Útgáfa hvítbókar um framtíðarsýn og stefnu fyrir fjármálakerfið á Íslandi hefur dregist en stefnt er að því að hvítbókin verði birt í lok þessa mánaðar. Í svari Bjarna Benediktssonar fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn frá Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni um ráðgjöf og störf við tímabundin eða afmörkuð verkefni kemur fram að sundurliðun varðandi greiðslur til meðlima í starfshópnum sem vinna að hvítbókinni séu mjög misjafnar.
Ólíkar greiðslur milli þeirra sem vinna að hvítbókinni skýrast af mismunandi vinnuframlagi. Þetta kemur fram í svari fjármála- og efnahagsráðuneytinu við fyrirspurn Kjarnans. Jafnframt kemur fram að frá því hópurinn var skipaður hafi Sylvía Kristín Ólafsdóttir hætt þátttöku í honum en ekki hafi verið skipað í hópinn í hennar stað. Arnór Sighvatsson, hagfræðingur og fyrrverandi aðstoðarseðlabankastjóri, hafi aftur á móti verið fenginn til þess að liðsinna hópnum.
Í samtali við Kjarnann segir Sylvía að engin stór ástæða sé fyrir því að hún hafi hætt í nefndinni. „Ég var búin að taka margt annað að mér og hafði mörgu að sinna,“ segir hún.
Lárus L. Blöndal hæstaréttarlögmaður og stjórnarformaður Bankasýslu ríkisins er formaður starfshópsins en með honum eru þau Guðrún Ögmundsdóttir, forstöðumaður lausafjáráhættu og fjármálafyrirtækja hjá Seðlabanka Íslands, Guðjón Rúnarsson, lögmaður og fyrrverandi framkvæmdastjóri Samtaka fjármálafyrirtækja og Kristrún Tinna Gunnarsdóttir, hagfræðingur hjá Oliver Wyman í Svíþjóð.
Samkvæmt ráðuneytinu hefur Kristrún hefur fengið tæpar 9,2 milljónir og Lárus tæplega 7,5 milljónir. Guðjón hefur fengið greiddar 2,8 milljónir og þær Guðrún og Sylvía 1,3 milljónir hvor. Þá hefur fyrirtækið STC fengið þrjár milljónir fyrir efnisvinnu við gerð hvítbókarinnar og Arnaldur Hjartarson, sem skipaður var héraðsdómari í febrúar, hefur fengið greidda eina milljón króna.
Útgáfan frestaðist
Í yfirlýsingu frá fjármálaráðuneytinu sem send var út í febrúar síðastliðnum kemur fram að markmiðið sé að skapa traustan grundvöll fyrir umræðu, stefnumörkun og ákvarðanatöku um málefni er varða fjármálakerfið, framtíðargerð þess og þróun.
Kveðið var á um stofnun hópsins í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar þar sem lögð var áhersla á að stefnumarkandi ákvarðanir um fjármálakerfið verði teknar eftir umfjöllun Alþingis um framtíðarsýn fjármálakerfisins á Íslandi sem byggi á þessari hvítbók um efnið. Hvítbókin hafi að leiðarljósi aukið traust á íslenskum fjármálamarkaði, aukið gagnsæi og fjármálastöðugleika. Í sáttmálanum segir einnig að ríkisstjórnin vilji vinna að frekari skilvirkni í fjármálakerfinu, að dregið verði úr áhættu vegna óskyldra þátta í starfsemi fjármálafyrirtækja og að sérstaklega verði litið til annarra lítilla opinna hagkerfa og reynslu annars staðar á Norðurlöndunum við mótun framtíðarsýnarinnar.
Í frétt Kjarnans frá því í september síðastliðnum kom fram að skipun nefndarinnar hefði tafist töluvert miðað við það sem ætlunin var þegar dagsetningin 15. maí var ákveðin. „Nefndin hóf ekki störf fyrr en í febrúar og því ljóst að þau tímamörk voru ekki raunhæf,“ sagði Lárus, formaður nefndarinnar. Nefndin óskaði eftir umsögnum margra aðila og bárust þær síðustu í júlí síðastliðnum. Forsætisráðherra kynnti í vor á þingi á stefnt væri að því að nefndin lyki störfum í haust.