Íslandsbanki hefur fjárfest fyrir 3 milljónir evra, eða sem nemur um 410 milljónum króna, í íslenska hugbúnaðarfyrirtækinu Meniga. Íslandsbanki er þriðji bankinn til að fjárfesta í Meniga á árinu. Í apríl var tilkynnt um þriggja milljóna evra fjárfestingu norræna viðskiptabankans Swedbank í fyrirtækinu og í júní var greint frá því að alþjóðlegi bankinn Unicredit hefði fjárfest í Meniga fyrir sömu upphæð.
Samkvæmt tilkynningu bankans verður fjárfestingin notuð til að styrkja samstarfið við Meniga enn frekar og til að bjóða viðskiptavinum betri notendaupplifun í gegnum snjallsíma og netabanka. Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka segir þetta vera hluti af starfrænu vegferð bankans til að efla þróun fjártæknilausna framtíðarinnar enn frekar.
Meniga var stofnað árið 2009 og er hugbúnaður sem á að auðvelda fólki að hafa yfirlit yfir heimilsfjármálum. Hugbúnaðurinn sækir og flokkar sjálfvirkt allar færslur úr bankanum þínum. Meðal viðskiptavina Meniga eru margir stærstu banka heims en þeirra á meðal eru Santander, Commerzbank, ING Direct og Intesa Sanpaolo. Hugbúnaður Meniga hefur verið innleiddur hjá yfir 80 fjármálastofnunum og er hann aðgengilegur yfir 65 milljón manns í 30 löndum. Íslandsbanki gerðist fyrsti viðskiptavinur Meniga árið 2009 þegar bankinn innleiddi heimilisbókhalds lausnir Meniga.