Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri Reykjavíkurborgar, sér ekki fyrir sér að hann muni segja af sér embættinu vegna braggamálsins svokallaða. Á endanum sé það þó ekki bara hans að svara þeirri spurningu.
Hávær krafa hefur verið um það úr ranni hluta þeirra flokka sem eru í minnihluta í borgarstjórn að Dagur axli ábyrgð vegna málsins og segi af sér. Hann segir þann málflutning fyrst og síðast koma úr einni átt. „Þetta er málflutningur sem Morgunblaðsarmur Sjálfstæðisflokksins hefur haldið á lofti, ekki bara í þessu máli heldur hefur þetta verið nefnt óvenjuoft í tengslum við ýmislegt.“
Í þættinum í kvöld segir Dagur, sem verið hefur í veikindaleyfi undanfarnar vikur en snéri aftur til starfa í upphafi viku, einnig að stanslausar kröfur um afsögn sé nýr tónn í borgarstjórn. „Að hvað sem aflaga fer þá eigi borgarstjóri að fara frá. Þetta mál [braggamálið] er nú hjá innri endurskoðun. Við erum að fara yfir það. Ég kveinka mér ekkert undan því að mín ábyrgð eða annarra verði rædd þegar niðurstöðurnar liggja fyrir. En mér finnst þetta dæmi um mál sem eru mikilvæg, alvarleg, fara svolítið fljótt ofan í pólitískar skotgrafir áður en að öll kurl eru komin til grafar. Og ég er ekki viss um það að nota stór orð áður en gögnin liggja á borðinu sé skynsamleg leið til þess að nálgast umræðu yfir höfuð.“
Þetta er meðal þess sem fram kemur í ítarlegu viðtali Þórðar Snæs Júlíusson, ritstjóra Kjarnans, við Dag í sjónvarpsþættinum 21 á Hringbraut sem sýndur verður í kvöld. Hægt er að sjá stiklu úr þætti kvöldsins hér að neðan.
Bragginn í Nauthólsvík hefur valdið fjaðrafoki síðastliðnar vikur þar sem kostnaður við framkvæmdir endurgerðar hans fóru langt fram úr áætlun. Kostnaður við framkvæmdirnar nemur nú rúmlega 400 milljónum króna en upphaflega var gert ráð fyrir að hann yrði 158 milljónir.
Hæsti reikningurinn við framkvæmdirnar hljóðaði upp á 105 milljónir króna og grasstrá sem gróðursett voru í kringum bygginguna kostuðu 757 þúsund krónur. Framkvæmdum er enn ólokið en töluverð vinna er eftir í viðbyggingunni, þar sem til stendur að opna frumkvöðlasetur. Framkvæmdin er nú til skoðunar hjá innri endurskoðun Reykjavíkurborgar.
Auglýsing