Berglind Hafsteinsdóttir, formaður Flugfreyjufélags Íslands, segir í samtali við Kjarnann að beinast liggi við að félagsmenn stéttarfélagsins haldi sínum dampi eftir fréttir af kaupum Icelandair á WOW air. „Við vitum ekki meira en við höfum lesið í blöðunum að félögin verða rekin með óbreyttu sniði,“ segir hún.
Fram kom í fréttum í dag að stjórn Icelandair Group hafi gert kaupsamning um kaup á öllu hlutafé í flugfélaginu WOW air. Kaupin eru meðal annars gerð með fyrirvara um samþykki hluthafafundar Icelandair Group, samþykki Samkeppniseftirlitsins og niðurstöðu áreiðanleikakönnunar.
Nú þegar eru flugfreyjur og -þjónar Icelandair og Air Iceland Connect – sem eru bæði dótturfélög Icelandair Group – með mismunandi kjarasamninga en þeir renna út um næstu áramót. Berglind segir að líklegast verði óbreytt snið hjá félaginu varðandi þá kjarasamninga.
Samningar WOW air verða aftur á móti ekki lausir fyrr en árið 2020. „Tíminn mun leiða í ljós hvað gerist og hvernig þetta kemur til með að atvikast. Hvort við þurfum að setjast að samningaborðinu með breyttar forsendur eða ekki,“ segir Berglind.
Samkvæmt tilkynningu vegna kaupanna verða félögin áfram rekin undir sömu vörumerkjum en sameiginleg markaðshlutdeild þeirra á markaðnum yfir Atlantshafið er um 3,8 prósent. „Með yfirtökunni skapast tækifæri til sóknar á nýja markaði og auk þess er gert ráð fyrir að einingakostnaður Icelandair Group muni lækka,“ segir í tilkynningunni.