„Áætlað er að skrifstofa borgarstjóra og borgarritara komi til með að kosta 854 milljónir á árinu 2019. Það eru 2 bragga-krónur.“
Þetta segir Vigdís Haukdsóttir, borgarfulltrúi Miðflokksins, á Facebook síðu sinni, og vitnar til fjárhagsáætlunar Reykjavíkurborgar fyrir árið 2019.
Frumvarp um fjárhagsætlun var kynnt fyrir borgarfulltrúum ásamt bréfi frá fjármálaskrifstofu borgarinnar, þar sem ítrekaður var fyrirvari um trúnað á gögnunum fram til klukkan 14:00 6. nóvember, það er á morgun.
Trúnaðurinn er meðal annars vegna þess að Reykjavíkurborg er með skráðan skuldabréfaflokk á markaði, og þarf að gæta samræmis og jafnræðis í opinberri upplýsingagjöf um fjármál borgarinnar.
Mikið hefur verið deilt á meirihlutann í borginni að undanförnu, og þá ekki síst Dag B. Eggertsson, vegna framúrkeyrslu við uppgerð á Bragga í Nauthólsvík. Upphaflega var áformað að kostnaðurinn yrði 158 milljónir en ljóst er að kostnaðurinn mun fara yfir 400 milljónir.
Í viðtali við Þórð Snæ Júlíusson, ritstjóra Kjarnans, á Hringbraut, sagðist Dagur ekki sjá fyrir sér afsögn vegna framúrkeyrslunnar.
Bragginn í Nauthólsvík hefur valdið fjaðrafoki síðastliðnar vikur þar sem kostnaður við framkvæmdir endurgerðar hans fóru langt fram úr áætlun. Kostnaður við framkvæmdirnar nemur nú rúmlega 400 milljónum króna en upphaflega var gert ráð fyrir að hann yrði 158 milljónir.
Hæsti reikningurinn við framkvæmdirnar hljóðaði upp á 105 milljónir króna og grasstrá sem gróðursett voru í kringum bygginguna kostuðu 757 þúsund krónur. Framkvæmdum er enn ólokið en töluverð vinna er eftir í viðbyggingunni, þar sem til stendur að opna frumkvöðlasetur. Framkvæmdin er nú til skoðunar hjá innri endurskoðun Reykjavíkurborgar.