Til lengri tíma litið er rafbílavæðing á Íslandi hagkvæm fyrir þjóðina ásamt því að hún skilar umtalsverðum samdrætti í útblæstri gróðurhúsalofttegunda. Aðrir ávinningar rafbílavæðingar eru til dæmis minni loftmengun, aukið orkuöryggi, stöðugra verðlag orku og ýmis annar efnahagslegur ávinningur. Þetta kemur fram í nýrri greiningu á þjóðhagslegri hagkvæmni rafbílavæðinga sem hópur úr Háskólanum í Reykjavík og Háskóla Íslands vann á vegum Samorku, Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins, Orkuseturs, Íslenskrar Nýorku og Grænu Orkunnar. Niðurstaða greiningarinnar var kynnt á fundi í Norræna húsinu í morgun.
Íslensk stjórnvöld hafa skuldbundið sig til að taka þátt í markmiði ESB um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda um 40 prósent árið 2030 miðað við losun ársins 1990. Slíkur samdráttur kallar á orkuskipti í samgöngum meðal annars rafvæðingu fólksbíla. Í skýrslu hópsins kemur fram að rafvæðing fólksbíla sé eitt stærsta tækifæri sem Íslendingar hafa til að ná markmiðum Parísarsamkomulagsins um minnkun útblásturs gróðurhúsalofttegunda. Greining er á þjóðhagslegri hagkvæmi rafbílavæðingar en skoðað var hvaða aðgerðir eru hagkvæmastar til að flýta fyrir rafbílavæðingu og hvaða árangri þær geta skilað, einnig var skoðað hvort rafvæðing bílaflotans geti verið efnahagslega hagkvæm.
Nýskráning dísil og bensínbíla óheimil árið 2030
Íslensk stjórnvöld settu fram á 146 löggjafarþingi þingsályktun um aðgerðaráætlun um orkuskipti. Þar kemur fram að stjórnvöld stefna að 10 prósent hlutdeild endurnýjanlegrar orku í samgöngum á Íslandi árið 2020 og 40 prósent árið 2030. Í dag er hlutdeild endurnýjanlegrar orku í samgöngum um 6 prósent. Rafvæðing bílaflotans er mögulegt skref í átt að þessum markmiðum. Í september 2018 kynntu síðan stjórnvöld aðgerðaáætlun í loftslagsmálum 2018 til 2030 þar sem sett voru fram 34 atriði til að vinna gegn loftslagsbreytingum, meðal annars að nýskráning dísil- og bensínbíla verði óheimil eftir árið 2030.
Í skýrslunni kemur fram að breytingar á orkukerfum sé dýr og hægvirk aðgerð. Því er lagt áherslu á að mikilvægt sé að hefjast handa strax og að ígrunda allar ákvarðanir vel. Ávinningurinn er þó mikill, og ekki aðeins í samhengi samdráttar í losun gróðurhúsalofttegunda. Annar ávinningur getur verið margs konar svo sem minni loftmengun, aukið orkuöryggi, stöðugra verðlag orku og ýmis annar efnahagslegur ávinningur.
Virðisaukaskattsívilnanir á hreina rafmagnsbifreiðir virðast bera bestan árangur
Niðurstöður greiningarinnar gefa til kynna að heildaráhrif rafbílavæðingar séu jákvæð, bæði þegar litið er til þjóðhagslegra stærða og fjárhagslegra hagsmuna neytenda. Niðurstöður sýna að hlutfall hreinna rafmagnsbifreiða (BEV: battery-electric vehicle) og tengiltvinnbifreiða (PHEV: plug-in-hybrid electric vehicle) af bílaflotanum mun aukast á næstu árum. Hversu mikil aukningin verður er mjög háð ákvörðunum stjórnvalda og aðstæðum á markað, samkvæmt skýrslunni. Áhrif á afkomu ríkissjóðs eru háðar þeim leiðum og stjórntækjum sem verða notaðar til að hafa áhrif á orkuskipti í samgöngum. Til skemmri tíma fylgir rafbílavæðingu kostnaður, en með réttri notkun á stjórntækjum má stýra hvar sá kostnaður lendir. Til lengri tíma er rafbílavæðing hagkvæm fyrir þjóðina, til viðbótar við þann umtalsverða árangur sem hún skilar í samdrætti á útblæstri gróðurhúsalofttegunda.
Skoðaðir voru fjórar sviðsmyndir í greiningunni; óbreytt ástand tillögur, tillögur með viðbót og tillögur með banni. Í niðurstöðum greiningarinnar er „tillögur með viðbót“ sú sviðsmynd sem best styður við þau markmið að draga hratt úr útblæstri með hlutfallslega litlum kostnaði fyrir ríkissjóð og bifreiðaeigendur. Sú tillaga gerðir ráð fyrir varanlegum virðisaukaskattsívilnunumá hreinum rafmagnsbifreiðum ásamt því sem gert er ráð fyrir núverandi ívilnunum varðandi virðisaukaskatt fyrir bifreiðar með lítinn útblástur, þ.m.t. rafmagnsbifreiðar falli niður árið 2020, eða þegar 10.000 bifreiðar af hverjum flokki hafa verið skráðar.
Rafmagnsbílar gætu orðið 80 prósent bílaflotans árið 2050
Meðallíftími bifreiða er um 12 til 13 ár sem þýðir að það er mikil tregða í bílaflotanum og breytingar taka langan tíma. Sviðsmyndin „Tillögur með viðbótum“ sem þýðir að stjórnvöld myndu bæta við virðisaukaskattsívilnunum fyrir hreinar rafmagnsbifreiðir, sem er í raun beinn fjárstuðningur tengdur kaupum á bifreið. Ef beitt verður tillögunni um skattaívilnanir þá verður tæplega annar hver nýskráður bíll hrein rafmagnsbifreið árið 2030. Sú tillaga sýnir að hlutfall hreinna rafmagnsbifreiða getur farið í allt að 60 prósent af bílaflotanum og allt að 80 prósent bílaflotans væru annaðhvort hreinar raf-magnsbifreiðar eða tengiltvinnbifreiðar árið 2050. Ef ekki er beitt sakttaívilnunum þá má gera ráð fyrir að 27 prósent til 42 prósent verði hreinir rafmagnsbifreiðar og um 58 prósent til 72 prósent bílaflotans verði annað hvort hreinar rafmagnsbifreiðar eða tengiltvinnbifreiðar.
Sviðsmyndin „Tillögur með banni“ nær samkvæmt skýrslunni miklum árangri eftir árið 2030 þegar bann við sölu bifreiða sem brenna kolefnaeldsneyti tekur gildi og við lok ársins 2050 er fjöldi rafmagnsbifreiða sambærilegur við sviðsmyndina „Tillögur með viðbót“, og útblástur hefur einnig dregist álíka mikið saman. Hinsvegar eru þó nokkur ár þangað til árið 2030 rennur upp og því er útblásturinn þangað til talsvert meiri en í tillögu með viðbót. Því má draga þá ályktun að bannið sé sterk aðgerð sem hafi jákvæð áhrif en fram að gildistöku þess þurfi aðrar áhrifaríkar aðgerðir þar sem tíminn frá 2018 til 2030 skiptir miklu máli.
Í skýrslunni er tekið fram að áhugavert gæti verið að skoða fleiri sviðsmyndir sem blanda saman ívilnunum og banni. Einnig væri áhugavert að taka inn í greininguna aðra vistvæna valmöguleika svo sem metan og vetni. Því til viðbótar væri áhugavert að greina betur aðgerðir sem taka til þyngri ökutækja til atvinnurekstrarnota.
Þarf fleiri aðgerðir en rafbílavæðingu
Í niðurstöðum skýrslunnar er tekið fram að breytingar á samsetningu bílaflotans taka langan tíma og því er afar ólíklegt að rafbílavæðing ein og sér muni leiða til þess að markmiðum Parísarsamkomulagsins verði náð fyrir árið 2030 hvað snýr að samdrætti í útblæstri gróðurhúsalofttegunda frá samgöngum.
Rafbílavæðingin þykir nauðsynlegur þáttur í þeirri vegferð, en til að markmiðum Parísarsamkomulagsins verði náð að fullu þarf mun áhrifaríkari aðgerðir en hafa verið greindar eru í skýrslunni. Skýrslan leggur tila ð skoða þarf aðrar kerfislegar breytingar eins og til dæmis að greiða fyrir úreldingu mengandi bifreiða, eflingu almenningssamgangna og aðgerðir sem stuðla að breyttum ferðavenjum.
Til lengri tíma er rafbílavæðing hagkvæm fyrir þjóðina, til viðbótar við þann umtalsverða árangur sem hún skilar í samdrætti á útblæstri gróður-húsalofttegunda. Rafbílavæðing hefur einnig önnur jákvæð óbein áhrif sem snerta þjóðarhag, svo sem minni loftmengun og aukið orkuöryggi, og áhrifin eru jákvæðari eftir því sem rafbílavæðingin verður dýpri. Þegar þessir þættir eru teknir til greina að auki eru áhrif rafbílavæðingar ótvírætt þjóðhagslega jákvæð.