David Rowland og sonur hans Jonathan sem yfirtóku starfsemi Kaupþings í Lúxemborg skömmu eftir hrun eru sagðir viðloðandi tilraunum Manchester City til að komast framhjá fjármálareglum evrópska knattspyrnusambandsins. Þetta kemur fram í þýska fjölmiðlinum Der Spiegel í öðrum hluta umfjöllunar sinnar um spillingu í fótboltaheiminum en RÚV greinir fyrst frá íslenskra miðla.
Í frétt RÚV kemur fram að Kaupþing í Lúxemborg hafi verið dótturfélag Kaupþings á árunum fyrir hrun og gegnt mikilvægu hlutverki í starfsemi bankans erlendis. Það sjáist meðal annars af því að bankinn kom við sögu í öllum fjórum dómsmálunum sem sérstakur saksóknari höfðaði gegn stjórnendum Kaupþings eftir hrun.
„Þegar Kaupþing fór á hausinn í vikunni í október 2008 þegar hver íslenski bankinn féll á fætur öðrum var íslenski hlutinn endurreistur og gengur nú undir nafninu Arion banki. Erlend starfsemi bankans skilin frá honum. Þar á meðal var Kaupþing í Lúxemborg,“ segir í fréttinni.
Feðgarnir David og Jonathan Rowland tóku yfir Kaupþing í Lúxemborg eftir hrun og breyttu nafninu í Banque Havilland. „Afraksturinn varð Banque Havilland, og upptalning á dótturfélögum þess hljómar eins og ferðahandbók fyrir fjárfesta sem vilja komast hjá óþægilegum spurningum og skattaskilum: Lúxemborg, Liecthenstein, Bahamaseyjur og Sviss,“ segir í grein Der Spiegel í dag.
Í umfjölluninni kemur fram að feðgarnir hafi hjálpað stjórnendum og eigendum Manchester City að fara á svig við reglur evrópska knattspyrnusambandsins (UEFA) um fjármál fótboltaliða. Reglurnar eiga að koma í veg fyrir að lið eyði meira fé en þau afla en þær eru bæði hugsaðar til að sporna við því að lið lendi í fjárhagsvanda og koma í veg fyrir að auðmenn geti skekkt samkeppnisstöðu liða á vellinum.
Í frétt RÚV segir að til að bregðast við þessu hafi stjórnendur City komið sér upp áætlun sem kallaðist Langbogi. „Með henni átti að tryggja að fé bærist frá Mansour bin Zayed Al Nahyan, eiganda liðsins, til félagsins en að þær væru dulbúnar svo ekki kæmist upp um svikin. Þetta fullyrðir fjölmiðillinn hið minnsta og byggir umfjöllun sína á tölvupóstsamskiptum. Þar segir að Rowland feðgarnir hafi verið fengnir að borðinu til að byggja upp „kastala úr lygum“. Það hafi verið gert með því að stofna félög á aflandseyjum til að halda utan um réttindamál og greiðslur til leikmanna Manchester City.
Það á meðal annars við um fyrirtækið Fordham Sports Management, að sögn blaðsins. Það var notað sem skjól til að leyna því að eigendur City í Abu Dhabi lögðu liðinu til mun meira fé en þeim var heimilt.Kaupþing kemur við sögu í fjármálahneyksli sem tengist auðmönnum og eign þeirra á fótboltaliðum í umfjöllun þýska fjölmiðilsins Der Spiegel í dag. Fjölmiðillinn hóf í gær umfjöllun sína í fjórum hlutum um hvernig eigendur og stjórnendur Manchester City hafa komist hjá reglum um fjármál knattspyrnufélaga. Þar segir að við sögu komi risafjárframlög til bresks stjórnmálaflokks og íslenskur banki sem fór á hausinn, en ekki kom fram í fyrstu greininni um hvaða banka væri að ræða,“ segir í fréttinni.