Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra lagði í morgun fram tillögu á ríkisstjórnarfundi um að allar ráðherrabifreiðar yrðu rafvæddar. Tillagan var samþykkt. Framkvæmdin er þó ekki sérstaklega tímasett að öðru leyti en að til standi að skipta út öllum ráðherrabílunum fyrir rafmagnsbíla á næstu árum.
Í tilkynningu segir að þetta sé gert í samræmi við loftslagsstefnu Stjórnarráðsins og aðgerðaáætlun stjórnvalda í loftslagsmálum.
Á ríkisstjórnarfundinum var samþykkt að hefja þegar undirbúning að útboðum í takt við þróun rafbíla á markaði hér á landi. “Stefnt er að því að skipta út öllum ráðherrabifreiðum á næstu árum með það að markmiði að þeim tíma liðnum verði allar ráðherrabifreiðar knúnar rafmagni.“
Í tilkynningunni segir að þegar hafi verið settar upp rafhleðslustöðvar á bílastæði forsætisráðuneytis, umhverfis- og auðlindaráðuneytis, dómsmálaráðuneytis, samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytis og atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis og að stefnt sé að uppsetningu slíkra stöðva á bílastæðum allra ráðuneyta á næstu mánuðum.