Greinandi Capacent segir að honum hafi liðið „eins á laugardagsmorgni eftir kvöld á Kaffibarnum“ þegar rýnt væri í forsendur kaupverðs HB Granda á Ögurvík. „Svarið við alheiminum og tilgangi lífsins er 42,“ segir meðal annars, og vitnað til þess að hægt sé að fá út hin ýmsu verð á Ögurvík, þegar það er verið að greina kaup HB Granda á félaginu.
Töluna 42 í samhengi við svarið við spurningunni um tilgang lífsins, má rekja til bókarinnar The Hitchhiker's Guide to the Galaxy eftir Douglas Adams.
Framhaldshluthafafundur samþykkti á dögunum kaup HB Granda á Ögurvík, en seljandi þess er Útgerðarfélag Reykjavíkur, áður Brim, sem jafnframt er stærsti eigandi HB Granda, með rúmlega 35 prósent hlut.
Guðmundur Kristjánsson er stærsti eigandi þess, en hann er jafnframt forstjóri HB Granda.
Gildi lífeyrissjóður óskaði eftir því að fyrirtækjasvið Kviku banka tæki saman minnisblað um kaupin, áður en þau yrðu borin upp til samþykkis á hluthafafundi, var var það gert.
Minnisblaðið studdist við gögn frá stjórnendum HB Granda, og sagði kaupin, upp á 12,3 milljarða króna, geta skilað HB Granda umtalsverðum ávinningi.
Í umsögn greinanda Capacent segir að markaður með aflaheimildir sé um margt hulinn leynd. „Markaður með aflaheimildir er hulin gráu skýi og væri það mikil breyting til batnaðar ef haldið væri kerfisbundið um verð aflaheimilda og gögnin gerð opinber. Líkt og Ásgeir Daníelsson bendir á í Kjarnanum myndi slík birting leiða til sanngjarnari veiðigjalda,“ segir meðal annars í umfjöllun Capacent.
Í umfjöllun Capacent segir að gróft reiknað sé verðið á Ögurvík 9,5 milljarðar króna og því sé 28 prósent „álag“ á kaupverðinu. „HB Grandi gerði samning um kaup á Ögurvík í byrjun september sem gerir út skipið Vigra RE, kaupverðið er 12,3 milljarðar króna. Það er full ástæða til að klóra sér í skallanum yfir verðinu en rekstrarhagnaður eða EBITDA Ögurvíkur var 348 milljónir árið 2017 og 366 milljónum árið 2016. Kaupverðið nemur því um 35-földum rekstrarhagnaði (P/EBITDA=35). Aflaheimildir Ögurvíkur eru 7.680 tonn af botnfiski og 1.663 tonn af makríl. Gróft reiknað fær Capacent að verðmæti aflaheimilda nemi 8,5 til 9 milljörðum króna og eigið fé félagsins nemur um 750 milljónum. Samkvæmt grófum útreikningum fær Capacent út að verð Ögurvíkur sé um 9,5 milljörðum og því sé um 28% álag á kaupverðið. Þessi niðurstaða fæst með að meta verðmæti aflaheimilda en ljóst er að sjóðsstreymisverðmat gefur mun lægra verð. Þessum útreikningum verður þó að taka með öllum fyrirvörum en ekki er um nákvæma eða ítarlega úttekt um að ræða. Auk þess upplýsingar um verð aflaheimilda mættu vera áreiðanlegri,“ segir í umfjöllun Capacent.