á það ekki síst við um for­mennsku í stjórn Fjár­mála­eft­ir­lits­ins. Þeir sem taka að sér slík störf þurfa að þola að um þá sé fjallað og geri ég engar athuga­semdir við það. Hins vegar finnst mér langt til seilst þegar við­skipti mín eru gerð tor­tryggi­leg og fræjum efa­semda sáð um heil­indi mín. Þegar við bæt­ist að fjöl­skylda mín er áreitt af frétta­mönnum get ég ekki annað en brugð­ist við.“

Skelj­ungur var skráður á markað í des­em­ber 2016 og stærstu eig­endur félags­ins í dag eru íslenskir líf­eyr­is­sjóð­ir.

Bar­áttan um VÍS og stutt stjórn­ar­for­mennska

Svan­hildur Nanna og Guð­mundur not­uðu hluta þess hagn­aðar sem þau fóru með út úr Skelj­ungs­við­skipt­unum til að kaupa hluti í trygg­inga­fé­lag­inu VÍS. Upp­kaup þeirra á slíkum hlutum hófust í októ­ber 2014. 

Ári síðar fóru þau, ásamt hópi af öðrum einka­fjár­fest­um, að gera sig mjög gild­andi innan VÍS og sækj­ast eftir áhrif­um. Um tíma ríkti stríðs­á­stand í félag­inu vegna þessa og mjög hart var tek­ist á.

Aðrir sem tengj­ast þessum hópi voru félag Sig­urðar Bolla­sonar og Don McChart­hy, Grandi­er ehf., félagið Óska­bein, sem er m.a. í eigu Andra Gunn­ars­son­ar, Gests Breið­fjörð ­Gests­­son­ar og Fann­ars Ólafs­son­ar, og svo ­sjóð­stýr­inga­fyr­ir­tæk­ið ­Stefn­ir, sem er í eig­u ­Arion ­banka. Saman eign­að­ist þessi hópur rúm­lega 20 pró­sent hlut í VÍS og á baki hans var Svan­hildur Nanna kjör­inn stjórn­ar­for­maður félags­ins í mars í 2017. Hlutur hóps­ins hefur síðan minnkað umtals­vert, sér­stak­lega eftir að Grandi­er, sem átti yfir átta pró­sent hlut, seldi sig út í fyrra.

Á föstu­dag, dag­inn eftir aðgerðir hér­aðs­sak­sókn­ara, barst til­kynn­ing til Kaup­hallar Íslands þar sem stóð: „Svan­hildur Nanna Vig­fús­dótt­ir, stjórn­ar­for­maður VÍS, hefur óskað eftir því að stíga tíma­bundið niður sem for­maður af per­sónu­legum ástæð­um. Helga Hlín Hákon­ar­dótt­ir, vara­for­maður stjórn­ar, mun gegna starfi stjórn­ar­for­manns á með­an.“

Í yfir­lýs­ingu sem Svan­hildur Nanna sendi frá sér í kvöld, og var birt á vef RÚV, seg­ir: „Kaup okkar á hlutum í umræddum félögum bar að með eðli­­legum hætti og við teljum ein­­sýnt, að opin­ber rann­­sókn á við­­skipt­unum muni eyða öllum vafa um rétt­­mæti þeirra. Við höfum veitt full­­trúum hér­­aðs­sak­­sókn­­ara allar þær upp­­lýs­ingar sem þeir hafa óskað eftir og munum áfram aðstoða þá við rann­­sókn­ina. Við höfum að eigin frum­­kvæði greint Fjár­­­mála­eft­ir­lit­inu frá henni, stjórn­­endum og reglu­vörðum þeirra skráðu félaga sem við tökum þátt í að stýra. Rétt er að árétta, að þau félög tengj­­ast rann­­sókn­inni ekki á nokkurn hátt. Við munum áfram sitja í stjórnum félag­anna, en Svan­hildur Nanna ákvað að láta öðrum eftir stjórn­­­ar­­for­­mennsku í VÍS hf. á meðan rann­­sóknin stendur yfir.“

Frétta­skýr­ingin byggir að hluta til á áður birtri frétta­skýr­ingu frá því í októ­ber 2014 og bók­inni Ísland ehf. - Auð­menn og áhrif eftir hrun, sem kom út í ágúst 2013.

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar