Stundin hefur ákveðið að rjúfa lögbann á umfjöllun um viðskipti Bjarna Benediktssonar og tengdra aðila tengd Glitni í aðdraganda bankahrunsins. Í dagblaði Stundarinnar í dag birtust því fréttaumfjallanir um viðskipti Bjarna Ben í Glitnisskjölunum.
Þann 16. október 2017, rétt fyrir alþingiskosningar, lagði sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu lögbann á umfjöllun Stundarinnar um viðskipti þáverandi forsætisráðherra og fjölskyldu hans fyrir hrun sem byggði á viðamiklum gögnum innan úr Glitni banka. Þrotabú Glitnis, Glitnir Holdco, fór fram á lögbannið og lögðu nokkrir þeirra sem komið höfðu fyrir í umfjöllun Stundarinnar fram yfirlýsingar um að þeir teldu að brotið hefði verið gegn lögvörðum réttindum þeirra með birtingu upplýsinganna.
Umfjöllun Stundarinnar og Reykjavík Media um umsvif þáverandi forsætisráðherra og aðila sem tengdust honum lutu að viðskiptasambandi þeirra við einn hinna föllnu bana Glitni hf. á sama tíma og hann var þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sem þá sat í ríkisstjórn. Umfjöllunin tengdist þannig viðskiptaháttum í einum stóru viðskiptabankanna fyrir fall þeirra 2008.
Gjaldþrota banki fær ekki lengur að stjórna umfjöllun
Í ritstjórapistli blaðsins segir að á þeim 375 dögum sem liðnir eru frá því að lögbannið á Íslandi var lagt á hefur löggjafarvaldið ekki gripið til neinnar aðgerðar til að afstýra því að sýslumaður geti valsið aftur inn á ritstjórnarskrifstofur í fylgd hagsmunaaðila og lagt lögbann á umfjöllun fjölmiðla. Þrjár vikur eru síðan Landsréttur komst að þeirra niðurstöðu með afgerandi hætti að lögbannið væri ólöglegt og upplýsingarnar ættu erindi til almennings en forsvarsmenn Glitins HoldCo hafa ákveðið að að gefa ekki enn upp hvort sóst verði eftir áfrýjunarleyfi þar sem framlengt enn ólögmætt lögbann.
Ritstjórn Stundarinnar hefur því ákveðið að láta gjaldþrota banka ekki lengur ákveða hvað fjalla megi um í fjölmiðlum: „Ritstjórn Stundarinnar hefur ákveðið að láta ekki gjaldþrota banka lengur ákveða hvað megi fjalla um- bæði fjárhagslega, lagalega og siðferðislega gjaldþrota bankastofnun, þar sem sem stundað var það sem verður ekki kallað annað en skipuleg brotastarfsemi markaðsmisnotkunar og umboðssvika, í þeim tilgangi að blekkja almenning. Ekki er réttanlegt með neinu móti að beita þöggun til að koma í veg fyrir umræðu um blekkingu og misnotkun á aðstöðu, jafnvel þótt embætti Sýslumannsins í Reykjavík fallist á það án þess að taka tillit til tjáningarfrelsis og upplýsingaréttar almennings.“ segir í ritstjórapistli Jón Trausta Reynissonar og Ingibjargar Daggar Kjartansdóttur, þar sem greina þau frá ástæðum þess að ritstjórn Stundarinnar kaus að ljúka lögbanninu þegar í stað.
Benedikt Jóhannesson kemur fyrir í Glitnisskjölunum
Fyrsta fréttin um umsvif Bjarna Benediktsson í blaði Stundarinnar í dag ber fyrirsögnina „Svona notuðu Bjarni og Engeyjarfjölskyldan Íslandsbanka“. Í fréttinni kemur fram Bjarni Benediktsson stýrði fjárfestingum fyrirtækjaveldis föður síns og föðurbróður á bak við tjöldin fyrir hrunið 2008. Engeyjar voru þá ráðandi hluthafar íslandsbanka og vék bankinn ítrekað frá vinnureglum til að ganga erinda þeirra.
Í umfjöllun Stundarinnar kemur einnig fram að nafn Benedikts Jóhannessonar, fyrrverandi fjármálaráðherra, kemur fyrir á lánaskjali frá Glitni vegna lána til fjárfestingar í BNT ehf., móðurfélagi N1. Þar segir að til hafi staðið að lána honum 40 milljónir til hlutabréfakaupa í móðurfélagi N1. Benedikt segist ekki hafa fengið lánið en hann hafi fjárfest í BNT ehf.
Í blaðinu eru einnig greint frá því að Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, muni svara spurningum Stundarinnar um viðskipti Bjarna Benediktssonar sem opinberast í Glitnisskjölunum en fram kemur að hún hafði ekki tök á því að svara spurningunum áður en blaðið fór í prentun.