Icelandair Group hyggst ekki sækja um undanþágu frá samkeppnislögum til þess að láta kaup félagsins á WOW air koma til framkvæmda á meðan Samkeppniseftirlitið rannsakar þau. Samkeppniseftirlitið hefur því allt að 114 virka daga, rúma fjóra mánuði, til þess að taka afstöðu til kaupa. Frá þessu er greint í Markaðnum, fylgiriti Fréttablaðsins, í dag.
Tilkynnt var að stjórn Icelandair Group hefði gert kaupsamning um kaup á öllu hlutafé í flugfélaginu WOW air á mánudaginn. Kaupin voru meðal annars gerð með fyrirvara um samþykki hluthafafundar Icelandair Group, samþykki Samkeppniseftirlitsins og niðurstöðu áreiðanleikakönnunar. Kaupi eru talin björgunaraðgerð til þess að bregðast við erfiðri fjárhagsstöðu WOW air, sem gat illa lifað af liðin mánaðamót. Ef ekki hefði verið gripið til aðgerða nú hefði rekstur WOW air líkast til stöðvast.
Ekkert fast í hendi
Þegar WOW air tók yfir rekstur Iceland Express haustið 2012 fengu félögin undanþágu til þess að yfirtakan gæti komið til framkvæmda á meðan á málsmeðferð Samkeppniseftirlitsins stóð með þeim rökum að mikil óvissa ríkti um rekstrarhæfi Iceland Express. Hætta væri á því að reksturinn myndi fljótlega stöðvast ef kaupin næðu ekki fram að ganga.
Það getur komið til skoðunar í samrunamáli Icelandair og WOW air hvort síðarnefnda félagið sé á fallandi fæti í skilningi samkeppnisréttar segir Heimir Örn Herbertsson, sérfræðingur í samkeppnisrétti við Háskólann í Reykjavík. Samkvæmt Heimi ber samkeppnisyfirvöldum að samþykkja samruna ef slík sjónarmið eigi við þótt leiða megi rök að því að samkeppni minnki í kjölfar samrunans.
„Hins vegar er slík niðurstaða háð afar ströngum skilyrðum. Það er ekkert fast í hendi að hver sem er megi kaupa félag þó svo að það sé illa statt fjárhagslega,“ nefnir Heimir Örn í samtali við Markaðinn.
Gætu þurft að sannfæra eftirlitið að Icelandair Group hafi verið eini raunhæfi kaupandinn
Heimir Örn segir jafnframt viðbúið að Samkeppniseftirlitið muni vilja leggja mat á samkeppnisleg áhrif samrunans. Það þýðir að eftirlitið þarf að skilgreina markaði málsins og meta stöðu félaganna á þeimn og búast má við því að félögin leggi áherslu á þau sé litlir keppinautar á stórum markaði fyrir flug á milli áfangastaða vestanhafs og austanhafs segir Heimir. Hann segir jafnramt að hugsanlega vilji eftirlitið hins vegar skilgreina markaðina heldur þrengra. Eftir því sem markaðir eru skilgreindir þrengra eru meiri leikur á niðurstöðu um skaðleg áhrif samruna á samkeppni, meðal annars með hliðsjón af hárri markaðshlutdeild samrunaaðila og fleira.
Ef Icelandair Group og WOW air byggja á því í málatilbúnaði sínum fyrir Samkeppniseftirlitinu að síðarnefnda félagið sé á fallanda fæti, eins og líkur benda til, og því beri að heimila yfirtökuna, þá þurfa félögin meðal annars að sannfæra eftirlitið um að enginn raunhæfur möguleiki hafi verið á því að selja WOW air til annarra félaga en Icelandair Group. Frá þessu er greint í umfjöllun Markaðirns
Krafan um að fara í viðræður við Icelandair Group um kaup á WOW air kom frá lánardrottnum félagsins, m.a. þeim sem höfðu tekið þátt í útboðinu samkvæmt heimildum Kjarnans. Arion banki er helsti lánardrottinn WOW air hérlendis og hefur því án efa leikið lykilhlutverk í þeirri kröfugerð. Arion banki hefur ekki viljað upplýsa um hvort hann, eða sjóðstýringarfyrirtækið Stefnir, hafi tekið þátt í skuldabréfaútboðinu hjá WOW air.
Samkvæmt heimildum Markaðarins muni forsvarsmenn WOW air gera eftirlitinu grein fyrir ýmsum misheppnuðum viðræðum sem þeir hafi undanfarið átt við fjárfesta um kaup á hlutafé í flugfélaginu. Tilraunir til þess að fá fjárfesta að borðinu séu þannig fullreyndar.
Mögulegt að leita heimilda til greiðslustöðvunar
Einn hugsanlegur möguleiki í stöðunni fyrir WOW air er að leita heimilda til greiðslustöðvunar á meðan Samkeppniseftirlitið rannsakar kaup Icelandair á flugfélaginu samkvæmt Arnari Þór Stefánsson, hæstaréttarlögmaður á LEX. Slíkt úrræði er almennt hugsað til þess að veita félögum skjól frá kröfuhöfum til þess að vinna úr sínum málum. Samkvæmt Arnari er það hins vegar spurning hvort og að hvaða marki það úrræði henti í þessu tilviki.
„Á meðan félag er í greiðslustöðvun geta kröfuhafar að meginstefnu ekki beitt neinum vanefndaúrræðum gagnvart því, til dæmis ekki gert fjárnám hjá því eða knúið það í gjaldþrot, og stjórnvöld geta heldur ekki beitt neinum þvingunarúrræðum.Það er sérstaklega mælt fyrir um það í lögum um gjaldþrotaskipti að ákvæði í samningum eða réttarreglum um afleiðingar vanefnda, til dæmis gjaldfellingarákvæði, taki ekki gildi gagnvart skuldaranum á þeim tíma sem greiðslustöðvun stendur yfir, sem getur í mesta lagi verið sex mánuðir,“ segir Arnar Þór í samtali við Markaðinn.