Bára Huld Beck

„Braggablúsinn“ ekki kominn að lokanótunni

Náðhús, höfundaréttavarin strá, hönnunarljósakrónur og kostnaðaráætlun sem fór langt yfir öll mörk eru hluti af þeim farsa sem einkennir endurbætur á gömlum bragga við Nauthólsveg 100 sem Reykjavíkurborg stóð fyrir. Kjarninn fer yfir þetta einkennilega mál.

Bragg­inn í Naut­hóls­vík hefur aldeilis valdið fjaðrafoki síð­ast­liðnar vikur og ekki að undra þar sem kostn­aður við fram­kvæmdir end­ur­gerðar hans fóru langt fram úr áætl­un. Kostn­aður við fram­kvæmd­irnar nemur nú rúm­lega 400 millj­ónum króna en upp­haf­lega var gert ráð fyrir að hann yrði 158 millj­ón­ir. 

Hæsti reikn­ing­­ur­inn við fram­­kvæmd­irn­ar hljóð­aði upp á 105 millj­­ón­ir króna og gras­strá sem gróð­ur­­­sett voru í kring­um bygg­ing­una kost­uðu 757 þús­und krón­­ur. Fram­kvæmdum er enn ólokið en tölu­verð vinna er eft­ir í við­bygg­ing­unni, þar sem til stend­ur að opna frum­­kvöðla­set­­ur.

Bragg­inn og sam­byggð skemma voru byggð af Bretum og voru hluti af svoköll­uðu „Hótel Win­ston“ á stríðs­ár­unum en höfðu til árs­ins 2015 legið undir skemmd­um. Bragg­inn nýtur verndar í deiliskipu­lagi borg­ar­innar enda er hann tal­inn vera kenni­leiti og minjar um her­náms­árin í borg­inni.

Aðstaða fyrir nem­endur HR

Ari Krist­inn Jóns­son, rektor Háskóla Reykja­víkur og Dagur B. Egg­erts­son, borg­ar­stjóri, skrif­uðu undir í Naut­hóls­vík samn­ing þann 25. sept­em­ber 2015 þess efnis að braggi frá stríðs­ár­unum og tengdar bygg­ingar í Naut­hóls­vík myndu ganga í end­ur­nýjun líf­daga sem félags­að­staða fyrir nem­endur Háskól­ans í Reykja­vík og nýsköp­un­ar- og rann­sókn­ar­set­ur.

Stefnt var að því að nýt­ing hús­næð­is­ins yrði tví­þætt. Ann­ars vegar yrði félags­að­staða og veit­inga­sala á vegum stúd­enta við HR. Hins vegar yrði sköpuð aðstaða fyrir nýsköpun og sprota­fyr­ir­tæki innan Háskóla Reykja­víkur og meðal sam­starfs­að­ila. Alls er hús­næðið um 450 fer­metrar og var stefnt að því að taka fyrsta hluta þess í notkun strax um vor­ið.

Ari Krist­inn sagði við und­ir­skrift­ina árið 2015 að aðstaðan myndi nýt­ast nem­endum sem vinna að fjöl­breyttum nýsköp­un­ar­verk­efnum innan háskól­ans í sam­starfi við fyr­ir­tæki. Þetta væri hluti af metn­að­ar­fullum áætl­unum þeirra um að byggja upp nýsköp­un­ar­garð að erlendri fyr­ir­mynd við Háskól­ann í Reykja­vík, með aðstöðu fyrir fjöl­breytt nýsköp­un­ar­verk­efni og fram­sækin fyr­ir­tæki sem vilja njóta góðs af nálægð við stærsta tækni- og við­skipta­há­skóla lands­ins.

Dagur sagði þetta vera enn eitt jákvætt skref í sam­starfi borg­ar­innar og Háskól­ans í Reykja­vík. „Þetta verk­efni snýr beint að stúd­entum og því að skapa skemmti­legt námsum­hverfi en það snýst einnig um að skapa aðstöðu fyrir nýsköp­un­ar­hug­myndir sem er kjarna­þáttur í starf­semi Háskól­ans í Reykja­vík. Ástæðan fyrir því að borgin vill leggja þessu lið er að við viljum að borgin sé spenn­andi stað­ur, þar sem verða til nýjar hug­myndir og ný fyr­ir­tæki og þetta verk­efni passar mjög vel inn í þá mynd,“ sagði borg­ar­stjór­inn við til­efn­ið.

Stjórn Stúdentafélags HR ásamt borgarstjóra og rektor.

Meiri kostn­aður við að gera upp en byggja frá grunni

Lítið heyrð­ist í fjöl­miðlum næstu miss­erin en á meðan gekk bragg­inn góði í end­ur­nýjun líf­daga. Í júní síð­ast­lið­inn dró til tíð­inda þegar frétt­ist að nýr veit­inga­staður hefði verið opn­aður við Naut­hóls­vík. Sá ber nafnið Bragg­inn bar & bistró og var stað­ur­­inn hugs­aður til að sinna úti­­vistar­­fólki sem þarna fer um auk þess að vera heima­­völl­ur há­­skóla­stúd­­enta, að sögn Dal­m­­ars Inga Daða­son­ar, veit­inga­­stjóri á Bragg­an­um, í sam­tali við mbl.is í sum­ar.

Dró enn til tíð­inda þegar hausta tók og byrj­uðu fjöl­miðlar að fjalla um umfram­kostnað verk­efn­is­ins.

Í frétt RÚV frá byrjun sept­em­ber kom fram að upp­haf­leg kostn­að­ar­á­ætlun hafi hljóðað upp á 158 millj­ónir en fram­kvæmt hefði verið fyrir rúm­lega 400 millj­ón­ir, sam­kvæmt upp­lýs­ingum frá Reykja­vík­ur­borg. Borg­ar­ráð hefði sam­þykkt auk­inn kostnað við fram­kvæmd­irnar en inn­kaupa­ráð borg­ar­innar skoð­aði hvers vegna kostn­aður hljóp fram úr áætl­un.

„Það vill því miður vera þannig oft, ekki alltaf, að það er meiri kostn­aður þegar maður er að gera upp og er með miklu fleiri óvissu­þætti heldur en þegar maður er að rífa og byggja nýtt frá grunn­i,“ sagði Mar­grét Leifs­dótt­ir, arkítekt við verk­efn­ið, í sam­tali við RÚV. „Það er ótrú­lega sterkt og mik­il­vægt í þessu verk­efni að hafa ákveðið að halda í þessi hús og gera þau upp eins og þau eru.“

Í fund­ar­gerð borg­ar­ráðs frá 20. sept­em­ber síð­ast­liðnum er að finna öll gögn máls­ins ásamt grein­ar­gerð frá skrif­stofu eigna- og atvinnu­þró­un­ar. Þar er heild­ar­talan og kostn­að­ur­inn sund­ur­lið­aður og þau fyr­ir­tæki nefnd sem fengu greitt fyrir vinnu við verk­ið. Í svari upp­lýs­inga­stjóra Reykja­vík­ur­borgar við fyrir spurn Kjarn­ans var verkið ekki boðið út en eins og komið hefur fram í fjöl­miðlum þá hefur borg­ar­stjórn ákveðið að innri end­ur­skoðun Reykja­vík­ur­borgar muni fara yfir mál­ið.

Innri end­ur­skoðun fer yfir málið

Kolbrún Baldursdóttir, borgarfulltrúi Flokks fólksins.Kol­brún Bald­urs­dótt­ir, borg­ar­full­trúi Flokks fólks­ins, segir í sam­tali við Kjarn­ann að henni lít­ist hræði­lega á þetta allt saman og að stór­kost­leg mis­tök hafi verið gerð. Hún telur að borg­ar­búum og fjár­munum borg­ar­innar hafi verið sýnd mikil van­virð­ing.

Borg­ar­ráð sam­þykkti að fela Innri end­ur­skoðun Reykja­vík­ur­borgar að ráð­ast í heild­ar­út­tekt á öllu því ferli sem end­ur­gerð bragg­ans fól í sér á fundi sínum síð­ast­lið­inn fimmtu­dag. Í til­lög­unni segir að eng­inn angi máls­ins skuli vera und­an­skil­inn og allt skuli upp­lýst í þessu máli frá upp­hafi til enda. Einnig er óskað eftir því að Innri end­ur­skoðun Reykja­víkur geri til­lögur að umbótum í tengslum við það sem aflaga hefur farið og í bága við vand­aða stjórn­sýslu­hætti.

Kol­brún segir að sama hvað kemur út úr úttekt­inni þá breyti það engu um að einn maður beri ábyrgð á verk­inu, borg­ar­stjór­inn Dagur B. Egg­erts­son. Og þrátt fyrir að hann for­dæmi hversu mikið fram­kvæmdin hafi farið yfir áætlun þá sé þetta á hans ábyrgð.

Hvernig er borg­ar­stjóra stætt á að halda áfram?

Hún finnur fyrir mik­illi reiði hjá fólki vegna máls­ins, jafn­vel innan Sam­fylk­ing­ar­innar og það sé sama hvar fólk stendur í póli­tík­inni.

Kol­brún mót­mælir innri end­ur­skoð­un­inni harð­lega. Hún telur að of mikil teng­ing sé milli eft­ir­lits­að­il­ans og þeirra sem hann á að rann­saka. Þess í stað vill hún fá óháðan aðila til að gera úttekt­ina. „Auð­vitað kostar það, en hvað er hægt að gera þegar svona er kom­ið?“ spyr hún.

Hún spyr sig jafn­framt hvernig borg­ar­stjóra sé stætt á að halda áfram. „Með fullri virð­ingu fyrir honum sem mann­eskju en oft þegar fólk er búið að vera svo lengi við völd þá er það ekki gott,“ bætir hún við.

Málið er aftur á dag­skrá borg­ar­ráðs á þriðju­dag­inn í næstu viku.

Stráin frægu.
Bára Huld Beck

Vildu strand­stemn­ingu

Stráin sem gróð­ur­sett voru í kringum bragg­ann hafa verið gríð­ar­lega umtöluð en sam­kvæmt heim­ildum Eyj­unnar er um að ræða sér­stök strá sem eru höf­unda­rétta­var­in. Voru þau flutt sér­stak­lega inn til lands­ins frá Dan­mörku og heita á íslensku dún­mel­ur. Dún­melur er stór­vaxið gras og nauða­líkt hinu náskylda mel­gresi sem er að finna um allt land.

Í sam­tali við Frétta­blaðið þann 11. októ­ber síð­ast­lið­inn sagði Dagný Bjarna­dóttir lands­lags­arki­tekt – sem kom að því að velja hin umtöl­uðu strá við bragg­ann í Naut­hóls­vík ásamt garð­yrkju­manni – að þessi gróður hefði verið val­inn til að skapa strand­stemn­ingu.

„Í stað þess að setja þarna gróð­ur, runna eða þess háttar lang­aði okkur að hafa stemn­ingu sem er meira í ætt við strönd. Þess vegna voru valin strá en ekki hefð­bundnir runn­ar,“ sagði Dag­ný.

Sam­kvæmt Frétta­blað­inu nam kostn­aður við inn­kaup á plönt­unum sjálfum 756 þús­und krónum en nið­ur­­­setn­ing á þeim síðan 400 þús­und krón­ur. Alls 1.157 þús­und krón­ur.

Fleiri kostn­að­ar­liðir hafa vakið athygli, á borð við hönn­un­ar­ljósakrón­ur frá Dan­­mörku en hvor um sig kost­aði tæpa millj­­ón króna. 

Smíða­vinna dýr­ust

Hæsti reikn­ingur við fram­kvæmd­irnar var uppá 105 millj­ónir króna fyrir smíða­vinnu, sam­kvæmt fréttum RÚV í byrjun októ­ber. Á­stands­skoðun frá verk­fræði­stof­unni Eflu kost­aði tæpar 27 millj­ónir króna, rif bragga og frá­gangur tæp­lega 30 millj­ónir og arki­tekta­vinna tæpar 28,5 millj­ón­ir. Þar fyrir utan er hönnun lóðar sem kost­aði til við­bótar rúm­lega fimm millj­ónir og þar til við­bótar kemur svo frá­gangur lóðar sem er 21 milljón króna. 

Raf­lagnir og vinna við þær voru rúm­lega 35 millj­ón­ir. Blikk­ara­vinna er tæpar 16 millj­ón­ir. Múr­verkið hljóðar upp á tæpar 36,5 millj­ón­ir. Pípu­lagn­irnar eru tæp­lega 17 millj­ónir og smíða­vinnan skipt­ist á fjögur fyr­ir­tæki og er heild­ar­upp­hæðin rúm­lega 126 millj­ónir – eitt fyr­ir­tæki fær þó meiri­hlut­ann af þeirri greiðslu eða rúm­lega 105 millj­ón­ir. Þá var mið­lægur umsýslu­kostn­aður rúm­lega 12 millj­ón­ir.

Borg­ar­stjóri tjáir sig

Dagur B. Egg­erts­son borg­ar­stjóri tjáði sig loks­ins um málið í síð­ustu viku en á Face­book-­síðu sinni sagði hann að end­ur­gerð hús­anna og bragg­ans í Naut­hóls­vík væru alvar­legt dæmi um fram­kvæmd sem fer langt fram úr áætl­un.

„Fregnir af ein­staka reikn­ingum og verk­þáttum und­an­farna daga kalla aug­ljós­lega á skýr­ingar og und­ir­strika mik­il­vægi þess að málið er komið í hendur innri end­ur­skoð­unar Reykja­vík­ur­borg­ar. Til að und­ir­strika alvöru máls­ins leggur meiri­hlut­inn í borg­ar­stjórn fram til­lögu til sam­þykktar í borg­ar­ráði á morgun til að árétta að eng­inn angi máls­ins skal vera und­an­skil­inn og allt skal upp­lýst í þessu máli frá upp­hafi til enda,“ sagði hann í færsl­unn­i. 

End­ur­gerð hús­anna og bragg­ans í Naut­hóls­vík er alvar­legt dæmi um fram­kvæmd sem fer langt fram úr áætl­un. Fregnir af...

Posted by Dagur B. Egg­erts­son on Wed­nes­day, Oct­o­ber 10, 2018


Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnBára Huld Beck
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar