Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata, hefur skilað inn endurteknu erindi til Forsætisnefndar en hann telur að að rannsaka þurfi allar endurgreiðslufærslur á aksturskostnaði þingmanna. Í þetta skiptið biður hann sérstaklega um að endurgreiðslur á aksturskostnaði Ásmundar Friðrikssonar, þingmanns Sjálfstæðisflokksins, verði rannsakaðar.
Þetta kemur fram á facebook-síðu Björns Levís í dag.
Töluverð umræða var um málið fyrr á árinu í fjölmiðlum en Ásmundur fékk 4,6 milljónir króna endurgreiddar vegna aksturskostnaðar í fyrra. Það þýðir að hann fékk um 385 þúsund krónur á mánuði í endurgreiðslu úr ríkissjóði vegna keyrslu sinnar. Alls keyrði Ásmundur 47.644 kílómetra í fyrra, og fékk endurgreitt frá ríkinu vegna kostnaðar fyrir þann akstur.
Björn Leví segir jafnframt að síðasta erindi hans hafi verið vísað frá á þeim forsendum að enginn hefði verið tilgreindur. Björn Leví segist endurtaka erindi sitt um að rannsaka þyrfti allar endurgreiðslufærslur vegna orða skrifstofustjóra Alþingis. Samkvæmt Birni Leví sagði skrifstofustjórinn að skrifstofa Alþingis hefði ekki talið það vera í verkahring sínum að leggja mat á það hvort þingmaður ætti erindi á fund sem hann væri til dæmis boðaður á eða hvort rétt hefði verið að hann hefði boðað til fundar. Slíkt yrði að vera í höndum þingmannsins sjálfs.
„Að auki, af því að síðasta erindi var vísað frá, þá bið ég sérstaklega um að endurgreiðslur á aksturskostnaði Ásmundar verði sérstaklega rannsakaðar. Til þess að vera viss um að rannsókn á a.m.k. einum þingmanni eigi sér stað,“ segir Björn Leví.
Ástæðurnar sem Björn Leví gefur fyrir að benda á Ásmund sérstaklega eru tvær. Í fyrsta lagi vegna þess að Ásmundur er með langhæsta aksturskostnaðinn og í öðru lagi segir Björn Leví að fólk sem Ásmundur hafi átt að funda með hafi haft samband við hann og véfengt að þeir fundir hafi getað talist sem endurgreiðanlegur starfskostnaður.
Í erindi Björns Levís segir að með vísan til ofangreindra atriða sé þess óskað að forsætisnefnd taki til umfjöllunar hvort þeir þingmenn sem vísað er til að ofan hafi brotið siðareglur alþingismanna, sbr. 16. gr. siðareglnanna vegna þeirra endurgreiðslna sem þeir fengu fyrir aksturskostnað. Til vara sé þess óskað að athugað verði hvort Ásmundur Friðriksson, hafi brotið siðareglur alþingismanna vegna þeirra endurgreiðslna sem hann fékk fyrir aksturskostnað, sbr. 16. gr. siðareglnanna. Þess sé óskað að tekin verði afstaða til þess hvort siðareglur, hátternisreglur eða lög hafi verið brotin þegar málsathugun lýkur samkvæmt 17. gr. siðareglna alþingismanna og hvort þurfi að vísa málinu áfram til þar til bærra yfirvalda.
Þann 10. okt sl. sagði Ásmundur Friðriksson: "[Píratar] er fólkið sem stendur upp í þessum sal trekk í trekk, ber upp á...
Posted by Björn Leví Gunnarsson on Monday, October 29, 2018