Fólk sem var eitt í heimili var mun líklegra til að vera á leigumarkaði en á heimilum þar sem voru tvö fullorðin eða fleiri. Árið 2016 var 41 prósent einstaklingsheimila á leigumarkaði, 48,3 prósent karla sem bjuggu einir og 32,5 prósent kvenna í sömu stöðu. Um helmingur einstæðra foreldra, eða 51,8 prósent, bjó í leiguhúsnæði árið 2016.
Þetta kemur fram í niðurstöðum lífskjararannsóknar Hagstofu Íslands fyrir árin 2004 til 2016 sem birtust í dag á vefsíðu stofnunarinnar.
Rúmlega fjórðungur heimila, eða 26,4 prósent, var á leigumarkaði árið 2016 eða áætlað um 35.100 heimili. Á sama tíma voru 73,6 prósent heimila í eigin húsnæði eða um 97.500 heimili.
Af heimilum með börn voru 22,5 prósent á leigumarkaði en meðal barnlausra heimila var hlutfallið hærra eða 28,8 prósent.
Tekjulágir frekar á leigumarkaði
Þegar litið er á stöðu fólks í lægsta fimmtungi ráðstöfunartekna árið 2016 voru 44,2 prósent á leigumarkaði á meðan hlutfallið var 6,6 prósent í hæsta tekjufimmtungi. Af þessu má sjá að eftir því sem ráðstöfunartekjur eru hærri, því lægra hlutfall er á leigumarkaði, að jafnaði.
Þegar staðan árið 2016 er borin saman við árið 2004, þegar lífskjararannsóknin var fyrst lögð fyrir, jókst hlutfall leigjenda í lægsta tekjufimmtunginum um 77 prósent. Hins vegar var ekki marktæk breyting á hlutfalli leigjenda í þeim hópi sem hafði hæstar tekjur milli áranna tveggja.
Hlutfall fólks á leigumarkaði árið 2016 tengdist einnig aldri. Hæst var hlutfall á leigumarkaði meðal fólks á aldrinum 25 til 34 ára eða 38,8 prósent, en lægst í elstu aldurshópunum. Um 22,8 prósent barna 0 til 17 ára bjó í leiguhúsnæði árið 2016. Þetta er vöxtur um 85 prósent miðað við árið 2004 er hlutfallið var 12,3 prósent.