Icelandair uppfyllir ekki skilmála skuldabréfaútgáfu upp á 190 milljónir Bandaríkjadala, eða um 22,8 milljarða króna, en vinnur nú að langtímalausn á málinu með viðræðum við skuldabréfaeigendur.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá félaginu til kauphallar. Afkoma Icelandair hefur farið versnandi að undanförnu, og þess vegna þarf félagið nú að endursemja um skuldirnar.
Hagnaður á þriðja ársfjórðungi nam þó 62 milljónum Bandaríkjadala, eða sem nemur um 7,4 milljörðum króna. Það er lækkun um 36 prósent milli ára.
„Samkvæmt uppgjöri þriðja ársfjórðungs félagsins sem birt var í dag, og líkt og þegar hefur verið greint frá, hefur verið staðfest að ofangreind fjárhagsleg skilyrði eru ekki uppfyllt. Félagið hefur átt í góðum viðræðum við skuldabréfaeigendur undanfarið í tengslum við langtímalausn vegna málsins. Í dag hefur félagið gefið umboðsmanni skuldabréfaeigenda, Nordic Trustee & Agency AB, fyrirmæli um að hefja skriflegt ferli (e. Written Procedure) þar sem óskað verður eftir formlegri undanþágu frá ofangreindum fjárhagslegum skilyrðum skuldabréfanna til 30. nóvember nk. í því skyni að meiri tími verði til stefnu til að finna langtímalausn vegna málsins. Málsmeðferð þessi byggir á 18. gr. skuldabréfanna. Hin tímabundna undanþága nýtur nú þegar stuðnings meirihluta eigenda skuldabréfanna. DNB Markets starfar sem fjárhagslegur ráðgjafi Icelandair Group vegna málsins,“ segir í tilkynningu frá félaginu.
Markaðsvirði Icelandair hefur hrunið undanfarin misseri en markaðsvirði félagsins nemur nú 32 milljörðum króna. Eigið fé félagsins var í lok þriðja ársfjórðungs meira en tvöfalt meira, eða sem nam um 69 milljörðum króna.
Handbært fé nam um 175 milljónum Bandaríkjadala, í lok þriðja ársfjórðungs, eða sem nemur um 21 milljarði króna.
Það dróst töluvert saman milli ársfjórðunga en það var um mitt ár rúmlega 240 milljónir Bandaríkjadala eða sem nemur um 28,8 milljörðum króna.