Bára Huld Beck

„Braggablúsinn“ ekki kominn að lokanótunni

Náðhús, höfundaréttavarin strá, hönnunarljósakrónur og kostnaðaráætlun sem fór langt yfir öll mörk eru hluti af þeim farsa sem einkennir endurbætur á gömlum bragga við Nauthólsveg 100 sem Reykjavíkurborg stóð fyrir. Kjarninn fer yfir þetta einkennilega mál.

Bragg­inn í Naut­hóls­vík hefur aldeilis valdið fjaðrafoki síð­ast­liðnar vikur og ekki að undra þar sem kostn­aður við fram­kvæmdir end­ur­gerðar hans fóru langt fram úr áætl­un. Kostn­aður við fram­kvæmd­irnar nemur nú rúm­lega 400 millj­ónum króna en upp­haf­lega var gert ráð fyrir að hann yrði 158 millj­ón­ir. 

Hæsti reikn­ing­­ur­inn við fram­­kvæmd­irn­ar hljóð­aði upp á 105 millj­­ón­ir króna og gras­strá sem gróð­ur­­­sett voru í kring­um bygg­ing­una kost­uðu 757 þús­und krón­­ur. Fram­kvæmdum er enn ólokið en tölu­verð vinna er eft­ir í við­bygg­ing­unni, þar sem til stend­ur að opna frum­­kvöðla­set­­ur.

Bragg­inn og sam­byggð skemma voru byggð af Bretum og voru hluti af svoköll­uðu „Hótel Win­ston“ á stríðs­ár­unum en höfðu til árs­ins 2015 legið undir skemmd­um. Bragg­inn nýtur verndar í deiliskipu­lagi borg­ar­innar enda er hann tal­inn vera kenni­leiti og minjar um her­náms­árin í borg­inni.

Aðstaða fyrir nem­endur HR

Ari Krist­inn Jóns­son, rektor Háskóla Reykja­víkur og Dagur B. Egg­erts­son, borg­ar­stjóri, skrif­uðu undir í Naut­hóls­vík samn­ing þann 25. sept­em­ber 2015 þess efnis að braggi frá stríðs­ár­unum og tengdar bygg­ingar í Naut­hóls­vík myndu ganga í end­ur­nýjun líf­daga sem félags­að­staða fyrir nem­endur Háskól­ans í Reykja­vík og nýsköp­un­ar- og rann­sókn­ar­set­ur.

Stefnt var að því að nýt­ing hús­næð­is­ins yrði tví­þætt. Ann­ars vegar yrði félags­að­staða og veit­inga­sala á vegum stúd­enta við HR. Hins vegar yrði sköpuð aðstaða fyrir nýsköpun og sprota­fyr­ir­tæki innan Háskóla Reykja­víkur og meðal sam­starfs­að­ila. Alls er hús­næðið um 450 fer­metrar og var stefnt að því að taka fyrsta hluta þess í notkun strax um vor­ið.

Ari Krist­inn sagði við und­ir­skrift­ina árið 2015 að aðstaðan myndi nýt­ast nem­endum sem vinna að fjöl­breyttum nýsköp­un­ar­verk­efnum innan háskól­ans í sam­starfi við fyr­ir­tæki. Þetta væri hluti af metn­að­ar­fullum áætl­unum þeirra um að byggja upp nýsköp­un­ar­garð að erlendri fyr­ir­mynd við Háskól­ann í Reykja­vík, með aðstöðu fyrir fjöl­breytt nýsköp­un­ar­verk­efni og fram­sækin fyr­ir­tæki sem vilja njóta góðs af nálægð við stærsta tækni- og við­skipta­há­skóla lands­ins.

Dagur sagði þetta vera enn eitt jákvætt skref í sam­starfi borg­ar­innar og Háskól­ans í Reykja­vík. „Þetta verk­efni snýr beint að stúd­entum og því að skapa skemmti­legt námsum­hverfi en það snýst einnig um að skapa aðstöðu fyrir nýsköp­un­ar­hug­myndir sem er kjarna­þáttur í starf­semi Háskól­ans í Reykja­vík. Ástæðan fyrir því að borgin vill leggja þessu lið er að við viljum að borgin sé spenn­andi stað­ur, þar sem verða til nýjar hug­myndir og ný fyr­ir­tæki og þetta verk­efni passar mjög vel inn í þá mynd,“ sagði borg­ar­stjór­inn við til­efn­ið.

Stjórn Stúdentafélags HR ásamt borgarstjóra og rektor.

Meiri kostn­aður við að gera upp en byggja frá grunni

Lítið heyrð­ist í fjöl­miðlum næstu miss­erin en á meðan gekk bragg­inn góði í end­ur­nýjun líf­daga. Í júní síð­ast­lið­inn dró til tíð­inda þegar frétt­ist að nýr veit­inga­staður hefði verið opn­aður við Naut­hóls­vík. Sá ber nafnið Bragg­inn bar & bistró og var stað­ur­­inn hugs­aður til að sinna úti­­vistar­­fólki sem þarna fer um auk þess að vera heima­­völl­ur há­­skóla­stúd­­enta, að sögn Dal­m­­ars Inga Daða­son­ar, veit­inga­­stjóri á Bragg­an­um, í sam­tali við mbl.is í sum­ar.

Dró enn til tíð­inda þegar hausta tók og byrj­uðu fjöl­miðlar að fjalla um umfram­kostnað verk­efn­is­ins.

Í frétt RÚV frá byrjun sept­em­ber kom fram að upp­haf­leg kostn­að­ar­á­ætlun hafi hljóðað upp á 158 millj­ónir en fram­kvæmt hefði verið fyrir rúm­lega 400 millj­ón­ir, sam­kvæmt upp­lýs­ingum frá Reykja­vík­ur­borg. Borg­ar­ráð hefði sam­þykkt auk­inn kostnað við fram­kvæmd­irnar en inn­kaupa­ráð borg­ar­innar skoð­aði hvers vegna kostn­aður hljóp fram úr áætl­un.

„Það vill því miður vera þannig oft, ekki alltaf, að það er meiri kostn­aður þegar maður er að gera upp og er með miklu fleiri óvissu­þætti heldur en þegar maður er að rífa og byggja nýtt frá grunn­i,“ sagði Mar­grét Leifs­dótt­ir, arkítekt við verk­efn­ið, í sam­tali við RÚV. „Það er ótrú­lega sterkt og mik­il­vægt í þessu verk­efni að hafa ákveðið að halda í þessi hús og gera þau upp eins og þau eru.“

Í fund­ar­gerð borg­ar­ráðs frá 20. sept­em­ber síð­ast­liðnum er að finna öll gögn máls­ins ásamt grein­ar­gerð frá skrif­stofu eigna- og atvinnu­þró­un­ar. Þar er heild­ar­talan og kostn­að­ur­inn sund­ur­lið­aður og þau fyr­ir­tæki nefnd sem fengu greitt fyrir vinnu við verk­ið. Í svari upp­lýs­inga­stjóra Reykja­vík­ur­borgar við fyrir spurn Kjarn­ans var verkið ekki boðið út en eins og komið hefur fram í fjöl­miðlum þá hefur borg­ar­stjórn ákveðið að innri end­ur­skoðun Reykja­vík­ur­borgar muni fara yfir mál­ið.

Innri end­ur­skoðun fer yfir málið

Kolbrún Baldursdóttir, borgarfulltrúi Flokks fólksins.Kol­brún Bald­urs­dótt­ir, borg­ar­full­trúi Flokks fólks­ins, segir í sam­tali við Kjarn­ann að henni lít­ist hræði­lega á þetta allt saman og að stór­kost­leg mis­tök hafi verið gerð. Hún telur að borg­ar­búum og fjár­munum borg­ar­innar hafi verið sýnd mikil van­virð­ing.

Borg­ar­ráð sam­þykkti að fela Innri end­ur­skoðun Reykja­vík­ur­borgar að ráð­ast í heild­ar­út­tekt á öllu því ferli sem end­ur­gerð bragg­ans fól í sér á fundi sínum síð­ast­lið­inn fimmtu­dag. Í til­lög­unni segir að eng­inn angi máls­ins skuli vera und­an­skil­inn og allt skuli upp­lýst í þessu máli frá upp­hafi til enda. Einnig er óskað eftir því að Innri end­ur­skoðun Reykja­víkur geri til­lögur að umbótum í tengslum við það sem aflaga hefur farið og í bága við vand­aða stjórn­sýslu­hætti.

Kol­brún segir að sama hvað kemur út úr úttekt­inni þá breyti það engu um að einn maður beri ábyrgð á verk­inu, borg­ar­stjór­inn Dagur B. Egg­erts­son. Og þrátt fyrir að hann for­dæmi hversu mikið fram­kvæmdin hafi farið yfir áætlun þá sé þetta á hans ábyrgð.

Hvernig er borg­ar­stjóra stætt á að halda áfram?

Hún finnur fyrir mik­illi reiði hjá fólki vegna máls­ins, jafn­vel innan Sam­fylk­ing­ar­innar og það sé sama hvar fólk stendur í póli­tík­inni.

Kol­brún mót­mælir innri end­ur­skoð­un­inni harð­lega. Hún telur að of mikil teng­ing sé milli eft­ir­lits­að­il­ans og þeirra sem hann á að rann­saka. Þess í stað vill hún fá óháðan aðila til að gera úttekt­ina. „Auð­vitað kostar það, en hvað er hægt að gera þegar svona er kom­ið?“ spyr hún.

Hún spyr sig jafn­framt hvernig borg­ar­stjóra sé stætt á að halda áfram. „Með fullri virð­ingu fyrir honum sem mann­eskju en oft þegar fólk er búið að vera svo lengi við völd þá er það ekki gott,“ bætir hún við.

Málið er aftur á dag­skrá borg­ar­ráðs á þriðju­dag­inn í næstu viku.

Stráin frægu.
Bára Huld Beck

Vildu strand­stemn­ingu

Stráin sem gróð­ur­sett voru í kringum bragg­ann hafa verið gríð­ar­lega umtöluð en sam­kvæmt heim­ildum Eyj­unnar er um að ræða sér­stök strá sem eru höf­unda­rétta­var­in. Voru þau flutt sér­stak­lega inn til lands­ins frá Dan­mörku og heita á íslensku dún­mel­ur. Dún­melur er stór­vaxið gras og nauða­líkt hinu náskylda mel­gresi sem er að finna um allt land.

Í sam­tali við Frétta­blaðið þann 11. októ­ber síð­ast­lið­inn sagði Dagný Bjarna­dóttir lands­lags­arki­tekt – sem kom að því að velja hin umtöl­uðu strá við bragg­ann í Naut­hóls­vík ásamt garð­yrkju­manni – að þessi gróður hefði verið val­inn til að skapa strand­stemn­ingu.

„Í stað þess að setja þarna gróð­ur, runna eða þess háttar lang­aði okkur að hafa stemn­ingu sem er meira í ætt við strönd. Þess vegna voru valin strá en ekki hefð­bundnir runn­ar,“ sagði Dag­ný.

Sam­kvæmt Frétta­blað­inu nam kostn­aður við inn­kaup á plönt­unum sjálfum 756 þús­und krónum en nið­ur­­­setn­ing á þeim síðan 400 þús­und krón­ur. Alls 1.157 þús­und krón­ur.

Fleiri kostn­að­ar­liðir hafa vakið athygli, á borð við hönn­un­ar­ljósakrón­ur frá Dan­­mörku en hvor um sig kost­aði tæpa millj­­ón króna. 

Smíða­vinna dýr­ust

Hæsti reikn­ingur við fram­kvæmd­irnar var uppá 105 millj­ónir króna fyrir smíða­vinnu, sam­kvæmt fréttum RÚV í byrjun októ­ber. Á­stands­skoðun frá verk­fræði­stof­unni Eflu kost­aði tæpar 27 millj­ónir króna, rif bragga og frá­gangur tæp­lega 30 millj­ónir og arki­tekta­vinna tæpar 28,5 millj­ón­ir. Þar fyrir utan er hönnun lóðar sem kost­aði til við­bótar rúm­lega fimm millj­ónir og þar til við­bótar kemur svo frá­gangur lóðar sem er 21 milljón króna. 

Raf­lagnir og vinna við þær voru rúm­lega 35 millj­ón­ir. Blikk­ara­vinna er tæpar 16 millj­ón­ir. Múr­verkið hljóðar upp á tæpar 36,5 millj­ón­ir. Pípu­lagn­irnar eru tæp­lega 17 millj­ónir og smíða­vinnan skipt­ist á fjögur fyr­ir­tæki og er heild­ar­upp­hæðin rúm­lega 126 millj­ónir – eitt fyr­ir­tæki fær þó meiri­hlut­ann af þeirri greiðslu eða rúm­lega 105 millj­ón­ir. Þá var mið­lægur umsýslu­kostn­aður rúm­lega 12 millj­ón­ir.

Borg­ar­stjóri tjáir sig

Dagur B. Egg­erts­son borg­ar­stjóri tjáði sig loks­ins um málið í síð­ustu viku en á Face­book-­síðu sinni sagði hann að end­ur­gerð hús­anna og bragg­ans í Naut­hóls­vík væru alvar­legt dæmi um fram­kvæmd sem fer langt fram úr áætl­un.

„Fregnir af ein­staka reikn­ingum og verk­þáttum und­an­farna daga kalla aug­ljós­lega á skýr­ingar og und­ir­strika mik­il­vægi þess að málið er komið í hendur innri end­ur­skoð­unar Reykja­vík­ur­borg­ar. Til að und­ir­strika alvöru máls­ins leggur meiri­hlut­inn í borg­ar­stjórn fram til­lögu til sam­þykktar í borg­ar­ráði á morgun til að árétta að eng­inn angi máls­ins skal vera und­an­skil­inn og allt skal upp­lýst í þessu máli frá upp­hafi til enda,“ sagði hann í færsl­unn­i. 

End­ur­gerð hús­anna og bragg­ans í Naut­hóls­vík er alvar­legt dæmi um fram­kvæmd sem fer langt fram úr áætl­un. Fregnir af...

Posted by Dagur B. Egg­erts­son on Wed­nes­day, Oct­o­ber 10, 2018


Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnBára Huld Beck
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar